Linda Pé leggur mikinn metnað í heilsu sína, lífsstíl bæði andlega og líkamlega og hvetur konur að hlúa að eigin heilsu. Hún hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl og áhrifunum sem hann hefur á líf okkar. Þá finnst henni ekki síst skipta máli hugsanastjórnun, hvernig við vinnum með heilann á okkur til að geta einbeitt okkur að heilbrigðum lífsstíl fyrir líkama og sál.

Linda hefur mikinn áhuga á heilsusamlegum lífsstíl og segir að þá skipti mataræðið þar mestu máli. „Ég reyni nú að hafa mataræðið sem einfaldast, ég fæ mér sem dæmi alltaf súperdrykk í hádeginu flesta daga ársins en elda á kvöldin. Ætli það sé ekki óhætt að segja að ég hafi komist að því á covidtímum að ég er bara ansi góður kokkur! Ég lék mér að því að útbúa hvern dýrindisréttinn á fætur öðrum fyrir okkur mæðgur og hef haldið því áfram. Mér finnst gaman að elda, ég hlusta yfirleitt á podcast eða hljóðbók meðan ég elda,“ segir Linda sem blómstrar þessa daga í eldhúsinu.

Lindudrykkur hennar Lindu.jpeg

Linda fær sér ávallt súperdrykk í hádeginu, alla vega flest alla daga.

Aðspurð segist Linda ekkert endilega það fara eftir árstíðum hvað hún velur í matinn. „Vissulega langar mig frekar í salat í hita og sól en í stórhríð. Ég er það sem kallast pesceterian, sum sé borða ekki neitt kjöt, en borða sjávarfang. Ég held mig við að velja fæðu að mestu úr 3 fæðuflokkum sem eru: Grænmeti, prótín og holla fita. Annars finnst mér þessi mantra besta áminningin fyrir hvað við eigum að borða því það vefst fyrir mörgum: „Ef það er framleitt af móður jörð, borðaðu það. Ef það er framleitt í verksmiðju, forðastu það.“

„Ég er svo heppin að starfa við það skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina og það er að vera master lífsþjálfi. Ég þjálfa konur sem vilja losa sig við aukakíló, styrkja sjálfsmynd sína og lifa draumalífinu. Ég er með aðildarprógramm þar sem ég þjálfa konur á vikulegum fundum og kenni þeim allskyns áhugavert efni til að göfga líf sitt, og einnig held ég úti podcastinu Lífið með Lindu Pé sem kemur út alla mánudaga og nú bætti ég nýverið við Magasíninu Lífið með Lindu Pé sem hægt er að fá í ókeypis áskrift, en það er rafrænt magasín sem ég sendi til áskrifenda alla sunnudaga.“ Margt er að gerast hjá Lindu í haust en framundan er svokölluð Heilsuvika inn í prógramminu Lífið með Lindu Pé.

„Ég hef útbúið áhugavert efni sem ég hef sett upp í 6 heilsustólpa en þeir eru: Tilfinningaleg heilsa, fjárhagsleg heilsa, félagsleg heilsa, andleg heilsa, næringarleg heilsa og líkamleg heilsa.“ Heilsuvika er sérnámskeið sem verður í september og er stútfull af fróðleik sem gefur konum tækifæri til að endurstilla sig og byrja að tileinka sér allt sem Linda kennir. Og þær fá líka allar dásamlegar og hollar mataruppskriftir til að fylgja meðan á Heilsuviku stendur. „Í lok Heilsuviku verður viðkomandi komin með öll tæki og tól sem hún þarf til að bæta almenna heilsu á öllum sviðum. Til þess að taka þátt í Heilsuviku þarftu að vera skráð í prógrammið Lífið með Lindu Pé (LMLP) en Heilsuvika er innifalin í aðild,“ segir Linda sem er afar spennt fyrir haustinu.

Vikumatseðillinn er ómótstæðilega girnilegur og bráðhollur. Þess ber líka að geta að allar uppskriftirnar koma úr smiðju Lindu.

