Hörður Orri Grettis­son, for­maður Þjóð­há­tíðar­nefndar, segir að­stæður í sam­fé­laginu þannig að á­kveðið hafi verið að halda hina rót­grónu Þjóð­há­tíð í Eyjum um verslunar­manna­helgina. Þung­lyndið vegna messu­fallsins í fyrra er því á bak og burt og hugur í mann­skapnum hjá ÍBV.

„Auð­vitað voru þetta bara von­brigði að geta ekki haldið há­tíðina í fyrra en það var ekkert annað að gera í stöðunni en að af­lýsa henni,“ segir Hörður Orri sem telur klárt að Vest­manna­eyingum al­mennt og fjöl­mörgum öðrum létti við þessi tíðindi.

„Já, já, al­gjör­lega. Við finnum það bara á því hversu mikið er hringt og spurt út í þetta. Auð­vitað er líka gríðar­lega mikil­vægt fyrir ÍBV í­þrótta­fé­lag fjár­hags­lega að halda Þjóð­há­tíðina og svo eru margir Vest­manna­eyingar bara al­mennt orðnir mjög spenntir held ég að hittast og geta tekið gleði sína á ný.“

Beint af augum

Þegar há­tíðin var ó­hjá­kvæmi­lega slegin af í kjöl­far Co­vid-bak­slags þann 14. júlí í fyrra hét ÍBV því að halda eina glæsi­legustu Þjóð­há­tíð allra tíma að ári. Hörður Orri segir þannig að þrátt fyrir á­fallið 2020 hafi strax verið byrjað að huga að skipu­lagningu næstu há­tíðar.

„Endan­leg á­kvörðun var svo tekin þegar stjórn­völd birtu á­ætlanir sínar um að af­létta öllum sam­komu­tak­mörkunum í júlí og við sáum ekkert vera því til fyrir­stöðu að halda Þjóð­há­tíð hérna um verslunar­manna­helgina.

Við erum búin að vera að skipu­leggja en erum samt kannski að­eins í seinna fallinu að til­kynna þetta og í eðli­legu ár­ferði væri miða­sala farin af stað fyrir þó nokkru síðan,“ segir Hörður Orri og bætir við að miða­sala ætti að hefjast á allra næstu dögum.

Allir í bátana!

Hörður Orri segir undir­búninginn í raun kominn á fullt og að byrjað sé að bóka tón­listar­fólk. „Þetta er náttúr­lega hörku batterí að halda svona Þjóð­há­tíð og margir sem koma að þessu. Bæði sjálf­boða­liðar og aðrir þannig að við erum bara búin að vera að heyra í okkar fólki undan­farnar vikur og daga og allir eru á tánum.

Ég held að það sé alveg sama hvert maður hringir það eru allir mjög spenntir að koma og eru til­búnir í þetta verk­efni með okkur,“ segir Hörður Orri sem telur ó­hætt að segja að landið er að rísa þegar jafn fastur liður í til­verunni og Þjóð­há­tíð er komin á sinn stað.

Dalurinn gæti fyllst

Hörður Orri telur víst að Þjóð­há­tíð 2021 verði sögu­leg og úti­lokar ekki að það verði upp­selt á hana í fyrsta sinn í rúm­lega 145 ára sögu hennar. „Ekki það að maður hafi á­hyggjur af því en miðað við það sem við heyrum og finnum frá fólki þá reiknum við með að það verði til­búið að koma og jafn­vel að það verði upp­selt.

Það hefur aldrei í sögunni verið upp­selt á Þjóð­há­tíð en svona miðað við til­finninguna sem við höfum fyrir þessu þá getum við alveg í­myndað okkur að svo geti farið á ein­hverjum tíma­punkti á þessari há­tíð. Að eftir­spurnin verði það mikil. Dalurinn ber náttúr­lega bara á­kveðinn fjölda og þetta er eitt­hvað sem við erum að velta fyrir okkur.“

Hörður Orri segir að þetta mat byggi ekki ein­göngu á upp­safnaðri spennu í sam­fé­laginu og eyðunni í fyrra. „Fólk er heldur ekki að fara að ferðast til út­landa en þyrstir orðið í að komast til þess að gera eitt­hvað.“

Hjarð­skemmtun ó­næmra

Þar sem vask­legast hefur verið gengið fram í bólu­setningu eldra fólks mætti ætla að eldri borgarar verði best í stakk búnir til þess að skemmta sér í Herjólfs­dal en Hörður Orri gerir ekki ráð fyrir stór­kost­legum frá­vikum.

„Aldurs­sam­setning Þjóð­há­tíðar er bara alltaf að breytast og meðal­aldur Þjóð­há­tíðar­gesta undan­farin ár hefur bara hækkað þannig að við erum að fá alla flóruna,“ segir Þjóð­há­tíðar­nefndar­for­maðurinn sem gerir ráð fyrir að fjöldinn muni ekki láta veiruna skyggja á gleðina.

„Al­gjör­lega og miðað við á­ætlunina þá verður náttúr­lega bara komið eitt­hvað sem heitir hjarðó­næmi hérna á Ís­landi og vonandi verður þetta bara allt eins og á­ætlanir segja til um.“