Þjóðminjasafnið sendi út spurningalista til hóps fólks árið 1983 og aftur árið 2011 þar sem meðal annars var spurt um ferminguna. Elsta fólkið sem svaraði spurningunum var fætt í lok 19. aldar en fermdist snemma á þeirri 20., en nýjustu svörin eru frá fólki sem fermdist snemma á 10. áratug síðustu aldar.
Serbl_Megin Left: Helga Vollertsen, sérfræðingur í munasafni hjá Þjóðminjasafni Íslands, segir listana hafa verið senda út fyrst og fremst til að safna frásögnum um tíma sem eru að hverfa. „Hugmyndin er að geyma vitneskju til að hægt sé að nota hana í rannsóknir,“ útskýrir hún.

Úr virðast hafa verið vinsæl gjöf frá foreldrum til fermingarbarna allt frá því snemma á 20. öld.

Alveg frá því snemma á síðustu öld og lengi fram yfir miðja öld virðast úr hafa verið algengasta fermingargjöfin miðað við lauslega skoðun á svörunum við spurningalistunum. Einnig var eitthvað um að fá hnakk eða söðul í fermingargjöf snemma á 20. öld og eins voru passíusálmar, sálmabækur, skartgripir og ermahnappar gjafir sem margir mundu eftir að hafa fengið. Sum nefndu að fötin sem þau fengu hefðu verið fermingargjöf, enda var það ekki á hverjum degi sem unglingar fengu ný föt.

Kona sem fermdist 1906 svarar svo: „Ég fékk heilan söðul í fermingargjöf. Maður fór allt ríðandi á þessum tíma. Svo fékk ég brjóstnál og armband, svo voru fötin sem ég fékk náttúrlega fermingargjafir líka.“

Kona fermd 1918 segist hafa fengið úr með silfurfesti og átta fermingarkort og var hún mjög ánægð með þær gjafir. Að fá bæði úr og hnakk í fermingargjöf virðist hafa verið algengt lengi í sumum sveitum miðað við svör manns sem fermdist árið 1939. Hann segir: „Á mínu heimili voru tvær gjafir og ekkert annað. Þessar gjafir voru úr og hnakkur, hvort tveggja dýrar gjafir á þeirrar aldar mælikvarða. Að sama skapi voru þetta nauðsynlegir gripir fyrir vaxandi stritvinnumann.“ Seinna bætir hann við: „Ég veit ekki hvernig það var á öðrum bæjum en hef spurnir af því að úr voru gefin í fermingargjöf árið 1907 svo ef til vill var það gamall siður í sveitinni að gefa úr og hnakk og jafnt stúlkum sem drengjum. Gjafirnar voru ómissandi stritandi unglingum. Varla leið sá dagur að ekki væri settur hnakkur á hest, bæði til snúninga, smalamennsku og ferðalaga.“

Skatthol, sem voru allt í senn kommóða, skrifborð og snyrtiborð, voru vinsæl gjöf til fermingarbarna á 7. áratugnum. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Gasalega flott mubla

Þegar leið á öldina fóru að sjást fleiri gjafir eins og reiðhjól, skrifborð og skatthol. Kona fermd árið 1964 skrifar: „Ég fékk úr frá foreldrum mínum, dálítið af skartgripum, hárþurrku og eitthvað af peningum sem notaðir voru til að kaupa skatthol (gasalega flott mubla sem var kommóða, skrifborð og ekki síst snyrtiborð (undir borðplötunni sem hægt var að lyfta upp). Einhverjar fleiri gjafir fékk ég svo sem bók (Ísl. þjóðhætti), vekjaraklukku og eitthvað fleira.“

Peningagjafir virðast hafa verið algengar alla síðustu öld líkt og í dag og lesa má úr svörunum að eitthvað hafi verið um meting milli krakka um upphæðina.

„Ég minnist þess að hafa verið spurður og spurt aðra: Hvaða gjafir fékkstu? Og svo: Hvað fékkstu mikið í peningum? Það þótti skipta allmiklu máli, en auðvitað fengu þeir mest sem áttu flest skyldmennin. Það var semsagt mikilvægt að vera af fjölmennri ætt,“ skrifar maður fermdur árið 1963.

Maður fermdur árið 1944 segist hafa fengið 30 krónur í fermingargjöf sem honum þóttu mikil auðæfi á sínum tíma. Kona fermd árið 1938 segir líklegt að ömmubróðir hennar hafi gefið henni stærstu gjöfina, tvær krónur. „Hann gaf mér aleigu sína,“ skrifar hún en samtals fékk hún 110 krónur í fermingargjöf sem hún segir að hafi þótt mikið.

Græjur voru tískugjöfin

Þegar nálgaðist síðustu aldamót fór að bera á því að fólk fengi hljómflutningstæki og á 10. áratugnum hefur það líklega verið ein algengasta fermingargjöfin sem börn fengu frá foreldrum sínum.

Kona fermd árið 1978 segist hafa fengið hljómflutningssamstæðu frá foreldrum sínum og húsgagn undir hana. „Þetta var stærsta gjöfin í mínum augum og átti ég hljómflutningssamstæðuna í 31 ár og á ég ennþá húsgagnið,“ skrifar hún. Kona fermd níu árum síðar, eða árið 1987, skrifar: „Frá foreldrum mínum fékk ég „græjur“ sem á þeim tíma voru tvöfalt kasettutæki og útvarp.“ Kona fermd árið 1993 segir að hljómflutningstæki hafi verið tískugjöfin frá foreldrum þegar hún fermdist, það er því ljóst að einhvers konar hljómflutningstæki voru lengi ofarlega á vinsældalistanum.

Því miður hafa ekki verið sendir spurningalistar til þeirra sem fermdust eftir síðustu aldamót en það er þó ljóst að unglingar í dag fá öðruvísi gjafir en unglingar fyrir 100 árum eða 50 árum. Helga segist hafa spurt aðeins í kringum sig og segir það helsta sem sé nefnt vera tölvur og peningar.

„Það væri þó gaman að fá þennan grun staðfestan, svo Þjóðminjasafnið hefur opnað aftur fyrir svörun á spurningaskrá um fermingar og ungmennavígslur, og eru öll þau sem hafa fermst á síðustu árum sérstaklega hvött til að svara skránni,“ segir hún.


Fyrir áhugasama má finna spurningalistana og svörin við þeim á sarpur.is og á heimasíðu Þjóðminjasafnsins, thjodminjasafn.is.