Mánudagur - Lindudrykkurinn

„Á mánudögum er ég alltaf mjög upptekin, fundir með teyminu mínu, vikan skipulögð fyrir Lífið með Lindu Pé, prógrammið mitt þar sem það er mikið að gera með lífsþjálfun og samskipti við konurnar mínar, podcastið svo og magasínið. Þessa viku er ég líka að leggja lokahönd á undirbúning svokallaðrar Heilsuviku sem ég verð með og hefst 12. september nk. Þetta er viðamikið verkefni þar sem að ég verð með daglega fundi á zoom fyrir aðildarkonurnar mínar um allt sem við kemur heilsu, ekki bara líkamlegri heilsu, heldur förum við djúpt í það sem ég kalla 6 stólpa heilsu og við tökum fyrir einn heilsustólpa á hverjum degi en þeir eru:

Dagur 1: Tilfinningaleg heilsa

Dagur 2: Fjárhagsleg heilsa

Dagur 3: Félagsleg heilsa

Dagur 4: Andleg heilsa

Dagur 5: Næringarleg heilsa

Dagur 6: Líkamleg heilsa

„Ég er mjög skipulögð og vinn fram í tímann en ég geri alltaf ráð fyrir tíma í hádeginu til að fá mér holla næringu. Flest hádegi fæ ég mér einn heilsudrykk úr 28 daga Heilsuáskoruninni minni, þeir eru bragðgóðir og saðsamir og ég veit að ég er að fá alla þá næringu sem ég þarf á að halda, þetta hef ég gert nánast daglega í nokkur ár. Og þeir taka stuttan tíma að útbúa sem er mikill plús fyrir annasamt fólk. „Lindudrykkurinn“ svokallaði (fékk á sig þetta nafn í Baðhúsinu þar sem þetta var uppáhalds heilsudrykkurinn minn þá) er gífurlega næringarþéttur og góður kostur í upphafi viku og þegar mikið er að gera.“

Lindudrykkurinn.png

Lindudrykkurinn

1 lúka spínat

1 avókadó

1/3 agúrka

½ greipaldin eða 1 grænt epli

1 sentimetri engifer

safi úr einni sítrónu

1 msk. mulin hörfræ

Klakar eða ískalt vatn eftir smekk.

Allt sett í blandara og þeytt saman þangað til drykkurinn er orðinn silkimjúkur.

„Til þess að vera viss um að ég fá nægt prótín borða ég líka eitt eða jafnvel tvö harðsoðinn egg með. Annars veit ég að ég fæ gott magn af andoxunarefnum úr grænmetinu, og góða holla fitu sem heldur mér lengi saddri úr avókadóinu og úr hörfræjunum. Og svo er hann líka svo góður á bragðið.“

Þriðjudagur – Bökuð grænmetisskál

„Þetta er önnur einföld bragðgóð uppskrift, ég legg alltaf mikla áherslu bæði í LMLP prógramminu mínu og að sjálfsögðu í eigin mataræði á þrennt á disknum mínum; Grænmeti, prótín, og holla fitu. Með þessari uppskrift fæ ég þetta allt saman, bakað grænmeti, prótín úr kjúklingabaununum og kínóa og holla fitu úr ólífuolíunni og líka úr tahinisósunni sem ég útbý og hef með. Þegar ég bý til þessa uppskrift þá hreinlega hreinsa ég út úr ísskápnum mínum og baka allt það grænmeti sem ég finn, og helst alltaf mikið af tómötum og papriku, því að ég nota það svo næsta dag til þess að búa til grænmetissúpu.“ Þessi uppskrift er sveigjanleg og þú getur gert hana eftir eigin smekk og eftir því hvað þú átt í ísskápnum. „Ótrúlega einföld og um leið svo bragðgóð og nærandi. Þetta er eitt af því sem ég gríp til þegar ég hef ekki tíma til að gera eitthvað flókið en langar í mat sem er stútfullur af næringu. Magn fer eftir því hvort þú ert að elda fyrir bara þig eða fleiri. Og engar áhyggjur ef þú nærð ekki að klára matinn því það er hægt að nýta þetta áfram næsta dag með því að bæta við fersku spínati, kryddjurtum og góðri salatsósu og taka með í vinnuna og þú borðar þetta þá sem kalt sem salat.“

Salatið Linda.png

Hæg bökuð grænmetisskál

Sæt kartafla

Grænmeti t.d. brokkolí, blómkál, rósakál, paprika í öllum litum, laukur.

