Yfir Gullinbrú er þriðja sýningin í röð fimm útisýninga sem Myndhöggvarafélagið stendur fyrir í aðdraganda 50 ára afmælis félagsins árið 2022 en sýningarnar eru haldnar árlega á sumrin í ólíkum hverfum innan borgarinnar.

„Myndhöggvarafélagið hefur á 50 ára starfstíma haldið margar sýningar á verkum félagsmanna sinna, ekki síst útisýningar enda fást félagsmenn gjarnan við verk sem eiga vel heima í opinberu rými og tala þar til fólks,“ segir Birta Guðjónsdóttir sýningarstjóri.

„Listaverk í opinberu rými eru gjarnan unnin í þannig efni að þau geti staðið í lengri tíma utandyra en núna nýlega er verið að sprengja það form. Fólk er að kynnast því að njóta listaverka utandyra sem eru ekki gerð úr bronsi eða steini og er ekki gerð til að endast að eilífu heldur í skemmri tíma og breytast jafnvel á meðan á sýningu stendur.“

Á sýningunni sýna tíu listamenn verk sín. Allt félagsmenn í myndhöggvarafélaginu fyrir utan eina gestalistakonu, frönsku og alsírsku listakonuna Hanan Benammar.

„Ferlið hófst þannig að félagsmenn komu með tillögur að verkum sem þá langaði að skapa í samtali við hverfið. Ég var svo fengin til skjalanna sem sýningarstjóri og valdi úr tillögur sem mér þóttu áhugaverðar og við hæfi. Eftir það hófst samtal og nýsköpun á verkum sem eru sérstaklega gerð fyrir þessa sýningu og fyrir hverfið og það félagslega samhengi og náttúru sem má finna í Grafarvogi,“ útskýrir Birta.

Verkin eru á víð og dreif um Grafarvoginn. Birta segist hafa viljað leggja áherslu á að gestir sýningarinnar, Grafarvogsbúar og aðrir, færu á milli ólíkra hluta þessa víðfeðma hverfis.

„Þetta er svo stórt svæði, maður fer frá því að vera í iðnaðarhverfi yfir í íbúðarhverfi yfir í garða og villta náttúru þar sem aðeins heyrist í fuglasöng.

Á sýningunni sýna níu konur og einn karl verk sín en Birta segir konur vera í meirihluta starfandi myndlistarmanna í landinu.

„Við erum samt með miklu færri varanleg listaverk eftir konur í borgarlandslaginu. En einhvern vegin hefur það æxlast þannig að á þessari sýningu eru mun fleiri kvenkyns listamenn. Nokkrar þeirra hafa unnið töluvert í opinberu rými. Þórdís Alda Sigurðardóttir og Brynhildur Þorgeirsdóttir eru kannski þekktastar þeirra fyrir útiverk sín.“

Birta segir ánægjulegt að skapaður sé vettvangur þar sem fleiri konur koma inn á þennan völl og líka að verkefni af þessu tagi geti skapað samræðu og annars konar upplifun af borgarlandslaginu. Þar sem list og arkitektúr, manngerð náttúra og villt náttúra spila saman.“

Verk Brynhildar Þorgeirsdóttur Tíminn og efnið.

Varpa fram spurningum um opinbert rými

Á sýningunni eru nokkur verk sem eru annars eðlis en að fólk getið gengið að þeim og séð þau. Það má til dæmis nefna verk eftir Elísabetu Brynhildardóttur sem er staðsett í Gorvík, vík milli Víkur- og Staðahverfis. Verkið ber titilinn Á tólfta tíma (Til minningar um Jesústeininn).

„Verkið hennar er þannig að gestum sem koma á staðinn er boðið að ganga út á einskonar bryggju. Á ákveðjum tímum sólarhringsins á háflóði er upplifunin lík því að ganga á vatni. Verkið er sprottið af minningu hennar um frásögn pabba síns af göngu á vatni og þegar komið er á staðinn er hægt að hlaða niður frásögn pabba hennar, í farsíma,“ segir Birta.

Í dag, laugardag, er hægt að ganga á vatninu líkt og Jesú klukkan 8:20 að morgni og klukkan 20:20 að kvöldi. Á sunnudag er hægt að ganga á vatninu klukkan 9:20 og 21:20 . Nýjar tölur eru svo uppfærðar jafnóðum á facebook-síðu Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík. Á öðrum tímum sólarhringsins sést bryggjan ofar vatnsyfirborðinu.

„Það eru tvö önnur verk á sýningunni sem þú getur ekki heimsótt á ákveðnum stöðum og þau varpa fram spurningum um hvað opinbert rými er í raun og veru í okkar samtíma. Annars vegar er það ljósmyndasería eftir Huldu Rós Guðnadóttur sem er sett inn reglulega á Instagram-síðu Myndhöggvarafélagsins,“ segir Birta.

„Hins vegar er það verk eftir fyrrnefnda Hanan Benammar. Það er verk þar sem hægt er að hringja í ákveðið símanúmer og ræða um ákveðnar tilfinningar, sem listamaðurinn hefur valið og settar eru fram, við ónefnt fólk sem svarar símanum þegar hringt er. Við höfum dreift kortum með þessum tilfinningum og símanúmerinu á víð og dreif um Grafarvog en númerið (555 0004) kemur líka fram á heimasíðu sýningarinnar undir nafni listamannsins.“

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru:

  • Anna Júlía Friðbjörnsdóttir
  • Brynhildur Þorgeirsdóttir
  • Elísabet Brynhildardóttir
  • Eygló Harðardóttir
  • Hanan Benammar
  • Hulda Rós Guðnadóttir
  • Klængur Gunnarsson
  • Rebecca Erin Moran
  • Vala Sigþrúðar Jónsdóttir
  • Þórdís Alda Sigurðardóttir

Á vefsíðu sýningaraðarinnar, www.hjolid.is má finna nánari upplýsingar um sýninguna og kort yfir staðsetningu verkanna.

Brotabrot eftir Þórdísi Öldu Sigurðardóttur.
Verkið Þrír hringfarar eftir Eygló Harðardóttur.
Brot úr verkinu Every Body Holds a Beat eftir Rebecca Erin Moran