Elsa segir að óperan sé ákaflega dramatísk enda byggð á sönnum íslenskum atburði sem margir geta samsamað sig. Þegar Elsa lýsir verkinu segir hún: „Stutt ástarsamband fyrir hálfri öld rifjast upp fyrir Hjálmari þegar ástkonan deyr og hann er á leið í jarðarför. Áróra, sú látna, skipar stóran sess í hjarta hans en hún ól honum barn sem hann gekkst ekki við. Þegar hann kvæntist annarri konu lofaði hann að eiga engin samskipti við þennan son sem hann eignaðist í fyrra sambandi,“ útskýrir Elsa. „Verkið fjallar um einmanaleika, einangrun og eitraða karlmennsku.“

Það er Bjarni Thor Kristinsson sem fer með hlutverk Hjálmars, sonurinn Almar fær rödd Gissurar Páls Gissurarsonar, Elsa fer með hlutverk eiginkonunnar, Báru, og Björk Níelsdóttir er rödd ástkonunnar Áróru.

Óbærileg þögn

„Þessi ópera er algjör snilld og sagan snart mig djúpt því það sama kom fyrir móður mína, Clöru Grimmer Waage,“ segir Elsa. „Móðir hennar, amma mín, varð ófrísk eftir mann sem hún hitti í Færeyjum en hann var skipstjóri á skosku sjávarrannsóknaskipi. Honum láðist að láta hana vita að hann væri þegar kvæntur maður. Móðir mín er frá Færeyjum en saga hennar er ekki ólík sögu margra Íslendinga fyrri ára,“ segir hún.

Skipstjórinn lét sig hverfa en móðir hennar fór þremur árum seinna og skildi hana eftir hjá foreldrum sínum. Móðirin fór að vinna í Danmörku og kom aldrei til baka. „Móðir mín mátti aldrei vita neitt um föður sinn, það var þaggað niður ef hún spurði. Þetta var ærandi þögn eins og í óperunni og þess vegna tengi ég vel við söguna,“ útskýrir Elsa en fjölskyldan hefur í nokkur ár verið í rannsóknarvinnu til að finna rætur Clöru.

„Faðernið var vitað þótt engin samskipti hafi verið á milli þeirra. Hann var fæddur í Skotlandi en við höfum komist að því að ættir hans komu að mestu frá austurströnd Englands. Bróðir minn, Snorri, hefur verið afar ötull í þessari rannsóknarvinnu en við fundum leiði langafa okkar og þá staði þar sem rætur fjölskyldunnar liggja í sumar,“ segir Elsa en systkinin og móðir þeirra fóru til Englands fyrr í sumar til að heimsækja þessar slóðir.

Elsa fór með móður sinni og bróður til Englands í sumar en þau vildu kanna uppruna þeirra sem liggur þar í landi.FRÉTTABLAÐIÐ/8ANTON BRINK

Fann rætur sínar

„Það hefur verið móður minni, sem er 87 ára, mikils virði að uppgötva rætur sínar og upplifa staðinn þaðan sem uppruni hennar kemur. Lengi hefur hún haft eins konar tómarúm í sálinni sem skapaðist við það að alast upp foreldralaus. Það hafði ekki síður áhrif á okkur að fylgjast með viðbrögðum hennar,“ segir Elsa.

„Mamma og Snorri höfðu áður farið í ferð til Skotlands og komust að því þar að í raun var föðurfjölskyldan írsk og bresk. Móðir mín ber ættarnafnið Grimmer og þegar Covid stóð sem hæst setti ensk kona sig í samband við hana en hún hafði farið í DNA-rannsókn sem fólk getur pantað sér og fann mömmu í gegnum hana. Þetta var nokkrum dögum áður en við fórum til Englands í sumar. Þær reyndust skyldar í þriðja ættlegg. Það urðu miklir fagnaðarfundir þegar þær hittust í fyrsta sinn og alveg stórkostlegt að sjá mömmu upplifa þessa stund. Eiginlega eins og að sjá gamalt sár lokast,“ segir Elsa og bendir á að í gamla daga hafi verið mikil skömm að vera óskilgetið barn og foreldralaus að auki. „Hún mátti ekki einu sinni leika við hvern sem var. Langafi minn og -amma voru hins vegar hennar bjargvættir og voru sérlega góð við hana. Auk þess hefur mamma alltaf verið í mjög góðum tengslum við móðursystur sínar og við fórum oft til Færeyja þegar ég var krakki. Þegar aðrir fóru í sveit fór ég þangað,“ segir Elsa.

