Á heimasíðunni Reddit má finna fjöldann allan af sögum frá starfsfólki verslana sem hefur orðið vitni að eða lent í viðskiptavinum sem svífast einskis til að fá vörur á afslætti. Sögurnar eru margar skondnar og skringilegar en aðrar hreint út sagt óhugnanlegar.

Lygilegar uppákomur

Einn notandi segir frá óvæntri atburðarás. „Á námsárum mínum þegar ég var blankur var ég að vinna í Walmart þegar það braust út slagur vegna hjóls. Hnefar hófust á loft og blóðið rann. Á endanum náði einn gaurinn taki á hjólinu, tókst að færa sig frá hópnum, svo settist hann á hjólið og hjólaði á flótta undan þvögunni. Án þess að greiða fyrir hjólið.“

Enginn virðist ónæmur fyrir brjálæðinu sem runnið getur á fólk á stórútsölum. „Ég vann í Radio Shack í ár á meðan ég var í menntaskóla. Þegar Black Friday skall á var ein af útsöluvörunum vasareiknar sem kostuðu vanalega tíu dollara en þarna var búið að lækka verðið niður í fimm dollara. Tvær blíðlegar eldri konur komu inn í búðina að leita að þeim. Þegar ég sagði þeim að það væri bara einn eftir, þá byrjaði ballið. Þetta var eins og öldrunar-hjólaskauta-rallý – án hjólaskautanna. Amman sem laut í lægra haldi kallaði hina „andskotans tík“ þar sem hún stóð í röðinni og ríghélt í verðlaunin sem voru andvirði fimm dollara. Ég sá alltaf fyrir mér einhvern krakka að opna gjafirnar á jólunum og fá þennan heimskulega vasareikni án þess að vilja hann í rauninni, algjörlega ómeðvitaður um söguna að baki, á meðan amma hans sat og sötraði te, með sigrihrósandi glampa í augunum.“

Annar notandi greindi frá þegar hann varð vitni að því þegar kona gerðist óþægilega kræf. „Þegar ég vann í Sam’s Club, í miðju brjálæðinu á föstudagsmorgni gripum við konu sem var að troða frosnum humarhölum ofan í buxurnar sínar. Hún tók umbúðirnar utan af og henti þeim á dekkjahrúgu sem var þarna til sýnis.“

Blóðþyrsta móðirin

Sumar sögurnar eru beinlínis ógnvekjandi. „Á síðasta ári beindi ég konu sem var í leit að dóti óvart í vitlausa átt í mannhafinu sem hafði myndast. Ég áttaði mig fljótlega á mistökunum, hljóp á staðinn þar sem Dóru-dúkkurnar voru, greip eina og labbaði svo um búðina þar til ég fann konuna. Í einfeldni minni bjóst ég við að fá einhvers konar þakkir og asnaðist til að staldra við ögn lengur en ég hefði átt að gera. Konan greip í handlegginn á mér, dró mig aðeins of nálægt sér, brosti og sagði: „Það er eins gott að þú komast aftur.“ Svo benti hún með hökunni niður að handtöskunni sinni svo ég gæti rétt séð glitta í handfangið á skammbyssu áður en ég færði mig snögglega frá henni og hún bætti við: „Vegna þess að ég var að fara að leita að þér!“ Svo gekk hún blóðþyrst til baka í röðina þar sem börnin hennar höfðu verið frá því að búðin var opnuð.

Einn notandinn kveðst hafa upplifað allar verstu hliðar mannskepnunnar en tekst þó að minnast á eitt jákvætt við þetta allt saman. „Ekkert sérstök saga en að vinna í átján tíma samfleytt er martröð út af fyrir sig. Fólk hefur hent hlutum í mig, rifið hluti úr höndunum á mér sem voru ætlaðir öðrum, stolið og brotið hluti, notað mátunarherbergi sem salerni, ælt og liðið út af í verslunum sem ég hef unnið í. Það jákvæða er þó að ég er alltaf með skrefamæli og labba allt að 13-16 kílómetra á Svörtum föstudögum svo ég get réttlætt það fyrir mér að belgja mig út á þakkargjörðarhátíðinni.“

Inn á milli leynast þó sögur sem hægt er að hugga sig við. „Mjög sorglegt. Ég fór á miðnæturútgáfu á Wii í Walmart. Við fengum úthlutað númeri og allir sátu bara í stólum og slökuðu á. Einn gaurinn var með rafal í bílnum sínum og leiddi framlengingarsnúru þangað sem við sátum. Svo stillti hann upp fartölvunni og kveikti á litlum myndvarpa. Allir sátu bara saman, horfðu á bíómyndir, fengu sér poppkorn, mat og drykki. Þetta var frábært og mér þykir það dapurlegt að þetta sé svona einstakt tilfelli.“

Sem betur fer hafa ekki borist margar sögur af hegðun fólks af þessu tagi á stórútsölunum hér á landi. En það er ágætt að hafa þetta í huga og sýna náunganum og þá sérstaklega starfsfólki verslana sérstaka tillitssemi og virðingu þegar örtröð myndast. Þá þarf auðvitað núna í ár fyrst og fremst að gæta fjarlægðar og fara eftir öllum sóttvarnafyrirmælum samviskusamlega. Svo er í mörgum tilfellum hægt að versla á netinu og tilvalið að notfæra sér það.

Þegar Walmart í Danvers var opnað klukkan fimm að morgni árið 2005 hafði fjöldi fólks beðið í röð í nístingskulda frá miðnætti ruddist fólk fyrir framan þá sem beðið höfðu brutust út slagsmál. fréttablaðið/GETTY
Sumir ráða ekki við sig á stórútsöludögum en sem betur fer hafa Íslendingar verið nokkuð yfirvegaðir hvað þetta snertir. MYND/GETTY