Ólafur Kjartan býr í skógar­kofa utan við borgina Bayreuth í Þýska­landi, á­samt konu sinni. Í byrjun heyrist ómur af rödd hans í símanum - en hringir til baka. „Ég er í hálf­gerðri eyði­mörk þegar kemur að net­sam­bandi en veit um nokkra punkta og er kominn í einn,“ segir hann glað­lega.

Hin vel­þekkta Wagner­há­tíð í Bayreuth hefur verið söng­vett­vangur Ólafs Kjartans síðustu vikur þar fer hann með hlut­verk Biterolfs í Tannhäuser. „Við sem erum á sviðinu mættum hér 1. júní. – Ég er líka við æfingar á nýrri upp­færslu á Niflunga­hringnum, var til dæmis að æfa Ragna­rök í morgun fyrir Hringinn næsta sumar sem ég mun líka syngja 2023, ef allt fer sam­kvæmt á­ætlun. Þetta er þriggja mánaða út­hald, ég get pakkað saman og farið heim síðasta dag ágúst, það sama verður uppi á teningnum tvö næstu sumur og kannski lengur – hver veit.“

Allir í prufur dag­lega

Ólafur Kjartan segir allt tak­mörkunum háð á há­tíðinni þetta árið vegna Co­vid. „Það er gríðar­legur fjöldi sem kemur að há­tíðinni, tvær hljóm­sveitir, tveir kórar og ara­grúi af sólóistum, fyrir utan fólkið sem sér um upp­setningu, tækni-og fræðslu­mál. Allir þurfa að fara í prufur dag­lega. Á­horf­enda­fjöldinn er skorinn niður um rúm­lega helming, miðað við fullt hús, nú mega vera 900 gestir á hverri sýningu, allir með grímur, bólu­setningar­vott­orð og ný test. Við þátt­tak­endur erum þakk­látir fyrir þessa fyrir­höfn því við fáum að hafa vinnu.“

Ólafur Kjartan Í hlut­verki Biterolf í Tannhäuser.
Mynd/Aðsend

Vel ættaður stjórnandi

Bayreuth há­tíðin er ein af elstu óperu­há­tíðum heims. Hún hefur verið við lýði í vel á annað hundrað ár og er ein­göngu til­einkuð óperum Richards Wagner, enda reisti hann sjálfur óperu­húsið utan um sín verk­efni, að sögn Ólafs Kjartans. „Þetta er gríðar­lega fal­legt hús og það er ein­stakt hvernig Wagner lét hanna það til að stýra hljóm­burðinum. Núna er því stjórnað af Kat­harinu Wagner, af­komanda hans og Franz Liszt. Þegar maður vinnur með henni skreppur tón­listar­sagan saman, manni finnst allt hafa gerst í gær!“

Miklir bið­listar eru jafnan eftir miðum á há­tíðina, sumir bíða í mörg ár, að sögn Ólafs Kjartans. „Hingað kemur fólk úr öllum hornum heims, bæði hlust­endur og flytj­endur. Þetta er stórt í sniðum og mikið appa­rat sem er magnað að taka þátt í. Margir leigja út húsin sín hér yfir sumarið, því fjöl­skyldur reyna að gera úr þessu sumar­frí í leiðinni. Við hjónin leigðum skógar­kofa og höfum það fínt!“

Fjöl­skyldan á frum­sýngu: Sigurður Rúnar Jóns­son, Ás­gerður Ólafs­dóttir, Sigur­björg Braga­dóttir og Brynja Ólafs­dóttir.
Mynd/Aðsend

Svo­lítið flökku­líf

Kona Ólafs Kjartans er Sigur­björg Braga­dóttir, sjálf­stætt starfandi kjóla­klæð­skeri. Þau eiga heimili í Ber­lín en bjuggu lengi í Saar­brücken í Þýska­landi, þar sem Ólafur Kjartan var fast­ráðinn í mörg ár. „Fjöl­skyldan tíndist til mín þangað í bútum. Tvö eldri börnin og öll barna­börnin eru komin til Reykja­víkur aftur en yngri dóttirin er hjá okkur í Ber­lín. Þetta hefur verið svo­lítið flökku­líf, það til­heyrir þessu fagi. Það er annað hvort fast­ráðning eða lausa­mennska, eða „frílans“ sem er fína orðið yfir at­vinnu­leysi. Núna gengur vel og ég hef svo sem haft nóg að gera en var lengi að koma mér upp í þann flokk sem ég stefndi að, sem er sá sem ég starfa í í dag. Þegar óperu­bransinn lifnar aftur er út­litið bjart hjá mér. Ég mun syngja hlut­verkið Wotan (Óðinn) í Val­kyrju eftir Wagner á Lista­há­tíð í Hörpu í febrúar 2022, það er verk­efnið sem ég hlakka hvað mest til á komandi starfs­ári,“ segir söngvarinn.

Miða­kaup krefjast fyrir­hyggju

Að sjálf­sögðu fóru nokkrir Ís­lendingar á há­tíðina í ár að fylgjast með okkar manni. „Það var mjög á­nægju­legt að á minni frum­sýningu var Selma Guð­munds­dóttir, for­maður Wagn­er­fé­lagsins, mætt og Gunnar Snorri Gunnars­son sendi­herra og svo slangur af minni fjöl­skyldu,“ segir stór­söngvarinn. „Ég er líka búinn að hlera að það ætli ein­hver hópur að mæta á frum­sýningu Hringsins næsta sumar. Slíkt þarf að skipu­leggja með árs fyrir­vara en í Wagn­er­fé­laginu er þekking og reynsla og þangað ætti fólk að snúa sér til að fá ráð­leggingar, ef á­hugi er á miðum.“