Kristur – Saga hugmyndar er bók eftir Sverri Jakobsson, prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út.

„Í sjálfu sér þarf ekki að rökstyðja að maður hafi áhuga á Kristi. Hann er svo mikill hluti af menningu vestrænna þjóða og ein allra mikilvægasta persónan í mannkynssögunni. Það er svo annað mál af hverju ég vildi skrifa einmitt þessa bók,“ segir Sverrir. „Mér fannst vanta sagnfræðilega umfjöllun um Krist. Þekking á kristni og af hverju hún er eins og hún er fer versnandi í samfélagi okkar. Ég var að leita að bók sem segði mér frá því hvernig sýn manna á Krist hefði þróast í sögulegu samhengi og fann ekki, þannig að ég ákvað að skrifa hana sjálfur.“

Sjónarmið Páls postula

Bók Sverris er þróunarsaga hugmyndarinnar um Krist. „Ég byrja söguna eftir lát Krists og þá eru þrír meginstraumar í því hvernig menn segja frá honum. Einn er sá sem Páll postuli stendur fyrir. Páll hafði eiginlega ekki áhuga á Kristi fyrr en hann var dáinn, risinn upp og hafði sigrast á dauðanum. Í bréfum Páls kemur þessi sýn mjög skýrt fram. Páll þekkti ekki Krist en sá hann í sýn eftir dauða hans. Önnur mynd birtist í Markúsarguðspjalli og gengur í gegnum guðspjöllin og þar er áherslan á kraftaverkin og þá staðreynd að Jesús sé Messías, en þær hugmyndir eiga sér forsendur í Gamla testamentinu og gömlum hugmyndum gyðinga. Þriðja hugmyndin er sú sem finnst í Ræðuheimildinni, en þar var að finna ýmis ummæli sem höfð voru eftir Kristi. Þetta er rit sem er glatað en flestir fræðimenn eru vissir um að það hafi verið til. Allar þessar þrjár gerðir heimilda eru staðsettar í heimi gyðinga og innan gyðingasiðar og þar eru einhverjar frásagnir sameiginlegar en samt ekki ýkja margar.

Sumir af áhangendum Krists vildu boða kristinn sið víðar og til annarra, eins og til dæmis Páll postuli. Meirihlutaskoðunin var samt sú að halda ætti Jesú og boðskap hans innan gyðingasiðar. Sjónarmið Páls hefur betur, aðallega vegna þess að ríki gyðinga leið undir lok og þá lifir kristni af sem trúarbrögð sem höfða til annarra en gyðinga. Um leið breytist kristnin nokkuð, því siðir úr hellenskum trúarbrögðum koma inn í hana og um leið verður Jesús guð.“

Maður og guð

Lýsingar á því hvernig Kristur varð guð eru fleiri en ein. „Ein er sú, sem við sjáum til dæmis í Postulasögunni og fleiri ritum, þar sem Kristur er tekinn upp til himna eftir að hafa verið maður alla ævi. Önnur hugmynd birtist í Jóhannesarguðspjalli þar sem Kristur var guð allan tímann og eldri en maðurinn. Það skapar alls konar vandamál, hvernig getur vera sem er til í upphafi með Guði orðið skyndilega maður?

Á þessum tíma er ekki til nein guðfræði. Hún varð til seinna til að taka á öllum þeim vandamálum sem hinar ólíku myndir af Jesú sköpuðu fyrir kristna menn. Meginstraumur kristinna manna vildi bæði halda í manninn og guðinn á sama tíma.“

Ný trúarjátning

Í bók sinni rekur Sverrir hvernig guðfræðin þróaðist og fjallar einnig um kirkjuþingin. „Innan kristni á þriðju öld eru margar ólíkar hugmyndir en ekkert sem heitir rétttrúnaður því enginn hafði valdið til að segja öðrum hverju þeir ættu að trúa. Biskupinn í Róm, sem þá hét ekki páfi, hafði ekki þá stöðu né neinn annar leiðtogi kristinna manna.

Í byrjun fjórðu aldar fóru Rómarkeisarar að styðja kristni og efla hana. Þá voru kirkjuþingin haldin og í kjölfarið verður til eitthvað sem heitir kristinn rétttrúnaður. Mörg hugtök þar voru frekar nýleg eins og að allir hlutar þrenningarinnar hafi sameiginlegt eðli. Kristnin eins og hún þróast tekur líka úr sér strauma úr ýmsum afbrigðum eldri kristni.

Þegar búið var að ákveða þrenninguna: faðir, sonur og heilagur andi, þá þurfti líka að ræða um manninn Krist, hvernig eðli hans gæti verið bæði guðs og manns. Um það snerust deilur kristinna manna á fimmtu öld og þeim lauk með kirkjuþingi í Khalkedon árið 451. Þar var sett fram ný trúarjátning þar sem menn gera grein fyrir því að Kristur hafi algjörlega tvöfalt eðli, sé bæði guð og maður. Kristnir menn klofnuðu í afstöðu sinni til þessarar hugmyndar og sá klofningur fyrirfinnst enn, til dæmis í Egyptalandi og fleiri kirkjum í Austurlöndum sem fallast ekki á þessa niðurstöðu.

Bók minni lýkur um 800 þegar ákveðinn klofningur verður milli vestrænnar og grískrar kristni. Ágreiningurinn var í rauninni smávægilegur, snerist um það hvaðan heilagur andi hefði komið, hvort hann hefði komið frá föðurnum eða einnig frá syninum.“