Systur fluttu Með hækkandi sól á dómararennsli úrslitakeppni Eurovision nú fyrir stundu og flutningurinn var með besta móti. Þetta er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að mistök urðu í hljóðblöndun á dómararennsli fyrir undanriðilinn á þriðjudag.
Í dómararennslinu gefa dómararar keppnislöndum stig og á morgun verða síðan atkvæði talin í símakosningu til stigagjafar annað kvöld. Samanlögð stig í dómnefndarrennsli og símakosningu munu síðan ákvarða hver ber sigur af hólmi í Eurovision 2022.
Dómararennslið er sérlega mikilvægt fyrir íslensku systurnar þar sem líklegt þykir að þeim gangi einna best í þeim hluta stigagjafar, sem fram fer í kvöld.
Uppfært:
Það má greina sterkan friðarboðskap í umgjörð útsendingarinnar.
Systur eru meðal fárra keppenda sem nýtt hafa vettvanginn til þess að mótmæla stríðsrekstri Rússa í Úkraínu á blaðamannafundum. Þær hafa talað fyrir því að orðræða fjölmiðla venjuvæði ekki stríðið.
Á sama tíma hafa Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, beðið keppendur að halda pólitískum boðskap utan við allt keppnishald. Systur hafa þrátt fyrir þetta haldið áfram að tala fyrir friði og mætt á blaðamannafundi klæddar úkraínska fánanum.
Einnig hafa þær beitt sér fyrir vitundarvakningu hvað varðar réttindi og velferð trans fólks með fókusinn á börn.
