Hér fer Kristín á kostum með þetta ómótstæðilega ljúffenga hvítlauksbrauð sem hún kallar hvítlauksstjörnuna. „Hugmyndina af útlitinu á brauðinu fékk ég frá Kollu vinkonu minni á Facebook en hún er mikil lista- og handverkskona. Hún hefur gert svona brauð með pitsa- eða nutellafyllingu en mér datt í hug að yfirfæra það á hvítlauksbrauðið mitt. Skemmtilegt að bera brauðið fram í þessari mynd því það skreytir matarborðið og svo er eitthvað svo hlýlegt að deila brauði með þessum hætti. Uppskriftina hef ég notað lengi og hún hefur alltaf tekist vel. Ég baka brauðið á pitsasteini en það er alls ekki nauðsynlegt. Annað ráð er að snúa ofnplötu á hvolf og baka brauðið þannig en þá er gott að láta ofnplötuna hitna með inni í ofninum þannig að hún sé vel heit þegar brauðið er látið á hana.“

Kristín deilir hér með lesendum uppskriftinni ásamt leiðbeiningum fyrir samsetninguna á þessari fallegu og ljúffengu hvítlauksstjörnu. Ótrúlega skemmtilega útfærsla og mun líka passa á hátíðarborðin um jól og áramót.

:Hvítlauksbrauðið er bæði fallegt á borði auk þess að vera ljúffengt.

Byrjið á því að hita ofninn vel áður en baksturinn hefst í 200 °C með undir- og yfirhita.

Hvítlauksbrauð

Brauðdeig:

320 g volgt vatn

10 g þurrger

10 g sykur

525 g brauðhveiti (Mér finnst ítalska La Farina hveitið frá Bigolin alltaf best)

5 g salt

25 g ólífuolía (ég nota Olio Nitti olíuna).

Blandið saman volga vatninu, gerinu og sykri í skál. Látið bíða í nokkrar mínútur. Bætið svo við hveitinu, saltinu og ólífuolíunni. Hnoðað vel í hrærivél eða höndum. Formið kúlu úr deiginu og setjið í skál sem hefur verið smurð með olíu, breiðið yfir skálina. Látið deigið hefast á hlýjum stað þar til deigið hefur tvöfaldast, tekur um 1 klukkustund.

Hvítlauksfylling:

4 hvítlauksrif

4 stilkar basilíka

120 g bragðmikill ostur (ég notaði Búra og parmesan)

150 g mjúkt smjör

Setjið hvítlauksrifin og basilíkuna í blandara í örstutta stund, bætið svo ostinum við og maukið í nokkrar sekúndur, endið svo á að bæta mjúku smjörinu við og maukið vel.

Samsetning:

Skiptið deiginu í fjóra hluta. Fletjið hvern og einn út í hringlaga botn, um 25 cm í þvermál. Setjið fyrsta botninn á bökunarpappír, smyrjið með hvítlauksfyllingunni, setjið næsta botn ofan á og og smyrjið, endurtakið með þann þriðja. Setjið fjórða botninn ofan á en smyrjið hann ekki. Jafnið því næst hliðarnar með höndunum eða skerið eftir stórri skál.

Þá er komið að föndrinu. Setjið glas á miðjuna á brauðinu og skerið út frá því 16 jafnar lengjur. Gott er að byrja að skera eins og klukku, 12-3-6-9, skera svo hvern flipa í tvennt og aftur hvern flipa í tvennt. Vinnið síðan með tvær og tvær lengjur í einu, snúið upp á þær í gagnstæðar áttir og tengið endana vel saman svo formið haldist við baksturinn. Klárið allan hringinn. Að lokum er brauðið penslað með ólífuolíu. Bakað í 200 °C heitum ofni í 22-25 mínútur eða þar til brauðið er fallegt á litinn. ■

Brauðið kemur vel út, rétt eins og borðskraut.