Ég er upp­numin yfir því hvað allir voru yndis­legir,“ segir Sigur­laug Hauks­dóttir, fé­lags­ráð­gjafi, sem slasaði sig í Glæsibæ stuttu fyrir jólin, þríbraut gleraugun sín og fékk eftir alls konar millileiki saumuð átta spor í andlitið.

Sigurlaug hafði gert sér ferð í Glæsibæ til að versla sér grímur. „Ég var á leið í flug til Banda­ríkjanna næsta dag og var að skoða extra öruggar grímur fyrir flugið,“ segir hún.

Þegar Sigur­laug hafði heim­sótt þrjú apó­tek sem ekki áttu til grímurnar sem hún leitaði að fann hún þær hjá Lyf­salanum í Glæsi­bæ. Þar segir hún starfs­fólkið hafa verið sér­lega hjálp­samt.

Þegar Sigur­laug gekk út úr Glæsi­bæ datt hún í tröppu og slasaðist. „Það rann mikið blóð úr höfðinu á mér þar sem ég lá á bíla­stæðinu. Er­lendur maður kom strax að­vífandi og veitti mér hjálpar­hönd,“ segir hún.

Maðurinn fann far­síma Sigur­laugar og gler­augun, sem brotnað höfðu í þrennt, og hjálpaði henni á fætur. „Þar sem gríman mín var orðin gegn­sósa af blóði og það rann í stríðum straumum niður um mig að innan- og utan­verðu, æddi ég að bílnum mínum hálf­blind, því ég gat ekki notað gler­augum, en þar voru engar þurrkur. Nú voru góð ráð dýr,“ segir hún.

Aftur í apótek til að stöðva blóðflæðið

Sigur­laug á­kvað að fara aftur í apó­tekið í þeirri von að verða sér út um pappír til að reyna að stoppa blóð­flæðið og komast heim. Þegar þangað kom sagði af­greiðslu­konan í apó­tekinu Sigur­laugu að hún teldi hana þurfa meiri að­hlynningu en bara pappír. Í sömu and­rá gekk önnur kona upp að henni og sagðist vera hjúkrunar­fræðingur, hún fór með Sigur­laugu á heilsu­gæsluna í Glæsi­bæ.

Sigur­laug var strax skoðuð í bak og fyrir á heilsu­gæslunni, kallaður var til læknir og tekin var á­kvörðun um að hún þyrfti að fara á bráða­mót­tökuna. Á meðan Sigur­laug var á heilsu­gæslunni varð hún ó­ró­leg og mundi allt í einu ekki eftir því hvar síminn hennar og gler­augun væru.

„Hjúkrunar­fræðingurinn sem fylgdi mér á heilsu­gæsluna sagði þá við mig að ef ég treysti henni þá gæti hún farið út í bílinn minn og at­hugað hvort hún fyndi þetta þar. Ég átti ekki orð yfir al­menni­leg­heitum hennar, að vilja gefa mér blá­ó­kunnugri konunni svona mikið af sínum dýr­mæta tíma,“ segir hún.

„Ég sagðist treysta henni þúsund­falt og miklu meir en það. Hún væri ein sú a­lin­dælasta kona sem ég hefði nokkurn tíma hitt. Hún kom til baka með tvo af þremur hlutum gler­augnanna og gemsann minn. Mér létti mikið við þá endur­fundi,“ segir Sigur­laug.

Leituðu slasaðrar móður við apótek „einhversstaðar á stór-Reykjavíkursvæðinu"

Hjúkrunar­fræðingurinn og læknirinn vildu alls ekki að Sigur­laug keyrði sjálf á bráða­mót­tökuna og hvöttu hana til að hringja í aðra dóttur sína og fá hana til að keyra sig. „Þegar ég tók upp símann til að hringja, birtist dóttir mín í her­berginu. Ég varð al­gjör­lega orð­laus, agn­dofa. Hvernig gat hún vitað að ég væri stödd þarna?,“ segir Sigur­laug.

Þegar Sigur­laug datt fyrir utan Glæsi­bæ var hún að tala við son sinn sem býr í Banda­ríkjunum í símann. „Ég heyrði hann hrópa á mig ein­hvers staðar úr gemsanum og ég kallaði, þar sem ég lá í blóði mínu, að ég hefði dottið. Hann hringir þá í einum grænum í systur sína og segir að ég sé meidd ein­hvers staðar við apó­tek á Stór-Reykja­víkur­svæðinu,“ út­skýrir Sigur­laug.

