Bresku spennuþættirnir The Tourist hófu göngu sína á BBC á nýársdag og allir þættirnir sex skiluðu sér síðan í streymi á BBC iPlayer, þar sem þeir fengu strax 18 milljón áhorf, sem kom þeim í 3. sæti yfir vinsælasta efni veitunnar.

Ólafur Darri Ólafsson kemur sterkur inn í þáttunum sem leigumorðinginn Billy Nixon og þannig segir Entertainment Daily hann „klárlega vera eitthvert mest ógnvekjandi illmenni“ sjónvarpssögunnar í seinni tíð.

Þá mælti kvikmyndakonan Sigríður Pétursdóttir eindregið með þáttunum á Facebook nýlega, þar sem hún sagði meðal annars að þegar nokkuð er liðið á fyrsta þáttinn birtist Ólafur Darri í „einu allra skemmtilegasta hlutverki sem ég nokkurn tímann séð hann í“ og eru þau þó orðin allnokkur.

„Hinn svakalegi Billy er í meðförum Ólafs Darra eins og besti Coen karakter, stórhættulegur og bráðfyndinn í senn.“

Jamie Dornan er í aðalhlutverki The Tourist og leikur Breta sem vaknar minnislaus á spítala, þar sem kúrekinn dularfulli Billy Nixon heilsar upp á hann. Sá minnislausi veit hvorki hver hann er né hverjum hann getur treyst, en áttar sig fljótt á því að einhver eða einhverjir vilja hann feigan.

Sögunni vindur síðan fram í óbyggðum Ástralíu, þar sem Ólafur Darri var við tökur í þrjá mánuði á fyrri hluta síðasta árs.

Ólafur Darri segir það sjaldnast boða gott að rekast á Billy Nixon sem hann leikur í The Tourist.
Mynd/BBC

Skömmu fyrir frumsýningu þáttanna var hann í viðtali við Memorable­tv.com, beðinn að lýsa persónu sinni í fimm orðum sem voru: ógnvekjandi, óþægilegur, illgjarn og móðurlaust barn.

„Billy er ekki næs gaur,“ heldur Ólafur Darri áfram og segir persónuna koma snemma inn í söguna og vera mjög dularfulla framan af. „Seinna meir fáum við að kynnast honum og komast að meiru um hann og hvernig hann hlykkjast sem snákur í gegnum söguna.“

Aðspurður segir Ólafur Darri persónuna vera þess eðlis að hvaða leikari sem er myndi sleikja út um. „Þetta er eitt af þessum hlutverkum sem þú vilt bara taka. Þetta er búið að vera spennandi.“

Ólafur Darri telur víst að Billy sé narsissisti og sennilega síkópati líka. „En það er mjög gaman að leika slíka,“ sagði hann við MemorableTV.

„Ég vildi að öllum þætti alltaf óþægilegt að vera með honum í herbergi,” sagði hann einnig. „Við skulum bara segja að engin hinna persónanna myndi vilja hitta hann. Það boðar venjulega ekkert gott ef þú rekst á Billy.”