Síðastliðin þrjú leikár hafa verið þrautaganga, smitbylgjurnar skella á þjóðinni með reglulegu millibili og núna erum við í auga stormsins. Sviðslistafólk berst í bökkum, í óteljandi vandamálum, sem má rekja til Covid en einnig sinnuleysis ráðafólks, bæði í borgar- og ríkisstjórn, þegar kemur að fjárveitingum til málaflokksins.

Í júlí var Reykjavík Fringe Festival haldin í fjórða sinn og stækkar ár hvert. Ekki farnaðist Act Alone jafn vel. Henni þurfti að fresta aftur vegna samkomutakmarkana, en hátíðin fékk nýlega styrk til næsta árs og leikhúsunnendur eru hvattir til að ferðast vestur á Suðureyri. Í haustbyrjun leit út fyrir að leikárið færi fram með tiltölulega eðlilegum hætti. Síðan hefur verið sett á 20 manna samkomubann og takmarkað við 200 manns á viðburðum. Óljóst er hvort leikhúsin skelli aftur í lás, en 200 er alltof lítill fjöldi til að hægt sé að halda úti stórum sýningum.

Takmarkanirnar hafa sett stórt strik í reikninginn innan sviðslistanna síðastliðin tvö ár, en hraðprófin og grímuskyldan gera leikhúsum kleift að hafa opið, en álagið er mikið. Fjármál sjálfstæðu leikhópanna eru ennþá óskrifað blað og ekki eru öll kurl komin til grafar. Augljóst er að alltof margir sjálfstæðir leikhópar og listafólk urðu fyrir ómældum skaða í faraldrinum.

Ekki skánar ástandið með nýjum fjárlögum en þar eru framlög til sjálfstæðra leikhópa lækkuð úr 137 milljónum í 94,5. Þetta er algjör skandall og illa farið með þann hóp sem fór einna verst út úr faraldrinum. Ástæðan virðist vera sú að aukafjárveiting ríkisstjórnarinnar vegna Covid var dregin til baka, en alþjóð veit að hún dugði skammt, var mörgum óaðgengileg og skömm er að því að viðkvæmasti hópurinn þurfi enn þá að berjast fyrir mannsæmandi launum. Launasjóður listamanna er einnig skorinn niður, úr 905 milljónum í 786, en sviðslistafólk hefur löngum kvartað yfir ójafnvægi í úthlutun nefnda á milli listgreina.

Hvað verður um sýningar?

Tjarnarbíó hefur reitt sig á uppistand og aðrar sýningar sem skila peningum í kassann. Dansverkið Neind thing eftir Ingu Huld Hákonardóttur var ein af eftirminnilegustu sýningum haustsins. Djörf og skemmtileg danssýning um eymd tilverunnar. Þó grunar höfund að alltof fáir hafi gert sér ferð til að sjá.

Grasrótin dafnar innan Reykjavík Dance Festival og Lókal, en stóru leikhúsin eru farin að sinna henni betur með aukinni starfsemi. Hópurinn Slembilukka spratt fram úr þessum jarðvegi innan Borgarleikhússins, sýning þeirra Á vísum stað, er algjörlega óborganleg. Sömuleiðis var gamanóperan Ástardrykkurinn í boði sviðslistahópsins Ópur hressandi í Þjóðleikhúskjallaranum, sem hefur fengið endurnýjun lífdaga. Þetta er hin fínasta framför, en nauðsynlegt er að varpa fram spurningunni: Hversu mikið aðhald fær viðkomandi listafólk innanhúss? Oft hafa samstarfssýningar liðið fyrir að vera olnbogabörn stóru leikhúsanna og vonandi endurtekur sagan sig ekki.