„Hann gat ekki stað­sett mig betur en það þar sem ég var ekki með á­kveðna stillingu í símanum til að geta fundið símann. Hann sendi því systur sinni, sem er vöru­hönnuður, myndirnar tvær sem ég hafði sent honum að gæða­grímunni góðu, í von um að það gæti komið þeim á sporið,“ heldur hún á­fram.

„Ég heyrði hann hrópa á mig ein­hvers staðar úr gemsanum og ég kallaði, þar sem ég lá í blóði mínu, að ég hefði dottið.“


Fyrri myndina segir Sigur­laug hafa verið dóttur sinni gagns­laus í leitinni að mömmu sinni. Sú seinni sýndi hins vegar ör­lítið af rýminu sem Sigur­laug var stödd í en það var nóg til þess að dóttir hennar áttaði sig á því að móðir hennar væri í Glæsi­bæ. Það sem kom henni á sporið var letur­gerð á verð­merkinginunni, gluggar sem virtust ekki innan­húss vegna myrkurs úti og gólf­flísar.

„Hún hringdi í apó­tekið, spurði hvort hún kannaðist við lemstraða konu sem hefði komið þar við. Af­greiðslu­konan kannaðist vel við þá lýsingu og sagði að konan hefði farið upp á heilsu­gæsluna. Þar birtist síðan dóttir mín eins og enn einn engillinn á þessum ör­laga­ríka degi,“ segir Sigur­laug.

Átta spor saumuð við augað

Á leiðinni út úr Glæsi­bæ komu Sigur­laug og dóttir hennar við í gler­augna­verslun í húsinu til að freista þess að hægt væri að laga gler­augun sem höfðu brotnað þegar Sigur­laug datt. „Á met­hraða tjaslaði starfs­maðurinn þar gler­augunum mínum saman og bætti við einni spöng bak við eyrað. Allt mér að kostnaðar­lausu og bauð þess í stað bara konfekt. Því­lík mann­gæska! Mér fannst eins og Glæsi­bær tæki á móti mér í hrika­legu á­sig­komu­lagi, með opinn faðminn á mesta á­lags­tíma ársins. Þetta á jafnt við af­greiðslu­fólk, fag­menn og við­skipta­vini, allir sinntu mér að kost­gæfni og gáfu mér þann tíma sem ég þarfnaðist,“ segir Sigur­laug.

Á bráða­mót­tökunni var Sigur­laug saumuð átta sporum við augað, tekin var tölvu­sneið­mynd upp á kinn­beinið og röntgen vegna handarinnar því lófinn var alveg blár. „Ég reyndist sem betur fer ó­brotin, bara tognuð, bólgin og með mar­bletti og sár á víð og dreifð,“ segir hún.

„Ég tel mig hafa verið ó­trú­lega heppna að sleppa við að rotast, brjóta kinn­bein og úln­lið þess vegna nef og tennur. Meira að segja gler­augun sem smössuðust urðu not­hæf að nýju og gemsinn sem flaug eitt­hvað í fallinu var enn heill.“

„Ég vil af öllu mínu hjarta þakka því fólki sem hjálpaði mér á ein­hvern hátt í Glæsi­bæ þann 20. desember. Þið gerðuð það á ein­stak­lega hlýjan og fag­mann­legan hátt, mér fannst eins og ég væri í faðmi stór­fjöl­skyldu minnar.“

Þakklát og setur heilsuna í fyrsta sæti

Sigur­laug hefur frestað ferðinni til Banda­ríkjanna þar til í febrúar og ætlar að setja heilsuna í fyrsta sæti. Hún er þó afar spennt að hitta barna­börnin sín fjögur sem búa í Banda­ríkjunum.

Þá segist hún afar hrærð yfir þeim mót­tökum og hjálp sem hún fékk í Glæsi­bæ. „Ég vil af öllu mínu hjarta þakka því fólki sem hjálpaði mér á ein­hvern hátt í Glæsi­bæ þann 20. desember. Þið gerðuð það á ein­stak­lega hlýjan og fag­mann­legan hátt, mér fannst eins og ég væri í faðmi stór­fjöl­skyldu minnar,“ segir Sigur­laug þakk­lát.

„Ég á líka ekki orð yfir hug­kvæmni barna minna, sonar míns að átta sig á því að ég væri mögu­lega slösuð og virkja strax systur sína í að finna út hvar ég væri í bænum. Ég held að dóttir mín og þau bæði hljóti að vera bestu spíónar landsins að finna út í hvaða apó­teki ég var! Ég er þeim af­skap­lega þakk­lát fyrir að­stoðina og að fá að láni dóm­greind þeirra og ykkar hinna í Glæsi­bæ,“ segir Sigur­laug að lokum.