Sjaldan hefur sviðlistaframboðið verið meira á landinu og listafólk komið til baka af krafti eftir tvö erfið heimsfaraldursár. Stundum var þó meira fjör utan sviðs en á því.

Hápunktar haustsins
Byrjum á því sem stóð upp úr á leiksviðinu. Fullorðin byrjaði sína lífdaga á Akureyri og skemmti höfuðborgarbúum ærlega í Þjóðleikhúskjallaranum. Sigrún Edda Björnsdóttir var eftirminnileg í Á eigin vegum. Tilraunasýningin Hið ósagða eftir Sigurð Ámundason kom síðan eins og skrattinn úr sauðarleggnum í Tjarnarbíó í desemberbyrjun.
Hamingjudagar, sem einnig voru frumsýndir hjá Leikfélagi Akureyrar og síðan færðir í Borgarleikhúsið, var hiklaust besta sýning haustsins og sannaði að klassíkin getur enn þá verið umdeild.

Inngilding og fjölbreytileiki
Stærsti hvellur haustsins kom þó strax í september utan leiksviðs. Þjóðleikhúsið stillti sænska söngleiknum Sem á himni, eftir hjónin Carin og Kay Pollak, upp sem einu af flaggskipum leikársins. En skipið beið skipbrot.
Óvæntur miðpunktur söngleiksins var aukapersónan Doddi, ungur maður með þroskafrávik, leikinn af ófötluðum leikara. Margir bentu réttilega á að Doddi væri barngerður og sviðsettur sem einfeldningur en ekki fullgild manneskja með baksögu og skoðanir.
Aftur á móti má halda því fram að allar persónurnar í þessum tiltekna söngleik hafi verið illa skrifaðar staðalímyndir. Birtingarmyndir og þátttaka minnihlutahópa eða jaðarsettra einstaklinga í leikhúsinu varð á einni nóttu stærsta mál þjóðarinnar. Umræðan var og er þörf en stundum á villigötum. Hér er ekki einungis verið að spyrja hver má leika hvern heldur hvernig.
Nú þarf að stíga varlega til jarðar. Samhliða verður einnig að skoða sögulegar forsendur jaðarsettra einstaklinga í sviðslistum sem hafa ekki fengið aðgang að valdastofnunum eða þurft að fela sig, til dæmis þegar kemur að kynhneigð. Aðgengi og jafnrétti eru grundvallarréttindamál en sýnileiki má ekki koma í veg fyrir að hægt sé að ræða gæði sýninga á málefnalegan máta.
Ein af áhugaverðustu sýningum haustsins var Eyja, samstarfssýning Leikhópsins O.N. og Þjóðleikhússins, sem var að hluta til á táknmáli. Hér var á ferðinni lifandi dæmi um mikilvægi inngildingar jaðarhópa og nýjar samskiptaleiðir en líka um málefnaleikhús þar sem skilaboðin trompa gæði að einhverju leyti enda handritið gallað.
Margt hefur blessunarlega breyst í íslensku samfélagi á síðastliðnum misserum en langt er í land og stefnubreytingar erfiðar. Stóru orðin mega ekki vera innantóm, að lofa öllu fögru en stuðla ekki að varanlegum breytingum.
Þess má geta að leikhúsið á Íslandi er enn þá skjannahvítt sem endurspeglar alls ekki samfélagsgerð landsins, hvað þá aðra hópa. Reisa verður varanlegt rými, bæði í atvinnuleikhúsunum og Listaháskóla Íslands, þar sem listafólk af öllum gerðum getur skapað list, mistekist og tekið framförum.

Sviðslistahátíðarveisla
Mikil gróska er í sviðslistahátíðarhaldi á landinu um þessar mundir. Reykjavík Fringe Festival og Act Alone styrkjast með árunum, Hvammstangi International Puppetry Festival, undir stjórn Gretu Clough, býður upp á brúðuleikhús á landsbyggðinni og RDF/Lókal færir áhorfendum alþjóðlegan framúrstefnubræðing á höfuðborgarsvæðinu.
Þessir frjóu akrar þurfa næringu. Á opnunarhátíð RDF/Lókal hélt einn af stjórnendum Lókal, Eva Rún Snorradóttir, stutta ræðu við tilefnið og skóf ekkert af hlutunum. Loforð ráðafólks um fjárstyrk höfðu ekki ræst og tölvupóstum var ósvarað. Þetta kemur ekkert á óvart, fjárframlög ríkisstjórnarinnar til sviðslista eru í algjörri óreiðu.
Launaskandall
Fyrir löngu er orðið ljóst að launa- og styrktarkerfi sviðslistafólks er ónýtt. Síðastliðin ár hefur verið hefð fyrir því að tilkynna laun listafólks í janúar en í ár var hluti þeirra, laun einstaklinga, opinberaður stuttu fyrir hátíðarnar. Einstaka sviðslistafólk fær samtals 58 mánuði skipt niður á tólf manneskjur, sjö konur og fimm karla. Erfiðara er að greina hvernig launin skiptast niður á leikskáld þar sem þau er að finna í mörgum flokkum; sviðslistafólks, sviðslistahópa og rithöfunda. Ruglingurinn er lýsandi fyrir ástandið á málaflokknum.
Tölurnar eru sláandi. Þessir tólf einstaklingar fengu samtals 58 mánuðum úthlutað. Launasjóður sviðslistafólks telur 190 mánuði. Þetta þýðir að sviðslistahópar fá 132 mánuði í sinn skerf en sóttu um 1.273 mánuði. Sem þýðir að um 10 prósent þeirra hópa sem sækja um fá úthlutun. Þetta eru skelfilegar tölur. Sérstaklega þegar horft er til þess að sjaldnast fá sviðslistahópar þá mánuði sem þeir þurfa heldur er nauðsynlegt að sækja í marga mismunandi sjóði og yfirleitt sætta sig við minna, lægri laun fyrir meiri vinnu. Ástandið er óásættanlegt.
Tekið var stórt og mikilvægt skref í rétta átt þegar Sviðslistamiðstöð Íslands var opnuð og hefur Friðrik Friðriksson lyft grettistaki þrátt fyrir takmörkuð fjárráð. Nú verður að hugsa stærra, læra af öðrum löndum og smíða kerfi sem stenst tímans tönn. Veita þarf laun í lengri tíma, fjölga úthlutunum (bæði mánuðum og fleiri úthlutunardagsetningum) og styrkja bæði sjálfstæða leikhópa og leikskáld almennilega.