Prótín t.d. kjúklingabaunir, svartar baunir eða nýrnabaunir.

Og svo fyrir aukið prótín bæti ég alltaf við soðnu kínóa (sem ég á oftast til soðið inn í ísskáp).

Fita Ólífuolía

50 ml. extra virgin ólífuolía

50 ml. tahini

2 msk. sítrónusafi nýkreistur

2 tsk. Dijon sinnep

2 tsk. hlynsíróp eða hunang

½ tsk. fínt sjávarsalt

Nýmalaður svartur pipar, eftir smekk

2 msk. ískalt vatn, meira eftir þörfum

Byrjaðu á því að hita ofninn í 180°C. Skrældu kartöfluna og skerðu í litla teninga, settu í skál dreyptu vel með ólífuolíu og saltaðu og kryddaðu eftir smekk, settu bökunarpappír á bökunarplötu og bakaðu neðarlega í ofni (kartöflurnar þurfa 10-15 mín forskot á restina af grænmetinu). Skerðu niður restina af grænmetinu og settu ofan í skálina með ólífuolíunni og kryddinu, blandaðu vel með (best að nota hendurnar). Taktu núna bökunarplötuna út úr ofninum og ýttu öllum kartöflunum til hliðar í eina rönd, bættu svo grænmetinu við og raðaðu því á bökunarplötuna röð fyrir röð og líka baununum. Bakaðu áfram í um það bil 15 mínútur.

Settu allt innihaldið af sósunni nema vatnið í blandara og blandaðu vel á háum hraða, bættu svo vatninu rólega við (það verður að vera ískalt).

Settu kínóa í skál (má vera heitt eða kalt) taktu grænmetið út úr ofninum og bættu við í skálina, dreyptu sósunni yfir og njóttu. Kínóa inniheldur allar þær níu amínósýrur sem að líkaminn getur ekki framleitt sjálfur en þarf nauðsynlega á að halda, og er þess vegna sérstaklega góður kostur þegar að kemur að því að fá nægilegt prótín. Eins og alltaf ef þú átt ferskar kryddjurtir heima þá endilega stráðu þeim yfir fyrir extra bragð og andoxunarefni.

Miðvikudagur - Grænmetissúpa

„Á miðvikudögum er ég alltaf með lífsþjálfunartíma, bæði fundir í beinni fyrir aðildarkonurnar mínar í LMLP svo og einkatíma. Sum sé annar dagur þar sem að ég hef ekki mikinn tíma í eldhúsinu en eins og ég sagði þá fæ ég mér alltaf heilsudrykk í hádeginu og þá veit ég að ég er búin að setja góða orku á tankinn. En á miðvikudagskvöldunum geri ég yfirleitt ekki ráð fyrir mikilli eldamennsku, og þess vegna er frábært að taka út grænmeti gærdagsins, ná upp suðu á grænmetisseyði, bæta við einni krukku af lífrænum niðursoðnum tómötum, setja allt grænmetið út í sjóða á lágum hita, hella svo yfir í Vitamix blandarann minn og voila geggjuð holl grænmetissúpa! Þarf ekki að vera flóknara en það. Til þess að fá prótín rista ég annaðhvort baunir eða sólblóma- eða graskersfræ og strái yfir. Og að sjálfsögðu ef ég á ferskar kryddjurtir sama hvort það er steinselja, basilíka eða kóríander, það á allt vel við þessa súpu, þá strái ég því líka yfir. Uppskriftinni má breyta eftir hentugleika og smekk hvers og eins og fyrir hversu marga er eldað- og hvaða grænmeti bakað var daginn áður.“ Hér er grunnuppskriftin.

