Fyrrum One Direction stjarnan Zayn Malik hefur verið kærður fyrir á­reitni gegn Yolanda Hadid, móður barns­móður sinnar, Gigi Hadid. Malik hefur til­kynnt dóm­stóli að hann muni ekki mót­mæla kærunni.

Að sögn dóm­stóls í Penn­syl­vaníu í Banda­ríkjunum játaði Malik sig sekan þann 27. októ­ber. Söngvarinn stað­hæfir þó sjálfur að hann hafi ekki játað sig sekan heldur einungis á­kveðið að mót­mæla ekki kærunni, sem er í fjórum á­kæru­liðum.

Malik hefur einnig verið sakaður um að hafa barið Yolanda, móður Gigi, en neitar þeim á­sökunum. Ekki hefur verið lögð fram kæra í því máli.

Sú á­kvörðun Maliks að mót­mæla ekki kærunni (e. no con­test plea) þýðir að það fari ekki fyrir dóm­stóla en hann gæti þó þurft að sæta refsingu eins og ef hann hefði verið sak­felldur. Þar sem játning liggur ekki fyrir verður ekki hægt að vísa til málsins í öðrum kæru­málum.

Zayn Malik og Gigi Hadid með dótturina Khai þegar allt lék í lyndi.
Fréttablaðið/Getty

Sagður hafa þröngvað Yolanda inn í skáp

Sam­kvæmt dóms­gögnum átti at­vikið sér stað þann 29. septem­ber síðast­liðinn. Þar kemur fram að Malik hafi öskrað ó­kvæðis­orðum að Yolanda og sagt henni að halda sig frá dóttur hans Khai. Þá er hann sagður hafa gripið í Yolanda og þröngvað henni inn í fata­skáp sem olli henni „and­legum kvölum og líkam­legum sárs­auka“. Malik segir á­sakanirnar ekki eiga við rök að styðjast.

Söngvarinn var dæmdur í 90 daga skil­orð fyrir hvern á­kæru­lið, sam­tals í 360 daga. Þá verður honum gert að sækja reiði­stjórnunar­nám­skeið og nám­skeið um heimilis­of­beldi, auk þess sem hann má ekki hafa sam­band við Yolanda eða öryggis­vörð sem var við­staddur at­vikið 29. septem­ber.

Malik, sem er 28 ára, og Hadid, sem er 26 ára, eiga saman dótturina Khai sem fæddist í fyrra. Sam­band þeirra hófst árið 2015 en sam­kvæmt heimildum slúður­blaðsins TMZ hafa leiðir þeirra skilið.

Um­hugað um dóttur sína

Í yfir­lýsingu sem Zayn Malik birti á Twitter segir hann kæruna tengjast rifrildi sem hann átti við ættingja barns­móður sinnar fyrir nokkrum vikum. Hann lýsir málinu sem einka­máli og segir dóttur sína eiga skilið að alast upp við eðli­legar að­stæður.

„Þetta var og ætti enn að vera einka­mál en það virðist hafa myndast sundrung og þrátt fyrir til­raunir mínar til að endur­skapa frið­sælt fjöl­skyldu­um­hverfi sem myndi gera mér kleift að veita dóttur minni það upp­eldi sem hún á skilið þá hefur málinu verið „lekið“ til fjöl­miðla,“ segir Malik.

Að sögn tals­manns Gigi Hadid vill hún ein­göngu það besta fyrir dóttur sína. Þá biðlar hún til fjöl­miðla um næði á þessum tímum.