Hekla var fyrr á öldum talin „hlið vítis“ og fljótandi hraun tekur oft á sig mynd einhvers konar lifandi skrímslis sem gæti allt eins lekið úr hugarfylgsnum H.P. Lovecraft, þannig að í raun er ásókn fólks í funhitann úr iðrum jarðar mögnuð miðað við á hversu neikvæðum nótum almannatengslin hafa verið í gegnum tíðina.

Gosið sem er að gera allt vitlaust á Íslandi er ákaflega bíómyndalegt og kallast svo fallega á við lokakafla Hringadróttinssögu þríleiks Peters Jackson þar sem svart, storknandi hraunið og síkvikur gígurinn eru eins og náttúran hafi ákveðið að draga upp sviðsmyndina af eldfjallinu Dómsdagsdyngju og auga hins illa Saurons í miðju ríki hins illa, Mordor.

Tengingar eldgossins í Geldingadal við Mordor eru fleiri þar sem þeir sem geta ekki haldið sig fjarri gosinu þurfa að leggja á sig langa og háskalega gönguferð yfir hrjóstrugt landslag þar sem allra veðra er von.

Eldfjallaplánetan Mustafar bauð upp á fyrirtaks bakgrunn fyrir magnað geislasverðaeinvígi og eitt sögulegasta uppgjör geimkvikmyndasögunnar.

Mjög svipaðar aðstæður og föruneyti hringsins þurfti að þola í um það bil níu klukkustunda göngutúr sínum í gegnum þrjár Lord of the Rings-myndir.

Á leiðinni er meira að segja björgunarsveitafólk og lögregla á sveimi með augun opin fyrir þeim og möguleikanum á því að hefta för fótgangenda, rétt eins og hringvomar og orkarnir í Mordor.

Gollum hefur gengið einn lengst þegar kemur að því að dýfa stóru tá ofan í glóandi hraun.

Þá er ágætt að hafa í huga að í Hringadróttinssögu var enginn nema þráhyggjusjúklingurinn Gollum nógu klikkaður til þess að kasta sér ofan í gíginn. Hvað áköfustu eldfjallageldingarnir athugi.

Ekki synda í hrauninu!

Plánetan og virka eldstöðin Mustafar er stórkostlegt baksvið hápunkts síðari Stjörnustríðs-þríleiks George Lucas en þar fer sótillur Anakin Skywalker heldur halloka fyrir lærimeistara sínum, Obi Wan-Kenobi, í funheitu geislasverðaeinvígi yfir glóandi hraunfljóti.

Leikar fara þannig að hinn áður hugprúði Jedi-riddari missir nokkra útlimi og fellur ekki aðeins fyrir aðdráttarafli skuggahliðar Máttarins heldur lóðbeint í sjóðandi hraunið þannig að hann viðbrennur á augabragði og upp rís hinn illi Svarthöfði.

Þessi örlög Anakins eru ágætis áminning um hversu mikið glapræði það getur verið að leika sér í glóandi hraunflæðarmáli þar sem hending ein ræður því hvort maður endi eins og brakandi beikon á 1.000 gráðu heitri steikarpönnu.

Séu eldfjallabækur Hringadróttinssögu og Stjörnustríða bornar saman kemur síðan á daginn að eldgos og svellandi hraunelfur hafa einstakt aðdráttarafl á gegnsýrð illmenni en þrátt fyrir brennandi ógæfuna reisir Svarthöfði sér sinn geimkastala og varnarþing á Mustafar á meðan auga Saurons gnæfir yfir hraunbreiðum Mordor.

Jói og eldfjallið

Gönguferðin með hringinn eina og mannlegur harmleikur hins unga Anakins eru vitaskuld ekki eiginlegar eldfjallamyndir en skólabókardæmi um hvernig eldfjöll eru notuð sem hádramatískur bakgrunnur mikilla tíðinda í kvikmyndaskáldskap.

Sem betur fer er þetta þó ekki aðeins dauði og djöfull í bíó og þroskasagan Joe Versus The Volcano er fyrirtaks dæmi um hið gagnstæða. Myndin er frá 1990 og þar eru vinirnir Meg Ryan og Tom Hanks í aðalhlutverkum í mynd sem almennt telst með betri eldfjallamyndum.

Myndin segir sögu hins ósköp venjulega Joe sem er svo ímyndunarveikur og sótthræddur að hægur vandi er að telja honum trú um að hann sé með dularfullan sjúkdóm, heilaský, sem muni draga hann til dauða innan skamms.

Verandi bráðfeigur tekur Joe tilboði um að fá að lifa eins og kóngur um stund og deyja eins og maður með því að kasta sér ofan í lifandi eldstöð og sefa þannig reiði eldfjallaguðsins á eyjunni Waponi Woo.

