Ólafur Egill Egilsson er nú að leggja lokahönd á leikrit sem byggir á höfundarverki og ævi listakonunnar Ástu Sigurðardóttur (1930-1971). Ásta var lifandi goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðbik síðustu aldar. Myndverk hennar, sögur, greinar og ljóð vöktu aðdáun og hneykslun, og oft urðu skilin á milli lífs hennar og höfundarverks óljós. Ólafur Egill gekk til liðs við Þjóðleikhúsið nú í vor og er hluti af nýju fastráðnu teymi listrænna stjórnenda við leikhúsið. Ásta er fyrsta verkið sem Ólafur Egill vinnur eftir að hann tók við nýrri stöðu í leikhúsinu. Fyrirhugað er að frumsýna verkið í Kassanum snemma á næsta ári.

Í þessu nýja verki bregður Ólafur upp svipmyndum af Ástu og skáldskap hennar. Fléttað er saman sögum Ástu af lítilmagnanum, utangarðsmönnum og konum í átökum við umhverfi sitt og öfgafullu lífi listakonunnar sjálfrar. Sigríður Thorlacius söngkona og hljómsveit Guðmundar Óskars Guðmundssonar færa ljóð Ástu í tónlistarbúning og endurspegla tíðarandann í gegnum tónlist tímabilsins.

Ólafur Egill Egilsson fjallar um verk og ævi Ástu. Fréttablaðið/Valli