Sjaldan hefur svið­lista­fram­boðið verið meira á landinu og lista­fólk komið til baka af krafti eftir tvö erfið heims­far­aldurs­ár. Stundum var þó meira fjör utan sviðs en á því.

Verkið Hamingjudagar sem frumsýnt var hjá Leikfélagi Akureyrar og síðar sýnt í Borgarleikhúsinu er sýning haustsins að mati gagnrýnanda.
Mynd/Aðsend

Há­punktar haustsins

Byrjum á því sem stóð upp úr á leik­sviðinu. Full­orðin byrjaði sína líf­daga á Akur­eyri og skemmti höfuð­borgar­búum ær­lega í Þjóð­leik­hús­kjallaranum. Sig­rún Edda Björns­dóttir var eftir­minni­leg í Á eigin vegum. Til­rauna­sýningin Hið ó­sagða eftir Sigurð Ámunda­son kom síðan eins og skrattinn úr sauðar­leggnum í Tjarnar­bíó í desem­ber­byrjun.

Hamingju­dagar, sem einnig voru frum­sýndir hjá Leik­fé­lagi Akur­eyrar og síðan færðir í Borgar­leik­húsið, var hik­laust besta sýning haustsins og sannaði að klassíkin getur enn þá verið um­deild.

Leikritið Hið ósagða eftir Sigurð Ámundason kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum í Tjarnarbíó í byrjun desember.
Mynd/Brian FitzGibbon

Inn­gilding og fjöl­breyti­leiki

Stærsti hvellur haustsins kom þó strax í septem­ber utan leik­sviðs. Þjóð­leik­húsið stillti sænska söng­leiknum Sem á himni, eftir hjónin Carin og Kay Pollak, upp sem einu af flagg­skipum leik­ársins. En skipið beið skip­brot.

Ó­væntur mið­punktur söng­leiksins var auka­per­sónan Doddi, ungur maður með þroskafrá­vik, leikinn af ó­fötluðum leikara. Margir bentu rétti­lega á að Doddi væri barn­gerður og svið­settur sem ein­feldningur en ekki full­gild manneskja með bak­sögu og skoðanir.

Aftur á móti má halda því fram að allar per­sónurnar í þessum til­tekna söng­leik hafi verið illa skrifaðar staðal­í­myndir. Birtingar­myndir og þátt­taka minni­hluta­hópa eða jaðar­settra ein­stak­linga í leik­húsinu varð á einni nóttu stærsta mál þjóðarinnar. Um­ræðan var og er þörf en stundum á villi­götum. Hér er ekki einungis verið að spyrja hver má leika hvern heldur hvernig.

Nú þarf að stíga var­lega til jarðar. Sam­hliða verður einnig að skoða sögu­legar for­sendur jaðar­settra ein­stak­linga í sviðs­listum sem hafa ekki fengið að­gang að valda­stofnunum eða þurft að fela sig, til dæmis þegar kemur að kyn­hneigð. Að­gengi og jafn­rétti eru grund­vallar­réttinda­mál en sýni­leiki má ekki koma í veg fyrir að hægt sé að ræða gæði sýninga á mál­efna­legan máta.

Ein af á­huga­verðustu sýningum haustsins var Eyja, sam­starfs­sýning Leik­hópsins O.N. og Þjóð­leik­hússins, sem var að hluta til á tákn­máli. Hér var á ferðinni lifandi dæmi um mikil­vægi inn­gildingar jaðar­hópa og nýjar sam­skipta­leiðir en líka um mál­efna­leik­hús þar sem skila­boðin trompa gæði að ein­hverju leyti enda hand­ritið gallað.

Margt hefur blessunar­lega breyst í ís­lensku sam­fé­lagi á síðast­liðnum misserum en langt er í land og stefnu­breytingar erfiðar. Stóru orðin mega ekki vera innan­tóm, að lofa öllu fögru en stuðla ekki að varan­legum breytingum.

Þess má geta að leik­húsið á Ís­landi er enn þá skjanna­hvítt sem endur­speglar alls ekki sam­fé­lags­gerð landsins, hvað þá aðra hópa. Reisa verður varan­legt rými, bæði í at­vinnu­leik­húsunum og Lista­há­skóla Ís­lands, þar sem lista­fólk af öllum gerðum getur skapað list, mis­tekist og tekið fram­förum.