Samband við umheiminn
Eitt af stærstu verkefnum Sviðslistamiðstöðvar er að kynna íslenskar sviðslistir erlendis. Nú þegar hafa leikhópar fengið styrk til að taka þátt í erlendum hátíðum. Samtímis virðast flóðgáttirnar hafa opnast á hinn veginn en töluvert er um þátttöku erlends sviðslistafólks á íslenska leikárinu.
Fyrrgreindar sviðslistahátíðir hafa verið einkar góður vettvangur fyrir erlent listafólk en stóru leikhúsin opnuðu líka sínar dyr. Þær stórfréttir bárust á árinu að þýska leikskáldið Marius von Mayenburg myndi heimsfrumsýna þríleik í Þjóðleikhúsinu. Þríleikurinn markar líka endurkomu ástralska leikstjórans Benedict Andrews sem eru frábærar fréttir enda hæfileikamaður.
Borgarleikhúsið fer aðeins aðrar leiðir en ekki síður spennandi. Stjórnendur afhentu ungum og upprennandi litáískum leikstjóra stjórnartaumana fyrir Macbeth. Ursule Barto er að stíga sín fyrstu skref en er nú þegar farin að vekja eftirtekt fyrir myndræna og pólitíska nálgun, bæði í Litáen og Þýskalandi, og forvitnilegt verður að sjá hvernig hún tæklar skoska kónginn.
Fyrir löngu er orðið ljóst að launa- og styrktarkerfi sviðslistafólks er ónýtt.
Stafrænar sviðslistir
Sviðslistir er að finna á fleiri stöðum en í leikhúsi. Bíó Paradís hefur haldið úti leiksýningum frá National Theatre í London en fyrr í haust mátti til dæmis sjá Ys og þys út af engu eftir William Shakespeare og Mávinn eftir Anton Tsjekov. Sambíóin eru í samstarfi við Metropolitan-óperuna í New York og dagskráin á nýju ári er glæsileg, blanda af klassík og nýjum óperum á borð við Lohengrin eftir Richard Wagner og The Hours eftir Kevin Puts.

Við sjóndeildarhringinn
Eftir fremur brösuglegt haust virðast bjartari tímar fram undan. Jólasýningar stóru leikhúsanna í höfuðborginni verða varla ólíkari. Ellen B. eftir Marius von Mayenburg í leikstjórn Benedict Andrews var frumsýnd á annan í jólum og Mátulegir eftir Thomas Vinterberg og Tobias Lindholm í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur verður frumsýnd á morgun, 30. desember. Hið fyrra er glænýtt leikrit lýst er sem martraðarkenndri viðureign þriggja einstaklinga og hið síðara saga um miðaldra karlmenn í leit að tilgangi með hjálp nokkurra prómilla, byggt á verðlaunakvikmyndinni Druk.
Eftir áramót halda áhugaverðar sýningar áfram að flæða fram. Þar ber hæst Ofsóknin og morðið á Jean Paul Marat sýnt af vistmönnum geðveikrahælisins í Charenton undir stjórn de Sade markgreifa, betur þekkt sem Marat/Sade eftir Peter Weiss í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Leikhópurinn er sannkallað goðsagnasafn sem telur Arnar Jónsson, Þórhildi Þorleifsdóttur og Kristbjörgu Kjeld.
Norðan heiða hitnar í kolunum. Söngleikurinn Chicago í leikstjórn Mörtu Nordal ratar í samkomuhúsið þar sem Jóhanna Guðrún Jónsdóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir leika Velmu og Roxý. Í Tjarnarbíó má síðan sjá Venus í feldi eftir David Ives, mjög áhugavert bandarískt leikskáld, í leikstjórn Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur.
Eins og sést er af nægu að taka á næsta ári og sviðslistaframboðið hefur sjaldan verið meira. Nú er lag að kaupa sér miða í leikhús og styðja þétt við bakið á listafólkinu okkar.
Eins og sést er af nægu að taka á næsta ári og sviðslistaframboðið hefur sjaldan verið meira. Nú er lag að kaupa sér miða í leikhús og styðja þétt við bakið á listafólkinu okkar.