Straumur knattspyrnuáhugafólks frá öllum heimshornum liggur nú til Rússlands þar sem HM-fótboltaveislan hefst á morgun. Heimsins bestu knattspyrnulið munu eigast við á sparkvöllum í ellefu borgum í þessu risastóra landi þannig að það þarf að huga að mörgu.

Snjallsíminn getur komið að góðum notum í Rússlandsferðinni og getur auðveldað ráðvilltum Íslendingum lífið til muna sé hann búinn réttu smáforritunum. Þá er hann næstum jafn mikilvægur og vegabréfið og FIFA-passinn.

Hér eru nokkur helstu öppin sem samkvæmt Theculturetrip.com er vissara að hafa tiltæk í símanum áður en stigið er á land í ríki Vladímírs Pútín.

Yandex.Taxi

Þetta er rússneskt ígildi Uber og auðveldar þér að ná hratt og örugglega í leigubíl en Yandex-bílarnir eru að sögn mun ódýrari en Uber-bílarnir í öðrum löndum.

Yandex býður farþegum upp á að greiða fyrir ökuferðina með reiðufé eða greiðslukorti þegar komið er á áfangastað.

WiFi Map

Þráðlaust netsamband getur skilið milli feigs og ófeigs í framandi landi. Þetta app er nokkurs konar samfélagsmiðill þar sem notendur skiptast á WiFi-lykilorðum og góðum ráðum um hvernig best er að komast í WiFi-samband. Smáforrið virkar einnig þótt síminn sé ekki á netinu og sýnir þá hvar styst er í næsta WiFi eða heitan reit.

Ostrovok.ru

Þetta rússneska hótelbókunar-app gerir notendum mögulegt að finna sér gistingu nánast hvar sem er í heiminum og hægt er að bóka gistingu án tengingar við greiðslukort.

Yandex.Metro

Þetta forrit auðveldar notendum að rata um stórborgir og átta sig á lestarkerfum, meðal annars í Moskvu og St. Pétursborg. Það sýnir öll neðanjarðarlestarkerfi, bendir á auðveldustu leiðirnar og áætlar ferðatíma.

Appið getur einnig komið með tillögur að hvaða ferðamáti sé hentugastur og jafnvel vísað á hvaða lestarvagn er best að velja með tilliti til þess að enda sem næst útganginum á endastöðinni.

TopTripTip

Appið er með allar upplýsingar tiltækar um hvernig hægt er að fá sem mest út úr Rússlandsferðinni. Þarna er hægt að finna skoððunarferðir, náttúruperlur, skemmti- og skrúðgarða og margt fleira.

Í appinu eru einnig hljóðskrár með leiðsögn og fróðleik um ákveðna staði og hægt er að nálgast landa- og vegakort þótt síminn sé ekki á netinu.

XE Currency

Þetta mun vera mest sótta gjaldeyrisreikniforrit í heimi. Það virkar þótt síminn sé ótengdur og er mikið þarfaþing í Rússlandi þegar maður þarf að átta sig á verði í rússneskum rúblum.

Maps.Me

Með Maps.Me er hægt að hlaða niður korti af viðkomandi landi eða borg og fylgja kortinu þótt síminn sé ekki tengdur netinu. Kortin eru gagnvirk og gefa jafnóðum leiðbeiningar um í hvaða átt skal halda og í hvaða átt á að beygja.

Discover Moscow

Þetta er opinbert borgar-app yfirvalda í Moskvu. Þarna á notandinn að geta fundið allar nýjustu upplýsingar um áhugaverðar slóðir, staði tengda frægum persónum og fleira sem óráðlegt er að missa af ef maður er á annað borð kominn alla leið til Moskvu.

Yandex.Translator og Google Translate

Þegar ferðast er um lönd þar sem framandi tungumál eru töluð er ekki verra að vera með tungumála- og þýingaforrit í símanum. Yandex.Translator and Google Translate gagnast ágætlega þegar mann rekur í rogastans og þarf að geta til dæmis spurt til vegar.

Þá er hægt að bera spurninguna upp við símann sem svara með því að endurtaka hana á viðkomandi tungumáli.

Gate Guru

Þetta forrit getur komið í góðar þarfir þegar þvælst eru um flugvallarfrumskóga veraldarinnar. Appið inniheldur upplýsingakort yfir helstu flugvelli, sýnir flugáætlanir í rauntíma og vísar á veitingasölur sem næst brottfararhliðinu þínu. Þá áætlar appið hversu lengi innritunin muni taka, hversu langt er í brottfararhliðið og fleira gagnlegt.

Algert þarfaþing þegar lent er á ókunnugum flugvöllum.

Culture Trip

Rússland er merkilegt land með langa og stórmerkilega sögu þannig að það er um að gera að nota fótboltaferðina til þess að sjá sem mest af því sem landið hefur upp á að bjóða.

Þetta er einmitt appið til þess. Hlaðið greinum um helstu ferðamannastaði, tillögur að veitinga- og gististöðum og öðrum upplýsingum sem koma sér vel þegar maður tapar áttum í hringiðu stórborganna.