Ó­lík­legt er að þeir Harry og Vil­hjálmur Breta­prinsar muni geta hist áður en til jarðar­farar Filippusar, her­toga af Edin­borg kemur, að því er fram kemur í frétt breska götu­blaðsins Mirror.

Eins og fram hefur komið mætti Harry til Bret­lands í gær. Hann þarf að sæta fimm dögum í sótt­kví og undir­gangast CO­VID-19 próf að þeim tíma liðnum. Sam­band bræðranna hefur verið stirt undan­farin ár og Harry meðal annars rætt það á opin­skáan hátt.

Sam­kvæmt frétt Mirror mun Harry að öllum líkindum þurfa að dveljast einn í sótt­kví fram á laugar­dag, þegar jarðar­förin er haldin. Þá segir enn­fremur að bresk stjórn­völd bjóði upp á að sótt­kví sé brotin í til­vikum þar sem við­komandi þurfi meðal annars að sækja jarðar­för fjöl­skyldu­með­limar, sem Harry geti þá nýtt sér.

Bresk götu­blöð hafa í­trekað full­yrt að við­tal þeirra Harry og Meg­han við Opruh Win­frey hafi sett enn frekara babb í bátinn í sam­skiptum bræðranna. Eina skiptið sem Vil­hjálmur tjáði sig um málið var fyrir utan grunn­skóla í út­hverfi London, og sagði hann fjöl­skylduna alls ekki rasíska og að hann hefði ekki rætt við bróður sinn, en myndi gera það.

Í við­talinu sagði Meg­han meðal annars að það hefði verið Katrín, eigin­kona Vil­hjálms, sem hefði grætt sig en ekki öfugt líkt og bresk götu­blöð hefðu haldið fram. Sagði hún að Katrín hefði beðið sig af­­sökunar og að ekki væri illt á milli þeirra. Þá sagði Harry við Opruh í við­talinu að hann hefði verið líkt og fastur í gildru í konungs­fjöl­­skyldunni. Full­yrti hann að það ætti við um bróður hans Vil­hjálm og faðir hans Karl Breta­prins.