Grænmetissúpan.png

Grænmetissúpa Lindu

1 lítri grænmetissoð

1 krukka niðursoðnir tómatar

3-4 stórir bakaðir tómatar

1 bakaður laukur

4-6 bakaðir hvítlauksgeirar

2-3 bakaðar paprikur

1 msk. eplaedik

þurrkaðar kryddjurtir eins og óreganó eða basilíka, salt og pipar.

Láttu suðuna koma upp af grænmetisseyðinu, bættu svo öllu öðru saman við, lækkaðu hitann og leyfðu að malla í allt að klukkustund, settu í blandarann og kryddaðu að vild. Helltu í skálar og stráðu ristuðu baunum eða fræjum yfir, ásamt kryddjurtum. Það er líka æðislegt að raspa góðan parmesan ost yfir.

Fimmtudagur – Ofnbakaður fiskur

„Fimmtudagar fara alltaf í það að leggja lokahönd á uppsetningu magasínsins sem sent er út á sunnudagsmorgnum, þannig að ég sit yfirleitt lengi fyrir framan tölvuna til að klára allt saman. Ég er víst það sem kallast pescetarian, sem þýðir að ég borða fisk og sjávarfang en ekki neittt kjöt. Ég er dýraverndunnarsinni og út frá því hætti ég alfarið að borða kjöt fyrir mörgum árum síðan. Engu að síður trúi ég því að við þurfum ekki endilega að fylgja einhverri sérstakri matarstefnu til þess að vera heilbrigð eins og til að mynda vegan eða ketó, ég tel alls ekki hitaeiningar og myndi aldrei mæla með því, en það að vera pescetarian hentar mér og ég hlusta á líkamann minn og hans þarfir. Ég reyni alltaf að borða fisk tvisvar í viku til þess að vera viss um að fá nægt magn af omega-3 fitusýrum. Ég gef mér þess vegna alltaf smá pásu frá uppsetningu magasínsins til þess að útbúa einhvern góðan fiskrétt sem getur svo mallað hægt í ofninum á meðan ég held áfram að vinna í tölvunni eins og til dæmis þennan.“

Ofnbakaður fiskur Linda.png

Ofnbakaður fiskur

Magn eftir smekk og fjölda í mat

Kartöflur

Kúrbítur

Laukur

Paprika

Tómatmauk

Rósmarín

Ólífuolía

Salt

Pipar

Fiskur að eigin vali

Byrjið á því að hita ofninn í 200°C. Skerið kartöflurnar í smá báta. Skerið restina af grænmetinu að eins stærra (tekur styttri tíma að bakast en kartöflurnar). Setjið í eldfast mót dreypið ólífuolíu yfir, stráið rósmarín, salti og pipar eftir smekk yfir. Bakið í um það bil 15 mínútur. Bætið tómatmaukinu yfir og blandið. Leggið fiskinn yfir og stráið fetaostinum, smá ólífuolíu, salti og pipar. Bakið í 12-15 mínútur. Berið fram með ferskri sítrónu eða límettu.

Föstudagur – Grískt kjúklingabaunasalat

„Ég hreinlega elska kjúklingabaunir. Það er hægt að nota þær í svo margt, eins og til dæmis í hummus, falafel, rista þær í ofni og jafnvel baka súkkulaðiköku úr þeim. En eftir langa vinnuviku finnst mér bara gott að borða þær óunnar beint úr krukkunni og bý þess vegna gjarnan til þetta gríska salat sem við mæðgur elskum báðar.“

Kjúklingabaunir salat.png

Grískt kjúklingabaunasalat

200 gr kjúklingabaunir (niðursoðnar)

100 gr kokkteiltómatar

1 agúrka

1 rauð paprika

1 rauðlaukur

1 avókadó

fersk steinselja

mulinn fetaostur

Hellið vökvanum af kjúklingabaununum, skolið og þerrið. Skerið allt grænmeti smátt, setjið saman í skál, hellið salatsósunni yfir, blandið vel, stráið svo fetaostinum og steinseljunni efir og njótið.