Á leiðinni þangað verður hann ástfanginn af Patriciu, sem Ryan leikur, og kynnist ýmsum hugvekjandi furðufuglum þannig að hann hefur komist að raunverulegu gildi lífsins þegar hann og Patricia þurfa að mæta örlögum sínum á Waponi Woo.

Eldsumbrotaárið mikla 1997

Eldsumbrot höfðu verið heldur vanrækt í stórslysamyndum frá níunda áratugnum sem státar helst af When Time Ran Out frá 1980 með Paul Newman, Jacqueline Bisset og William Holden. Myndin þótti arfaslök en fátt er svo með öllu illt og Newman notaði tekjur sínar af myndinni til þess að koma fótunum undir Newman’s Own sem er þekkt fyrir sósur sínar og ekki síst örbylgjupoppið sem poppaðist best við 1.200 gráður.

Hollywood bætti heldur betur úr þessu 1997 þegar tvær stórar eldgosamyndir sulluðust fram á sjónarsviðið. Annars vegar Dante’s Peak og hins vegar Volcano sem eiga einnig sameiginlegt að vera báðar aðgengilegar á Amazon Prime.

Dante’s Peak ratar stundum inn á lista yfir bestu eldfjallamyndirnar á meðan Volcano er að sama skapi nokkuð örugg á sambærilegum listum yfir þær verstu. Báðar eru þær auðvitað laustengdar jarðfræðilegum raunveruleika en í þeim efnum þykir Volcano flæða yfir öll mörk. Fræðileg nákvæmni er svo vitaskuld algert aukaatriði og báðar eru þessar stórhamfaramyndir ágæt skemmtun.

Tilfinningar og tryllingur

Pierce Brosnan, sem var innvígður James Bond í Goldeneye tveimur árum áður, sýnir allt sem í honum býr í hlutverki jarðfræðings sem kemur til smábæjar til þess að kanna skjálftavirkni við rætur sofandi eldfjallsins Dante’s Peak.

Fjallið reynist síðan standa vel undir nafninu sem vísar beint í Vítisljóð Dantes þegar það byrjar að gjósa og þá engu Geldingadalskrútti. Ástir takast með jarðfræðingnum og bæjarstjóranum sem Linda Hamilton leikur og saman reyna þau að berjast gegn þvermóðsku embættismanna og bjarga bæjarbúum á meðan glóandi ösku rignir yfir bæinn.

Volcano er líklega best lýst sem jarðvísindafantasíu en þar rís skyndilega og fyrirvaralaust upp eldfjall í miðri Los Angeles borg.

Eldsumbrotin sem þessu fylgja eru geigvænleg þannig að ekki er nóg með að hraunfljótið geri sig líklegt til að færa stórborgina í kaf þar sem fjallið skýtur einnig banvænum eldkúlum, einhvers konar hraunsprengjum, af ótrúlegri nákvæmni.

Tommy Lee Jones leikur hamfarastjórnanda borgarinnar, einhvers konar Víði Reynisson þeirra í Los Angeles, og það kemur í hans hlut að reyna að stjórna rýmingu borgarinnar á meðan hann freistar þess að stöðva hraunflóðið með aðstoð jarðskjálftafræðings sem Anne Hece leikur.

Varla þarf að taka fram að þrátt fyrir hörmungarnar og hasarinn finna hamfarastjórinn og jarðskjálftafræðingurinn tilfinningalegt svigrúm til þess að fella saman hugi á meðan þau bjarga því sem bjargað verður.

Frægasta eldfjallið

Þar sem eldfjallið Vesúvíus er enn það frægasta sem sögur fara af, að Heklu og litla geldingi ólöstuðum, og flestar kvikmyndir hafa verið gerðar um er ekki hægt annað en hafa eina Pompeii-mynd á dagskránni. Þessi er nýjust, frá 2104, og sú lélegast sem hér kemst á blað.

Hér bregður Kit Harington, sjálfur John Snow úr Game of Thrones, sér í sandalana og hlutverk ósigrandi skylmingaþræls sem þarf að berjast við sjálfan Vesúvíus til þess að bjarga sinni heittelskuðu, sem Emily Browning leikur, á meðan feig borgin hverfur undir sjóðandi öskulag.

Skjálfti skekur hellinn

Dreamworks teiknimyndin Croods frá 2013 er öruggur inngangur að eldfjallafræðum fyrir börnin en hér segir frá frummannafjölskyldu sem hefur lifað af ýmsar hamfarir vegna fastheldni ættföðurins á hefðir og reglur. Eins og þá að fara helst ekki út úr hellinum.

Þetta breytist þegar heimilið hrynur í jarðskjálfta og þegar eldgos er yfirvofandi þarf unga kynslóðin, með unglingsdótturina í fremstu víglínu, að leiða flóttann á nýjar slóðir.