Sýningin Hannah Felicia eftir danshöfundinn Láru Stefánsdóttur var sýnd á Reykjavík Dance Festival í haust.
Mynd/Owen Fiene

Sviðs­lista­há­tíðar­veisla

Mikil gróska er í sviðs­lista­há­tíðar­haldi á landinu um þessar mundir. Reykja­vík Fringe Festi­val og Act Alone styrkjast með árunum, Hvamms­tangi International Pupp­­etry Festi­val, undir stjórn Gretu Clough, býður upp á brúðu­leik­hús á lands­byggðinni og RDF/Lókal færir á­horf­endum al­þjóð­legan fram­úr­stefnu­bræðing á höfuð­borgar­svæðinu.

Þessir frjóu akrar þurfa næringu. Á opnunar­há­tíð RDF/Lókal hélt einn af stjórn­endum Lókal, Eva Rún Snorra­dóttir, stutta ræðu við til­efnið og skóf ekkert af hlutunum. Lof­orð ráða­fólks um fjár­styrk höfðu ekki ræst og tölvu­póstum var ó­svarað. Þetta kemur ekkert á ó­vart, fjár­fram­lög ríkis­stjórnarinnar til sviðs­lista eru í al­gjörri ó­reiðu.

Launaskandall

Fyrir löngu er orðið ljóst að launa- og styrktar­kerfi sviðs­lista­fólks er ó­nýtt. Síðast­liðin ár hefur verið hefð fyrir því að til­kynna laun lista­fólks í janúar en í ár var hluti þeirra, laun ein­stak­linga, opin­beraður stuttu fyrir há­tíðarnar. Ein­staka sviðs­lista­fólk fær sam­tals 58 mánuði skipt niður á tólf mann­eskjur, sjö konur og fimm karla. Erfiðara er að greina hvernig launin skiptast niður á leik­skáld þar sem þau er að finna í mörgum flokkum; sviðs­lista­fólks, sviðs­lista­hópa og rit­höfunda. Ruglingurinn er lýsandi fyrir á­standið á mála­flokknum.

Tölurnar eru sláandi. Þessir tólf ein­staklingar fengu sam­tals 58 mánuðum út­hlutað. Launa­sjóður sviðs­lista­fólks telur 190 mánuði. Þetta þýðir að sviðs­lista­hópar fá 132 mánuði í sinn skerf en sóttu um 1.273 mánuði. Sem þýðir að um 10 prósent þeirra hópa sem sækja um fá út­hlutun. Þetta eru skelfi­legar tölur. Sér­stak­lega þegar horft er til þess að sjaldnast fá sviðs­lista­hópar þá mánuði sem þeir þurfa heldur er nauð­syn­legt að sækja í marga mis­munandi sjóði og yfir­leitt sætta sig við minna, lægri laun fyrir meiri vinnu. Á­standið er ó­á­sættan­legt.

Tekið var stórt og mikil­vægt skref í rétta átt þegar Sviðs­lista­mið­stöð Ís­lands var opnuð og hefur Frið­rik Frið­riks­son lyft grettis­taki þrátt fyrir tak­mörkuð fjár­ráð. Nú verður að hugsa stærra, læra af öðrum löndum og smíða kerfi sem stenst tímans tönn. Veita þarf laun í lengri tíma, fjölga út­hlutunum (bæði mánuðum og fleiri út­hlutunar­dag­setningum) og styrkja bæði sjálf­stæða leik­hópa og leik­skáld al­menni­lega.

Leikritið Ellen B. eftir þýska leikskáldið Marius von Mayenburg var heimsfrumsýnt í Þjóðleikhúsinu á dögunum.
Mynd/Aðsend

Sam­band við um­heiminn

Eitt af stærstu verk­efnum Sviðs­lista­mið­stöðvar er að kynna ís­lenskar sviðs­listir er­lendis. Nú þegar hafa leik­hópar fengið styrk til að taka þátt í er­lendum há­tíðum. Sam­tímis virðast flóð­gáttirnar hafa opnast á hinn veginn en tölu­vert er um þátt­töku er­lends sviðs­lista­fólks á ís­lenska leik­árinu.

