Pólska leikkonan Olga Boladz sótti Ísland heim öðru sinni til þess að vera viðstödd frumsýningu pólsk-íslensku spennumyndarinnar Wolka, sem því miður varð hinsta verk leikstjórans Árna Ólafs Ásgeirssonar sem lést fyrr á þessu ári eftir snarpa baráttu við krabbamein.

Árni Ólafur lærði kvikmyndagerð í Póllandi þar sem hann var jafnan með annan fótinn og þar hófst náin vinátta hans og Olgu, þegar þau þróuðu söguna að baki myndinni um árabil áður en tökur hófust loks á Íslandi.

Ísland opnar hugann

„Ég hafði engin tengsl við Ísland fyrr en Árni Ólafur fann mig, hringdi og sagðist vera með hugmynd sem ég gæti haft áhuga á,“ segir Olga. „Við hittumst og ég las þetta hjá honum og féll alveg fyrir persónunni og hlutverkinu. Síðan beið ég spennt í mörg ár eftir að komast til Íslands og gera myndina.

„Ég kolféll fyrir Íslandi. Ég elska andrúmsloftið hérna og umburðarlyndið. Veðrið og landslagið eru síðan auðvitað þannig að þér líður eins og þú sért komin inn í allt annan heim. Allt öðruvísi en þegar maður er fastur í vinnu í Varsjá.“


Einstakur maður

„Ég á marga vini hérna og Árni Ólafur, sem er nýdáinn, var einn besti vinur minn,“ segir Olga og bætir við að Árni Ólafur hafi verið einstakur maður. „Ég er svo þakklát fyrir að við gátum gert þessa mynd saman eftir að hafa ætlað okkur það í mörg ár.

„Ég elska hann vegna þess að við urðum svo náin þegar við byrjuðum hugmyndavinnuna fyrir myndina. Þá hittumst við á börum í Varsjá þar sem við vorum alltaf að tala um hvað við ætluðum að gera. Hvernig Wolka ætti að vera og hvaða nálgun ég tæki á persónuna. Þannig að þetta voru fjögur ár þar sem við vorum úti að borða. Bjór og samræður, þannig að við þekktumst mjög vel þegar við byrjuðum loksins á myndinni og vorum þá svo tilbúin í þetta.“
Olga segir Árna Óla hafa verið sérlega þægilegan leikstjóra sem hafi gefið henni fá fyrirmæli en þeim mun meiri hvatningu. „Traustið milli okkar var svo mikið og sterkt eftir allan þennan tíma sem við höfðum talað um myndina. Hann var mjög nærgætinn og ljúfur. Ég hefði sem leikkona vaðið eld fyrir hann.“

Sammannleg saga

Wolka gerist á Íslandi en leikararnir eru flestir pólskir. Olga segist þó ekki líta á myndina sem pólsk-íslenska. „Þegar ég las handritið fannst mér þetta vera goðsögn. Forn saga um örlög manneskjunnar og hvaða stefnu hún tekur í lífinu. Þú getur reynt að flýja eða fela þig en örlögin ná þér alltaf,“ segir Olga og bætir við að Anna, sem hún leikur, sé einmitt í þessum gamalkunnu aðstæðum.

Olga naut sín við tökurnar á Íslandi og kolféll fyrir landi og þjóð.
Mynd/Aðsend

„Hún gerir mjög slæma hluti og þegar upp er staðið horfist hún í augu við það sem hún hefur gert. Þannig að fyrir mér er þetta ævaforn saga, eins og goðsögn, þannig að allir eiga að geta skilið Önnu og hver hún er,“ segir Olga.

„Ég sá eina af fyrri myndum Árna, Brim, á íslensku í bíó og mér finnst ekki skipta máli hvort maður kunni tungumálið eða ekki. Þú getur skynjað söguna vegna þess að kvikmynd er góð ef hún snertir við tilfinningum þínum. Og Wolka kemur við tilfinningar þar sem Anna reynir að öðlast frelsi og fá að vera manneskja.“

Sama kaldhæðnin

Olga er þess fullviss að Pólverjar á Íslandi muni kunna vel að meta myndina og segir aðspurð að margar hliðstæður megi finna með Pólverjum og Íslendingum og hún fái ekki betur séð en að löndum hennar, sem hafi sest hér að, líði mjög vel.

Íslandsferð Önnu reynist afdrifarík.
Mynd/Aðsend

„Þetta voru tveir hópar sem unnu að gerð Wolku, Íslendingar annars vegar og Pólverjar hins vegar. Við unnum náið saman alla daga og vorum alltaf saman í þessum þrönga hópi út af Covid, þannig að við dönsuðum líka saman, hlógum og vorum í partíum. Við skemmtum okkur vel saman og höldum enn sambandi í gegnum Facebook.“

Olga bætir við að Íslendingar og Pólverjar eigi það meðal annars sameiginlegt að telja ekki eftir sér að vinna mikið við erfiðar aðstæður. „Við kvörtum ekki mikið og erum með sömu kaldhæðnina og getum hlegið að sömu bröndurunum.“

Olga segir íslenska umburðarlyndið heilla hana sérstaklega. „Ég veit ekki hvað hefur gerst á síðustu sjö til átta árum, þar sem pólska íhaldsstjórnin hefur klofið þjóðina. Mér finnst víðsýni ykkar það besta við Ísland. Hér er svo sjálfsagt að manneskjur megi vera þær sem þær eru,“ segir Olga og nefnir sérstaklega kynfrelsi og kvenréttindi.

Síðasta mynd Árna Ólafs

Spennumyndin Wolka er síðasta kvikmynd leikstjórans ástsæla Árna Ólafs Ásgeirssonar sem var aðeins 49 ára þegar hann lést fyrr á þessu ári eftir skammvinn veikindi.

Wolka er síðasta kvikmyndi Árna Ólafs.
Fréttablaðið/Ernir

Árni lærði kvikmyndagerð við hinn virta Łódź-skóla í Póllandi. Blóðbönd og Brim eru meðal þeirra fjögurra mynda í fullri lengd sem hann leikstýrði á ferlinum, en Wolka er fyrsta leikna íslenska kvikmyndin sem veitir innsýn í pólskt samfélag á Íslandi.

Wolka var frumsýnd á Icelandic Panorama í tengslum við RIFF, en fer í almennar sýningar í Sambíónum, Bíó Paradís og Eyjabíói á föstudaginn.

Wolka

Þegar Anna fer á reynslulausn eftir fimmtán ár í fangelsi í Póllandi hefur hún aðeins eitt takmark. Að finna konu að nafni Dorota. Hún er við það að gefast upp á leitinni þegar hún kemst að því, sér til mikilla vonbrigða, að Dorota flutti til Íslands nokkrum árum áður.

Anna kastar öllu frá sér og ferðast til Íslands á fölsku vegabréfi, vitandi það að hún gæti verið að fórna frelsinu með því að taka áhættuna og rjúfa skilorð.
Mynd/Aðsend

Anna kastar öllu frá sér og ferðast til Íslands á fölsku vegabréfi, vitandi það að hún gæti verið að fórna frelsinu með því að taka áhættuna og rjúfa skilorð.