„Breyttur veruleiki blasir við og Félag kvenna í atvinnulífinu hefur notað alla glugga til að hittast í raunheimum en nýtt tímann vel á tímum Covid til að efla okkur í leik og starfi. Við erum með öflugar félagskonur um land allt sem hafa átt í meiri samskiptum á tímum Covid en áður. Tæknin hefur fært félagskonur nær hverri annarri og fleiri raddir að borðinu sem er frábært og nauðsynlegt. Landsbyggðadeildir FKA gerðu sér lítið fyrir og stóðu fyrir ráðstefnu sem fjallaði um tækifærin sem taka á sig ótal myndir um landið allt,“ segir Andrea stolt.

Erindin voru fjölbreytt og fyrirlesararnir eiga sameiginlegt að blómstra við búsetu á landsbyggðinni.

Á ráðstefnunni, Arðsemi hamingjunnar á landsbyggðinni - Ný heimssýn á nýjum tímum, voru fjölmargir fyrirlesarar sem eiga allir sameiginlegt að blómstra við búsetu á landsbyggðinni.

„Ráðstefnan er dæmi um afurð aukins samtals landsbyggðadeilda FKA. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra opnaði ráðstefnuna og var einlægur í sínu erindi. Síðan tók við fróðleg dagskrá um verkfæri, bjargráð og upplýsingar um sigra, sem og áskoranir í hinu og þessu eins og vegferð frumkvöðla,“ segir Andrea.

„Ég lærði fullt nýtt um glatvarma, nýsköpun og ríkidæmi landsbyggðarinnar og fékk enn og aftur staðfestingu á mikilvægi hamingjunnar.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra var með opnunarávarp.

Áður fóru allir suður en nú geta allir farið út og suður

„Covid hefur sýnt að það eru tækifæri til að flytja fjölmörg störf hvert á land sem er. Fjölmargir geta flutt starfið með sér á sinn drauma búsetustað eða skapað tækifæri hvar sem er á landinu, og um heim allan. Hér áður fyrr var talað um að „allir færu suður“ en nú geta allir farið út og suður og við þurfum að pæla alvarlega í hvernig við ætlum að mæta nýjum veruleika og höndla með hann,“ segir Andrea.

Laufey Guðmundsdóttir, stjórnarkona FKA Suðurlandi hjá Markaðsstofu Suðurlands, var ráðstefnustjóri.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, var með erindið „Hvað svo?“.
Ingibjörg Valdimarsdóttir hjá Ritari.is ræddi um tækifæri og áskoranir í úthýsingu starfa.

Eggjahræra, spælegg og Bernaise sósa?

„Það er öllum ljóst að við getum ekki verið með öll egg í sömu körfu og þurfum að endurhugsa og endurreisa efnahagskerfið með eggjahræru, spæleggi og Bernaise-sósu. Gera eitthvað nýtt og skapandi í bland við gamla slagara og þess vegna fórum við af stað til að ræða málin á ráðstefnunni. Landsbyggðadeildir FKA hafa einlægan áhuga á að læra hver af annarri og miðla. Þessi ráðstefna var vorverkið þetta árið hjá öflugum landsbyggðadeildum FKA,“ segir Andrea sem er glöð með hvernig tókst til.

„Hugmyndir að svona degi koma í stórum sekkjum. Hugmyndaútsæðið fær nú að spíra og verður sett niður fyrri hlutann í maí með akrýldúk yfir,“ segir Andrea hlæjandi og hvetur konur til að fjárfesta í sér og koma í Félag kvenna í atvinnulífinu.

„Við eigum allar erindi!“

Ingunn Jónsdóttir hjá Háskólafélagi Suðurlands.
Laufey Sif Lárusdóttir, eigandi Ölverks, sem slegið hefur í gegn með skapandi og lifandi markaðssetningu.
Auður I Ottesen, eigandi Sumarhúsið og garðurinn.
Dagný Ósk Halldórsdóttir hjá Glerfell ehf.
Hrund Guðmundsdóttir, grafískur hönnuður hjá Klettagjá ehf.
Jóhanna Hildur Ágústsdóttir stjórnarkona hjá FKA Norðurlandi sem var í skipulagsnefnd.
Hrefna Sigmarsdóttir á Húsafelli.