Í desemberbyrjun frestaði Þjóðleikhúsið Framúrskarandi vinkonu, leikriti sem byggt er á vinsælum bókum Elenu Ferrante í leikstjórn Yael Farber enn og aftur, en sýningin átti að vera jólasýning hússins. Borgarleikhúsið sló sína hátíðarsýningu alveg út af borðinu. Má segja að báðar sýningar séu faraldursfórnarlömb en hvor á sinn máta. Borgarleikhúsið hafði hreinlega ekki fjárhagslegt bolmagn til að sviðsetja stóra sýningu, en treystir á að Emil í Kattholti og Bubbi dragi skipið í land, enda hafa báðar sýningarnar reynst vinsælar.

Þjóðleikhúsið vitnaði í hert samkomubann og Þjóðleikhússtjóri sagði að leikhúsið vildi sýna Framúrskarandi vinkonu undir kringumstæðum þar sem hægt er að bjóða gestum upp á veitingar í hléum. Hvað verður um sýninguna núna? Vonandi hefur tilfærslan ekki teljandi áhrif á aðrar sýningar í húsinu, enda er slíkt hvimleitt fyrir bæði starfsfólk og áhorfendur. Verður þetta til þess að sýningar af þessari stærðargráðu heyri brátt sögunni til?

Góðu fréttirnar

Góðu fréttirnar eru þó að Sviðslistamiðstöð Íslands hefur loksins verið opnuð. Nefnd er nú starfandi til að gangsetja stofnunina og auglýst var eftir framkvæmdastjóra í síðasta mánuði. Spennandi verður að sjá hver verður fyrir valinu. Sömuleiðis var ráðinn sérfræðingur við Leikminjasafnið, sem er til húsa í Landsbókasafni Íslands – háskólabókasafni. Til að gæta gagnsæis verður að nefna þá staðreynd að höfundur þessa pistils er viðkomandi starfsmaður. Með hverjum mánuði kemur betur og betur í ljós mikilvægi þess að varðveita og miðla þessari einstöku menningararfleifð.

Árið 2022 byrjar vonandi með látum, en fyrsta frumsýning ársins boðar komu Caryl Churchill. Loksins! Leikhúsgestir fá ekki bara tækifæri til að upplifa eitt leikrita hennar, heldur tvö. Ein komst undan í Borgarleikhúsinu skartar okkar reyndustu leikkonum og einum besta leikstjóra landsins, Kristínu Jóhannesdóttur. Seinna í vor verður Ást og upplýsingar sviðsett í Þjóðleikhúsinu, í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur, sem hefur verið á miklu flugi síðastliðin misseri.

Una Þorleifsdóttir leikstýrir í Þjóðleikhúsinu leikritinu Ást og upplýsingar.
Fréttablaðið/Vilhelm

Ný íslensk leikrit fá líka blessunarlega pláss fyrstu mánuði ársins. Blóðuga kanínan eftir Elísabetu Jökulsdóttur mætir á svið í Tjarnarbíói. Einnig mun Þjóðleikhúsið sviðsetja í fyrsta sinn leikverk eftir Tyrfing Tyrfingsson, en Sjö ævintýrum um skömm, í leikstjórn Stefáns Jónssonar er búið að fresta ítrekað. Klassíkin fær líka sitt pláss fyrir norðan, en Leikfélag Akureyrar mun sviðsetja Skugga-Svein í janúar.

Blóðuga kanínan, leikrit eftir Elísabetu Jökulsdóttur, verður sýnt í Tjarnarbíói.

Eftir erfiðustu leikár í manna minnum er þrautagöngunni ekki lokið. En ekki er öll nótt úti enn. Sviðslistir hafa verið afskrifaðar með reglulegu millibili í gegnum söguna en blómstra ætíð á nýjan leik. Ástæðan er fólkið á bak við tjöldin og á sviðinu, baráttu- og hugsjónafólk sem ber að fagna og styðja. Leikhúsið gefur okkur innsýn í heima sem annars væru áhorfendum ekki endilega aðgengilegir, stytta okkur stundir og gefa tækifæri til að nærast andlega í hópi fólks. Hvað er mikilvægara á þessum síðustu og verstu tímum?