Faðir Elsu, Steinar Waage, rak skóverslun sem margir muna eftir og er enn til ásamt því að vera með skóviðgerðir og -smíðar. Móðir hennar tók fullan þátt í rekstrinum. Þau kynntust í Danmörku þegar Clara fór í húsmæðraskóla og hann í skósmíðanám. Steinar lærði meðal annars gervilimaskósmíðar en sjálfur var hann fatlaður eftir lömunarveiki sem hann fékk fimm ára. „Þau voru tveir stórhuga karakterar með elju og löngun til að gera góða hluti,“ segir Elsa eftir að hafa rifjað upp sorgarsögu móður sinnar.

Kynntist ástinni á Ítalíu

Elsa var verkefnalaus eins og flestir listamenn í Covid og réð sig þá til vinnu við afgreiðslustörf í Lyfjavali auk þess sem hún hefur lengi kennt í Fjölmennt og verið leiðsögumaður í Hörpu. Þá kennir hún einnig söng í Söngskóla Sigurðar Demetz. „Mér finnst skemmtilegt að taka að mér hin ýmsu störf og reyni alltaf að hafa gaman af því sem ég tek mér fyrir hendur hverju sinni,“ segir hún.

Elsa lærði söng hjá Elísabetu Erlingsdóttur á sínum tíma og hélt síðan til Hollands í frekara nám. Þaðan fór hún til Bandaríkjanna þar sem hún lauk háskólagráðu í tónlist. Eftir átta ár í Bandaríkjunum flutti Elsa til Sienna á Ítalíu til að verða betri í ítölsku. Þar kynntist hún ástinni. Elsa bjó í 19 ár stutt frá Como-vatninu ásamt eiginmanni og dóttur. Hún söng bæði á Ítalíu og víðar í Evrópu. Þegar eiginmaðurinn féll skyndilega frá ákvað Elsa að flytja heim rétt fyrir áramótin 2012 og segir að stórfjölskyldan hafi tekið vel á móti henni. „Það reyndist ekki auðvelt fyrir mig að vera einstæð móðir á Ítalíu eftir þetta áfall,“ segir hún.

Elsa segist í rauninni vera ævintýrafíkill og væri alveg til í að fara aftur til Ítalíu ef hún hefði tök á því. Dóttir hennar býr úti og þær mæðgur ætla að ferðast um Suður-Ítalíu í haust. „Þangað hef ég aldrei komið og hlakka mikið til,“ segir hún.

Íslendingar flykkjast til Ítalíu í sumar og Elsa segist hafa tekið eftir því. „Ég held að margir kjósi núna að njóta matar og menningar í staðinn fyrir að flatmaga í sólbaði á Spánarströnd. Það eru svo margir staðir á Ítalíu sem hafa mikla sögu auk þess sem þar eru skemmtilegar gönguleiðir. Flóran er svo fjölbreytt,“ segir hún.

Gaman að koma aftur

Elsa segist vera mjög spennt yfir því að stíga á svið aftur eftir langt hlé. „Ég hef ekki komið fram síðan ég tók þátt í óperunni Góðan daginn, frú forseti, sem Alexandra Chernyshova samdi og var flutt árið 2020. Fyrir utan tónleika þá hef ég ekki tekið þátt í óperu frá því ég setti sjálf upp Signora Langbrók í Kaldalóni árið 2017 en þar á undan söng ég í óperunni Ragnheiði. Það er rosalega gaman að koma aftur og vinna með ungu hæfileikaríku fólki,“ segir hún.

Þögnin er eftir Helga Rafn Ingvarsson tónskáld og Árna Kristjánsson handritshöfund en sagan kemur úr hans fjölskyldu. Sýningar verða 19. og 20. ágúst í Tjarnarbíói.“