Salatsósa

2 msk. eplaedik

Ólífuolía eftir smekk

1 Medjola daðla

Setjið allt saman í matvinnsluvél og blandið vel.

Laugardagur - Kúrbítsbuff

„Mér finnst gaman að sýsla í eldhúsinu um helgar. Hér er uppskrift sem ég prufaði nýverið og mun eflaust útbúa hana aftur.“

Kúrbítsbuff Lindu.png

Kúrbítsbuff

2-3 kúrbítar (fer eftir stærð)

1 laukur

2 egg

200 g möndlumjöl (meira eftir þörf ef að deigið er mjög blautt)

100 geitarostur

salt og pipar

ólífuolía til steikingar

Rífðu kúrbítinn og kreistu út eins mikinn safa eins og þú getur. Skerðu laukinn og bættu við. Hrærðu eggin, kurlaðu ostinn og hrærðu öllu vel saman saltaðu og pipraðu að vild. Bættu svo möndlumjölinu við, notaðu hendurnar til þess að hnoða öllu vel saman. Myndaðu svo kúlur úr deiginu sem að þú fletur svo aðeins út. Hitaðu ólífuolíu í pönnu og steiktu báðar hliðar í nokkrar mínútur. Mjög gott að bera fram með guacamole, salati og kínóa.

Sunnudagur – Lax með ferskjusalsa

„Það jafnast fátt á við íslenska laxinn, og á sunnudögum geri ég mér gjarnan dagamun og elda lax á mismunandi máta. Við mæðgur erum báðar hrifnastar af bleikju svo og laxi og finnst þessi uppskrift góð. Ég veit að hvergi hægt að fá betri óunnar omega 3 fitusýrur en úr laxinum. Þetta er ein af mörgum uppáhalds uppskriftunum mínum. Og ef ég á afgang þá nota ég hann alltaf í eggjahræru næsta dag.“

Laxinn hennar Lindu.png

Lax

700 – 900 g nýr og ferskur lax

salt og pipar eftir smekk

Grillaðu eða bakaðu laxinn í ofni og passaðu að of elda hann ekki. Þarf skamma stund.

Ferskjusalsa

2 ferskar ferskjur

½ rauðlaukur

safi úr einni límónu

1 msk. ólífuolía

1 tsk. eplaedik

1 tsk. hunang

1 tsk. kúmen malað

chiliflögur eftir smekk

eitt búnt kóríander

Settu allt saman í blandarann og notaði pulse takkann nokkrum sinnum.

Ferskt spínat

Agúrka

Avókadó

Skerðu grænmetið niður, legðu laxinn yfir og settu svo ferskjusalsa vel yfir laxinn og njóttu sunnudagsins, tilbúin í næstu viku og næstu verkefni.

Hægt er að fylgjast með því sem Linda er að bjóða upp á og námskeiðinu sem framundan er á heimasíðu hennar og Instagram reikningi.

Heimasíða: www.lindape.com

Instagram @lindape https://www.instagram.com/lindape/

Ef þig langar í vikulegir hollar uppskriftir og annað spennandi efni, og ert ekki þegar orðin áskrifandi af rafræna magasíninu mínu Lífið með Lindu Pé þá vill Linda hvetja þig til að skrá þig í ókeypis áskrift á www.lindape.com og þú færð magasínið Lífið með Lindu Pé sent á netfangið þitt alla sunnudagsmorgna. Frábær leið til að hefja nýja viku og lesa spennandi efni með fyrsta kaffibolla dagsins.

FB-Ernir220818-LindaP-02.jpg fjærmynd.jpg

Linda nýtur sín í eldhúsinu og gullmolarnir á heimili ekki síður. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR.