Borgarleikhúsið frumsýnir Emil í Kattholti á morgun, laugardaginn 4. desember. Þórunn Arna Kristjánsdóttir, leik- og söngkona, leikstýrir verkinu, en þetta er stærsta leikstjórnarverkefni sem hún hefur tekið að sér.

Svo að segja allir hljóta að eiga minningar um prakkarann Emil í Kattholti, hina ómótstæðilegu söguhetju Astrid Lindgren. Það á vitanlega við um Þórunni.

„Ég bjó á Ísafirði og amma mín á Þingeyri og þangað fór ég á jólunum. Ég fékk kassettu með ævintýrum Emils í jólagjöf og ég hlustaði á hana í fyrsta sinn á leiðinni til Þingeyrar sömu jól. Ég mun aldrei gleyma því hvað ég varð hrædd þegar Alfreð var um það bil að fara að deyja úr blóðeitrun og Emil barðist með hann einn í snjóstormi til Maríönnu­lundar. Ég lifði mig svo mikið inn í þetta enda sjálf stödd í snjóstormi á meðan ég var að hlusta. Ég man líka að mér fannst pabbi hans Emils vera alveg ofboðslega strangur pabbi og hættulegur. En ég er nú með aðrar skoðanir á honum í dag.“

Börn munu alveg örugglega flykkjast í Borgarleikhúsið til að horfa á uppátæki Emils. „Barnamenning og börn hafa alltaf skipt mig miklu máli. Í gegnum tíðina hef ég unnið mikið með börnum, ég hef mikinn áhuga á velferð þeirra og mér finnst mikilvægt að við sem erum fullorðin hlustum á þau og leyfum börnum að vera börn en séum ekki sífellt að fá þau til að gera eitthvað, bara af því að hentar okkur fullorðna fólkinu betur,“ segir Þórunn.

Heilmikið sjónarspil

Leikritið er í þýðingu Þórarins Eldjárn og söngur og dans koma þar við sögu. „Þetta er heilmikið sjónarspil. Agnar Már Magnússon sér um tónlistarstjórn og tónlistarútsetningar hans eru frábærar. Lee Proud er danshöfundur og þeir sem hafa séð sýningar sem hann kemur að vita að hann skilar sínu alltaf stórkostlega.

Við viljum að áhorfendur sjái lífið í sænsku sveitinni fyrst og fremst út frá augum barnanna. Það er mikil gleði á sviðinu en alveg eins og þegar ég var lítil að hlusta á á Emil uppi á heiði þá má einnig skynja hættu sem fær hjartað til að slá örlítið hraðar.“

Frábær börn

Fjögur börn skiptast á að leika Emil og systur hans Ídu og voru valin úr hópi 1.200 barna sem fóru í áheyrnarprufur. „Ég gæti ekki verið mikið heppnari með börn,“ segir Þórunn.

„Í dag get ég með gleði í hjarta kallað þessa fjóra flottu leikara vini mína. Við treystum hvert öðru óskaplega vel og þau standa sig frábærlega á sviðinu.

Þau eru 8, 9 og 10 ára og eru á sviðinu nánast allan tímann, þrjú þeirra standa á sviði í fyrsta skipti, einn er með aðeins meiri reynslu. Þetta eru burðarrullurnar og þau gefa þeim fullorðnu ekkert eftir. Ég get ekki hrósað þessum börnum nægilega. Í æfingaferli er stöðugt verið að breyta og bæta og alltaf segja þau já og laga sig að því sem verið er að gera.“

Þegar er Þórunn er spurð hvernig hún útskýri stöðugar vinsældir Emils í Kattholti segir hún:

„Ég held að hluti af vinsældunum sé að við höfum öll afskaplega gaman af prakkarastrikum, hvort sem við erum stillt og prúð börn eða prakkarar eins og sjálfur Emil. Það er svo hressandi að lesa sögur um uppátækjasaman dreng sem gengur alltaf alla leið. Svo finnst mér að Astrid takist óskaplega vel í þessari sögu að sýna okkur hvað lífið og samfélagið getur verið skemmtilegt þegar við leyfum börnum að vera börn.“