Fanney er í grunninn félagsráðgjafi sem bætti svo við sig reynslu og menntun í matreiðslu, bæði hérlendis og erlendis. „Ég útskrifaðist sem matreiðslumaður 2017 og sem matreiðslumeistari 2019. Ég var í kokkalandsliðinu frá 2017 til 2021 og fór meðal annars á Heimsmeistarakeppnina í matreiðslu og á Ólympíuleikana í matreiðslu. Matur hefur alltaf verið mikil ástríða hjá mér og ég ólst upp við heimabakað brauð, bakkelsi og mat eldaðan frá grunni,“ segir Fanney og er þakklát fyrir að hafa leyft matarástríðunni að blómstra.

Fyrir um það bil ári opnaði Fanney, ásamt Stefáni Viðarssyni matreiðslumeistara, veitingastaðinn Hnoss sem staðsettur er á jarðhæð Hörpu og hefur slegið í gegn í sumar. „Við Stefán höfum unnið mikið saman og varið löngum stundum í að fabúlera um veitingastaðinn sem við ætluðum að opna. Mátuðum okkur við nokkur rými og pældum í hvað væri skemmtilegast að gera. Þegar svo opnað var fyrir tillögur um nýtingu á rýminu á jarðhæðinni í Hörpu, þá fannst okkur það akkúrat rétta staðsetningin og sendum inn okkar tillögu. Til þess að gera langa sögu stutta, varð okkar tillaga fyrir valinu og núna er rétt tæpur mánuður í ársafmæli Hnoss í Hörpu.“

Metnaðurinn í matargerðinni á Hnoss er mikill og Fanney vill svo sannarlega að matarupplifunin slái í gegn hjá matargestum. „Maturinn okkar á Hnoss á númer 1, 2 og 3 að vera jömmí. Við erum mikið að nota alls kyns grænmeti og fisk, en bjóðum einnig upp á lambakjöt – auðvitað allt saman íslenskt. Við viljum gera ferskan og bragðgóðan mat sem allir hafa gaman af því að borða. Bröns-hlaðborðið okkar um helgar hefur til að mynda fengið frábær viðbrögð frá fólki, þar sem við erum ekki að bjóða upp á hefðbundna rétti heldur okkar uppáhaldsrétti til að byrja daginn. Við erum líka með skemmtilega smárétti sem hafa verið vinsælir með kampavínsglasi eða óáfengu kampavíni á útisvæðinu – þessa daga sem ekki rigndi.“

Aðspurð segir Fanney að hennar uppáhaldsréttur um þessar mundir sé lambatartarinn þeirra. „Ég er mikil tartar-kona og elska góðan tartar, þar sem kjötið fær að njóta sín. Okkar tartar er úr lambafillet sem við höfum marínerað í kapers, skalottlauk, fiskisósu, þara og blóðbergi. Hann kemur á grilluðu súrdeigsbrauði með íslensku wasabi-kremi, fullt af rifnum Vesturós-osti og nóg af garðakarsa. Stökku ostrusveppirnir á smáréttaseðlinum okkar hafa líka verið mjög vinsælir. Sá réttur er vegan og kemur mörgum kjötætum á óvart, enda eru ostrusveppir mjög djúsí og kjötmiklir ef svo má að orði komast. Með sveppunum erum við með hvítlaukssósu með confit-elduðum hvítlauk, sem setur punktinn yfir i-ið!“

Þið hafið verið dugleg að brjóta upp hversdagsleikann og bjóða upp á fjölbreytta matseðla og öðruvísi matarupplifanir, er það eitthvað sem þið munuð ávallt standa fyrir?

„Já, það er eitthvað sem okkur þykir afskaplega skemmtilegt. Stór hluti viðskiptavina okkar kemur reglulega í tengslum við viðburðahald í Hörpu og því þykir okkur mikilvægt að hafa eitthvað nýtt og skemmtilegt í boði. Það er líka skemmtilegra fyrir okkur kokkana að fá að fabúlera nýja matseðla og konsept reglulega. Heldur okkur á tánum og það er ekki séns að við verðum leið á því sem við erum að matbúa.“

Brönsinn á Hnoss hefur vakið verðskuldaða athygli og þar hefur líka sérstaðan stórt hlutverk. „Við erum með glæsilegt hlaðborð; alls konar íslenska osta, fjölbreytt og litrík salöt og íslenskan fisk. Við erum alltaf með „Egg royale“ sem eru hleypt egg á brauði með bleikju eða laxi og hollandaise-sósu – algjörlega það sem maður þarf til að starta deginum. Spicy túna-brauðtertan vekur alltaf lukku, enda óvanaleg samsetning sem virkar svo ótrúlega vel saman. Við erum dugleg að breyta til og prófa okkur áfram með nýja rétti, enda margir gesta okkar fastakúnnar. Eftirréttahlaðborðið hefur líka vakið mikla lukku, enda gerum við allt frá grunni. Þar má meðal annars finna creme bruleé, Pavlovu, pönnukökur, hnetustykki og fleira hnossgæti.“

Heyrst hefur að þú sért líka sérstaklega lagin við að töfra fram ómótstæðilegar brauðtertur sem erfitt er að standast. Hefur þú alltaf verið mikil brauðtertukona?

„Já, ég hef alltaf elskað brauðtertur og brauðrétti. Fallega skreytt brauðterta lyftir hverri veislu upp í hæstu hæðir. Þær eru líka svo retró og dásamlegar, minna á gamla tíma og vekja upp minningar á sama tíma og við sköpum nýjar minningar.“

Fanney sviptir hér hulunni af uppskrift af einni af sinni uppáhaldsbrauðtertu fyrir lesendur Fréttablaðsins, sem á eftir að slá í gegn. „Þessa brauðtertu gerði ég fyrst þegar elsku Stína amma mín varð níræð í fyrra. Brauðtertan er klassísk rækjuterta, með smá tvisti sem er þó ekki of mikið út fyrir kassann. Hún ætti því að slá í gegn hjá flestum,“ segir Fanney að lokum með bros á vör.

Þær gerast ekki girnilegri, rækjubrauðtertan hennar Fanneyjar sló rækilega í gegn í níræðisafmælisveislu ömmu hennar.

Rækjubrauðterta með grænum eplum og sítrónu

1 brauðtertubrauð

5-600 g góðar rækjur, afþíddar

5 soðin egg

350 g majónes

200 g sýrður rjómi

1 grænt epli

1 sítróna

¼ agúrka

Ferskt dill og/eða graslaukur, fínt saxað

Salt og sítrónupipar eftir smekk

Byrjið á því að hræra majónes og sýrðan rjóma saman og kryddið til með salti og sítrónupipar. Þerrið rækjurnar og bætið út í. Skerið eggin fínt og bætið út í. Flysjið eplið, kjarnhreinsið og skerið í litla teninga, kjarnhreinsið agúrku og skorin í litla teninga. Raspið sítrónubörk út í salatið og bætið safa úr hálfri sítrónu út í. Blandið öllu vel saman og kryddið til eftir smekk.

Smyrjið salatinu jafnt á milli brauðlaganna, smyrjið tertuna svo með sýrðum rjóma og skreytið að vild. Þá er lag að nýta sköpunarkraftinn.