Kúluvarparinn Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir stór­bætti eigið Íslands­met inn­an­húss á há­skóla­móti í Al­buqu­erque í Nýju-Mexí­kó snemma í þessum mánuði. Þá kastaði Erna kúl­unni 17,70 metra en viku fyrr hafði hún einnig sett Íslands­met á móti í Texas þegar hún kastaði 17,34 metr­a. Kast hennar í Al­buqu­erque var ell­efta lengsta kast Evr­ópu­búa í ár og um leið það fjór­tánda lengsta í heim­in­um frá ára­mót­um.

Stóra markmið hennar í ár er að komast á heimsmeistaramótið í ágúst sem verður haldið í Búdapest í Ungverjalandi. „Ég ætla mér svo að komast á Ólympíuleikanna í París árið 2024. Þá þarf ég annaðhvort að komast inn á stigalista með því að vera í topp 32 í heiminum eða ná lágmarkinu sem er 18,80 metrar. Það væri auðvitað best að ná þessu lágmarki svo ég þurfi ekki að velta fyrir mér stigunum.“

Erna Sól­ey var níu ára gömul þegar frjálsíþróttaferill hennar hófst með frjálsíþróttanámskeiði hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ.

Ferillinn hófst í Mosfellsbæ

Frjálsíþróttaferill Ernu hófst með frjálsíþróttanámskeiði hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ þegar hún var níu ára gömul. „Það má segja að áhuginn á frjálsum íþróttum hafi byrjað þegar ég fylgdist með Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Eftir það æfði ég frjálsar á sumrin og handbolta yfir veturinn. Þegar ég var fimmtán ára sneri ég mér alfarið að frjálsum íþróttum. Á þeim tímapunkti fór mér mér að ganga mjög vel í kúluvarpi og í kjölfarið bauðst mér skólastyrkur við Rice University í Texas í Bandaríkjunum.“

Eftir það hefur allt verið á uppleið að hennar sögn. „Það sem ég elska við kúluvarp er að geta séð vinnuna sem ég legg í íþróttina með hversu langt ég kasta. Ég get auðveldlega sett mér markmið og séð bætingar ár eftir ár. Mér finnst líka frábært hversu einstaklingsbundin íþrótt þetta er og ég æfi eftir prógrammi sem er algjörlega sniðið að mér. Í gegnum kúluvarp hef ég líka kynnst frábæru fólki og upplifað margt magnað.“

Finnst gaman að læra

Erna stundar mastersnám í alþjóðasamskiptum en fyrir hafði hún lokið BA námi í hreyfifræði (e. kinesiology). „Ég stefni á útskrift í maí ef allt gengur vel. Mér finnst mjög gaman í náminu og gaman að læra yfirhöfuð en er þó ekki alveg búin að ákveða við hvað ég ætla að starfa í framtíðinni. En ásamt því að vera í íþróttum væri ég til í að vinna að einhverju sem mér finnst skipta máli. Íþróttir munu án efa fylgja mér þangað til ég dey og vonandi næ að verða boccia meistari á elliheimilinu þegar ég verð eldri. Utan íþrótta finnst mér líka mjög gaman að ferðast og prófa allskonar mat.“

„Í gegnum kúluvarp hef ég líka kynnst frábæru fólki og upplifað margt magnað,“ segir Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir.

Spurt og svarað:

Ertu morgunhani eða finnst þér gott að sofa út?

Svo lengi sem ég fæ að sofa í átta til tíu tíma þá get ég vaknað hvenær sem er. Það er samt yfirleitt ekki snemma á morgnanna.

Hvernig kemur þú þér í gírinn fyrir mót?

Fyrir keppni hlusta ég á góða tónlist, les kannski bók og reyni að slaka á. Svo þegar ég þegar mótið byrjar smelli ég í rétta gírinn.

Hver er uppáhaldsæfingin og sú sem er í minnstu uppáhaldi?

Í augnablikinu er uppáhalds æfingin mín bekkpressa. Í minnstu uppáhaldi er hnébeygjur, en það er bara vegna þess að ég fæ illt í bakið af þeim.

Hvað færðu þér oftast í morgunmat?

Ég fæ mér sama morgunmat alla daga: 4 soðin egg, 1 appelsína og ristað brauð með smjöri.

Hvað finnst þér gott að fá þér í kvöldmat?

Ég er með algjört æði fyrir öllum súpum

Hvað finnst þér gott að fá þér í millimál?

Hreint skyr með frosnum berjum, eplamauki og smá salti. Flatkökur eru líka æði.

Hvað gerir þú til að halda andlegu heilsunni í jafnvægi?

Ég reyni að hugleiða daglega í tíu mínútur og stunda núvitund. Það hefur hjálpað mér mikið til að minnka streitu og til að vera jákvæðari.

Hverjar eru helstu fyrirmyndir þínar í íþróttum og í lífinu?

Ég er mjög heppin að hafa margar íslenskar fyrirmyndir sem hafa komist langt í kúluvarpi. Þar má nefna Gunnar Huseby, Guðmund Hermannsson, Hrein Halldórsson, Óskar Jakobsson, Pétur Guðmundsson og Óðin Björn Þorsteinsson. Ísland á svo frábæra sögu í kúluvarpi og það er stórt markmið hjá mér að halda áfram með þá sögu.

Hver eru bestu ráð þín til ungs íþróttafólks sem vill ná langt?

Ekki vera hrædd við að setja stór markmið og leyfa sér að dreyma. En til að komast að stóru markmiðunum er mikilvægt að setja minni markmið og fagna litlu sigrunum.