Fyrr­greindar sviðs­lista­há­tíðir hafa verið einkar góður vett­vangur fyrir er­lent lista­fólk en stóru leik­húsin opnuðu líka sínar dyr. Þær stór­fréttir bárust á árinu að þýska leik­skáldið Marius von Mayen­burg myndi heims­frum­sýna þrí­leik í Þjóð­leik­húsinu. Þrí­leikurinn markar líka endur­komu ástralska leik­stjórans Bene­dict Andrews sem eru frá­bærar fréttir enda hæfi­leika­maður.

Borgar­leik­húsið fer að­eins aðrar leiðir en ekki síður spennandi. Stjórn­endur af­hentu ungum og upp­rennandi litáískum leik­stjóra stjórnar­taumana fyrir Macbeth. Ur­su­le Bar­to er að stíga sín fyrstu skref en er nú þegar farin að vekja eftir­tekt fyrir mynd­ræna og pólitíska nálgun, bæði í Litáen og Þýska­landi, og for­vitni­legt verður að sjá hvernig hún tæklar skoska kónginn.

Fyrir löngu er orðið ljóst að launa- og styrktar­kerfi sviðs­lista­fólks er ó­nýtt.

Staf­rænar sviðs­listir

Sviðs­listir er að finna á fleiri stöðum en í leik­húsi. Bíó Para­dís hefur haldið úti leik­sýningum frá National Theat­re í London en fyrr í haust mátti til dæmis sjá Ys og þys út af engu eftir Willi­am Shakespeare og Mávinn eftir Anton Tsjekov. Sam­bíóin eru í sam­starfi við Metropol­itan-óperuna í New York og dag­skráin á nýju ári er glæsi­leg, blanda af klassík og nýjum óperum á borð við Lohengrin eftir Richard Wagner og The Hours eftir Kevin Puts.

Mátulegir eftir Thomas Vin­ter­berg og Tobias Lind­holm í leik­stjórn Bryn­hildar Guð­jóns­dóttur verður frum­sýnt í Borgarleikhúsinu 30. desember.
Mynd/Borgarleikhúsið

Við sjón­deildar­hringinn

Eftir fremur brösug­legt haust virðast bjartari tímar fram undan. Jóla­sýningar stóru leik­húsanna í höfuð­borginni verða varla ó­líkari. Ellen B. eftir Marius von Mayen­burg í leik­stjórn Bene­dict Andrews var frum­sýnd á annan í jólum og Mátu­legir eftir Thomas Vin­ter­berg og Tobias Lind­holm í leik­stjórn Bryn­hildar Guð­jóns­dóttur verður frum­sýnd á morgun, 30. desember. Hið fyrra er glæ­nýtt leik­rit lýst er sem mar­traðar­kenndri viður­eign þriggja ein­stak­linga og hið síðara saga um mið­aldra karl­menn í leit að til­gangi með hjálp nokkurra prómilla, byggt á verð­launa­kvik­myndinni Druk.

Eftir ára­mót halda á­huga­verðar sýningar á­fram að flæða fram. Þar ber hæst Of­sóknin og morðið á Jean Paul Marat sýnt af vist­mönnum geð­veikra­hælisins í Charenton undir stjórn de Sade mark­greifa, betur þekkt sem Marat/Sade eftir Peter Weiss í leik­stjórn Rúnars Guð­brands­sonar. Leik­hópurinn er sann­kallað goð­sagna­safn sem telur Arnar Jóns­son, Þór­hildi Þor­leifs­dóttur og Krist­björgu Kjeld.

Norðan heiða hitnar í kolunum. Söng­leikurinn Chi­cago í leik­stjórn Mörtu Nor­dal ratar í sam­komu­húsið þar sem Jóhanna Guð­rún Jóns­dóttir og Þór­dís Björk Þor­finns­dóttir leika Velmu og Roxý. Í Tjarnar­bíó má síðan sjá Venus í feldi eftir David Ives, mjög á­huga­vert banda­rískt leik­skáld, í leik­stjórn Eddu Bjargar Eyjólfs­dóttur.

Eins og sést er af nægu að taka á næsta ári og sviðs­lista­fram­boðið hefur sjaldan verið meira. Nú er lag að kaupa sér miða í leik­hús og styðja þétt við bakið á lista­fólkinu okkar.

Eins og sést er af nægu að taka á næsta ári og sviðs­lista­fram­boðið hefur sjaldan verið meira. Nú er lag að kaupa sér miða í leik­hús og styðja þétt við bakið á lista­fólkinu okkar.