Það náttúrlega má ekki neitt. Við vorum með rosaplan og ætluðum að vera í Bókasafninu í Hafnarfirði með kynningu og læti,“ segir Marteinn Ibsen úr 501. herdeildinnisem ætlaði að bregða á leik á sérstökum vísindaskáldskapardegi í Hafnarfirði.

„Það verður ekkert úr því, þetta verður fært fram í sumarið. Ég held þetta sé í þriðja skipti sem við erum að fresta þessu með Bókasafninu í Hafnarfirði.

Þetta átti að vera á síðasta ári náttúrlega og síðan aftur snemma á þessu ári þegar allt var að detta niður. Eiginlega allt smitlaust og voða gaman.“ Þá gekk enn ein COVID-bylgjan yfir og uppákoman var sett á ís.

„Síðan var allt að detta niður núna en það er ekki búið að rýmka nóg,“ segir Marteinn um nýju vonina sem kemur og fer jafnóðum.

Góðu vondu gæjarnir

The 501st Legion eru alþjóðleg samtök Star Wars-nörda sem spóka sig í nákvæmum eftirlíkingum af búningum illmennanna í myndunum, gleðja börn og láta gott af sér leiða meðal annars með fjáröflun og heimsóknum á barnaspítala.

„Það hefur bara ekkert mátt og þessi góðgerðarstarfsemi er bara búin að liggja alveg niðri. Ekkert verið farið í neina fjáröflun eða neitt. Þannig að þetta er búið að vera sorglegt ástand.“

Marteinn segir May the Fourth-daginn hafa fest sig í sessi hjá þeim rétt eins og öðrum Stjörnustríðsaðdáendum. „Við höfum alltaf gert eitthvað,“ segir Marteinn og rifjar upp að hópurinn marseraði niður Laugaveginn 2018 og tók Mathöllina við Hlemm herskildi í leiðinni.

Aftur á byrjunarreit

„Við reyndum einhvern tímann að hittast á vefnum og eitthvað að spjalla þar en það er bara ekkert það sama og að hittast í búningunum og hafa gaman og gleðja aðra. Þetta snýst svolítið mikið um það. Að gleðja aðra,“ segir Marteinn sem stundum er einnig þekktur í sínum hópi sem Svarthöfði.

„Ætli ég fari ekki í einhvern búning og horfi á Star Wars,“ segir Marteinn um hlæjandi um einu fyrirsjáanlega neyðarlendinguna sem verði að duga til hátíðarbrigða í bili. „Þangað til þessu er lokið – þá verður mikil hátíð held ég,“ segir Marteinn og hlær.

Aðspurður segist hann síðan gera ráð fyrir að rúlla bara í gegnum upprunalega þríleikinn. Kafla IV, V og VI. Og þá að sjálfsögðu upprunalegu og óbreyttu útgáfurnar en ekki hinnar seinni tíma „special editions“. Eðlilega, þar sem hann er fæddur 1977, á Star Wars-árinu þegar fyrsta myndin kom út og breytti heiminum.

Föndrið við búningana er hluti af ánægjunni auk þess sem það sparar stórfé.

Smitskúrkurinn illi

Þegar búningar eru annars vegar hefur hann úr ýmsu að velja þótt krúnudjásnið í safninu sé vitaskuld forláta búningur Darth Vader, sjálfs Svarthöfða. Með hinni voldugu öndunargrímu og öllu tilheyrandi.

Búningur Sith-lávarðarins ógurlega er, eins og flestum er kunnugt, mun meira en aðeins ógnvekjandi herklæði þar sem hann er illmenninu einnig lífsnauðsynleg öndunarvél með tilheyrandi öndunargrímu sem er svo voldug að ætla mætti að öflugri verði sóttvarnagrímurnar varla.

Marteinn tekur undir að vissulega geti hjálmurinn virkað sem veiruvörn fyrir þann sem ber hann en illu heilli virkar hann þannig að viðkomandi gæti orðið skæður ofursmitberi.

Marteinn og félagar voru tilkomumiklir á Laugaveginum þann 4. maí 2018.

„Maður er náttúrlega með loftkælingu. Viftu inni í búningnum og þá náttúrlega streymir loftið úr honum þannig að ef maður væri sjálfur með COVID þá myndi maður örugglega blása þessu út frá sér,“ segir Marteinn, hlær og bætir við að þannig gæti maður orðið hinn fullkomni skúrkur.

„Þessir grímubúningar eru náttúrlega þannig að maður myndi halda að þetta væru fínustu sóttvarnagræjur en það er sko ekkert auðvelt að vera í þessu í langan í tíma. Fólk er að kvarta yfir að vera með þessar tuskugrímur á sér en maður er bara alveg líkamlega búinn eftir að hafa verið í þessu í kannski tvo tíma.

Ef maður væri ekki með loftkælingu í þessu þá væri maður bara búinn eftir kortér. Maður býr það til bara sjálfur. Það er hægt að kaupa svona kerfi eða bara föndra það sjálfur,“ segir Marteinn og bætir við að föndrið og nostrið við búningana sé einmitt stór hluti af ánægjunni.

Dýr yrði Svarthöfði allur

Marteinn eignaðist fyrst hina svokölluðu stormtroopera en búningasafnið hefur síðan undið upp á sig.

„Stormtrooperinn var fyrsti búningurinn minn og ég á hann ennþá,“ segir Marteinn um búning óbreyttra hermanna keisaraveldisins illa. „Svo er ég búinn að vera að byggja Scout Trooperinn úr Return of the Jedi og svo er ég búinn að vera heillengi að setja saman Boba Fett-búning. Sem sagt The Empire Strikes Back-útgáfuna en það eru náttúrlega mismunandi útgáfur eftir því í hvaða mynd hann er. Mismunandi litir á brynjunni og eitthvað þannig. Það er gaman að því.“

Marteinn reynir að gera sem mest við búningana sjálfur.

Þá vinnur hann einnig að búningnum sem Lilja prinsessa dulbjóst í Return of the Jedi þegar hún þóttist vera mannaveiðarinn Boushh. „Það gerir þetta miklu skemmtilegra,“ segir hann um ánægjuna sem fylgir því að makinn taki þátt í nördismanum.

„Svo er ég búinn að vera að reyna að föndra Ewok-búning fyrir yngstu dótturina. Það gengur ágætlega. Það er alveg hægt að kaupa heilu búningana en það er rosalega dýrt ef þú ef kaupir tilbúinn búning og þess vegna reynir maður að gera þetta mest sjálfur til þess að halda kostnaðinum niðri.“

Marteinn bendir þannig á að tilbúinn Svarthöfðabúningur kosti ekki undir 800.000 krónum. „ Í stað þess að eyða slíkum upphæðum í tilbúinn búning þá nær maður kostnaðinum niður um 70% með því að gera mest allt sjálfur þannig að maður reynir alltaf að skera kostnaðinn niður með smá föndri sem gengur mest út á að sparsla, líma og pússa og svona. Maður gerir þetta bara sjálfur og eitthvað af saumaskap.“