„Ég hef haft brennandi áhuga á leiklist síðan ég var á táningsaldri en hafði ekki hugrekki til að gera neitt í málunum fyrr en nýlega að ég gerðist félagi í Leikfélagi Hafnarfjarðar og fór í kjölfarið á námskeið þar í leiklist,“ segir Sigríður Olsen, mið-Olsensystirin sem stígur á stokk með systrum sínum, Sólveigu og Bjarklindi Olsen, í Tækifærisleikhúsinu í kapellu gamla St. Jósefsspítalans í kvöld, klukkan 18.

Hugmyndin að Tækifærisleikhúsinu varð til í höfundasmiðju Leikfélags Hafnarfjarðar (LH) en margra ára hefð er fyrir stuttverkakvöldunum Hinu vikulega hjá LH. Þá fá höfundar viku til að skrifa verk sem svo eru æfð í viku og síðan sýnd, en í kvöld verða sýnd nokkur stuttverk sem verða samin í dag.

„Höfundar LH hittast reglulega á laugardagsmorgnum í kapellunni til að skrifa. Oftast eru forsendur dregnar úr höttum og svo er skrifað í ákveðinn tíma, til dæmis klukkutíma. Úr þessum æfingum hafa komið hin skemmtilegustu leikverk og alveg merkilega heilleg á ekki lengri tíma,“ upplýsir Ingveldur Lára Þórðardóttir, stjórnarkona hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar.

Hugmyndin að Tækifærisleikhúsinu hafi svo kviknað þegar rædd var nýstárleg tilraun; að prófa að semja og æfa fyrir stuttverkakvöld á aðeins einum degi, í stað tveggja vikna.

„Það yrði örugglega mátulega spontant og fyndið því enginn hefði tíma til að taka sig of alvarlega. Því þótti okkur ráð að bjóða gestum og gangandi að taka þátt eða fylgjast með. Það er nefnilega mjög hollt, gefandi og gaman að stunda leiklist og ótrúleg tilfinning að taka þátt í svona skyndisköpun, þar sem allt má og ekkert er of asnalegt, og það gerir heldur ekkert til þótt eitthvað klúðrist. Það gerir bara gott betra því leikhús þarf ekki að vera flókið,“ segir Ingveldur, full tilhlökkunar fyrir kvöldinu.

Sleppt fram af sér beislinu

Sólveig, elsta Olsen-systirin, er ekki sannfærð um að hafa sérstaka hæfileika á leiklistarsviðinu, en þó hafi blundað í henni leikkonudraumur frá unglingsaldri.

„Ég hef þó örugglega sönghæfileika og hef mjög gaman af því að syngja. Systur mínar hafa hvatt mig til að koma í áhugaleikfélag Hafnarfjarðar en ég hef aldrei sótt leiklistarnámskeið. Ég ákvað samt að slá til og taka þátt í þessu leikverki í kvöld, aðallega til að hafa gaman af og líka upp á félagsskapinn, en mestmegnis til að leika með systrum mínum. Þannig efast ég ekki um að þetta verði afbragðs skemmtun, bæði fyrir okkur og áhorfendur, og svo sjáum við til hvort ég skrái mig ekki í Leikfélagið í framhaldinu,“ segir Sólveig glettin.

Í sumar sótti Sigríður, sem er ávallt kölluð Sigga, árlegan sumarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga ásamt Bjarklindi, þeirri yngstu með Olsen-nafnið. Þar var boðið upp á kennslu í flestu sem við kemur leiklist.

„Ég var tólf ára þegar ég heillaðist af leiklist og tók virkan þátt í skólasýningum, bæði dansi og leikritum. Þá var ég alls ófeimin og sá mig í hillingum sem leikkonu í framtíðinni. Með aldrinum varð ég feimnari við að koma fram, en ákvað í fyrra að drífa mig með Siggu í Leikfélag Hafnarfjarðar, því mér fannst tími til kominn að stíga skrefið og fann styrk í að við færum saman,“ greinir Bjarklind frá.

Hún sér svo sannarlega ekki eftir því.

„Í Leikfélaginu get ég sleppt fram af mér beislinu og verið ég sjálf, sem og hvaða persóna sem er, í alls konar hlutverkum. Ég held að allir hefðu gott af því að finna hinar ýmsu tilfinningar kvikna, og sem þeir hafa kannski aldrei áður upplifað, með því að fara í önnur hlutverk. Þá mætti að mínu mati hafa leiklist sem skyldufag í grunnskólum, bara fyrir lífið sjálft,“ segir Bjarklind, sæl með nýfengið leikkonulíf.

Hún heldur áfram:

„Leiklistarskóli Bandalags íslenskra listamanna var æðisleg upplifun og ævintýri í sumar. Ég er ánægð með að vera hluti af þeim frábæra félagsskap og finnst auðvitað afar spennandi að fá að leika með systrum mínum. Það gerir allt miklu auðveldara þar sem við erum nánar fyrir og þekkjumst svo vel.“

Sigga tekur undir hvert orð hjá Bjarklindi, litlu systur sinni.

„Ég ákvað bara að hella mér út í leiklistina núna því ég hef aldrei losnað við leiklistarbakteríuna. Ég vona bara að ég hafi hæfileika og hef ekki heyrt annað en að ég sé bara asskoti góð,“ segir Sigga og skellir upp úr.

Draumurinn að leika í bíómynd

Það er óvenjulegt að þrjár systur eigi sameiginlegan draum um að vera dáðar á leiksviðinu en þær eru þær einu í stórfjölskyldunni sem hafa þennan óslökkvandi áhuga á leiklist og muna ekki eftir neinum frægum leikurum aftur í ættum.

„En það eru miklir sönghæfileikar í kringum okkur og ég er einmitt nýlega byrjuð í söngnámi,“ segir Sigga og allar eru systurnar söngelskar.

Þær hafa líka alla tíð sett upp leikrit saman og fíflast við að herma eftir fólki og þáttum.

„Draumurinn væri að leika í grínþáttum og bíómyndum,“ segir Bjarklind og Sigga er systur sinni sammála, en væri líka til í að leika í hvers kyns sjónvarpsseríum.

„Aðalmarkmiðið er þó að hafa gaman af þessu með skemmtilegfólki. Ég upplifi leiklistarbröltið sem hina bestu sálfræðimeðferð, það er gott fyrir sjálfsmyndina og hjálpar manni að þora að tjá sig. Það er reyndar ótrúlega gefandi og gaman að geta brugðið sér í annað hlutverk og leikið sér í því, bæði í gríni og alvöru,“ segir Sigga.

Olsen-systurnar eru spenntar fyrir kvöldinu í kapellunni.

„Þetta verður óvissuferð þar sem allt gerist á einum og sama deginum; leikverk samin, leikarar valdir, þeim leikstýrt og afraksturinn sýndur frammi fyrir áhorfendum. Ég get ekki beðið eftir að taka þátt, sjá verkin fæðast og verða að veruleika á sviði,“ segir Bjarklind.

Olsen-systurnar vita eðlilega ekkert hvað stykkið sem þær leika í heitir, enda enn ósamið í pop up-leikhúsi dagsins.

„Það er yndislega gaman að við systur séum í þessu saman og allar jafn áhugasamar. Vonandi berum við gæfu til að fá enn fleiri tækifæri sem leikkonur í framtíðinni. Áhorfendur mega svo búast við mikilli skemmtun og innblæstri í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem Leikfélag Hafnarfjarðar setur upp leikverk í fleirtölu sem samin eru örfáum klukkustundum fyrir frumsýningu. Það verður eitthvað!“ segir Sigga.