Tónlistarverðlaun menningartímaritsins Reykjavík Grapevine verða afhent á skemmtistaðnum Húrra í kvöld. Upplýst var um niðurstöður dómnefndar í nýútkomu blaði en Valur Grettisson ritstjóri segir að nú sé komið að því að afhenda verðlaunin með góðu partíi og uppskeruhátíð tónlistarfólksins.

„Það er eiginlega með ólíkindum að það hafi ekki orðið blóðbað hjá dómnefndinni í ljósi þess úr hversu miklu af góðri tónlist var að velja á síðasta ári,“ segir Valur í samtali við Fréttablaðið.

„En við erum sátt við niðurstöðuna enda er Ólafur Arnalds þriðji stærsti alþjóðlegi tónlistamaðurinn á Íslandi sé miðað við spilanir á Spotify, og er þannig stærri en bæði Björk og Sigur Rós,“ segir Valur og bætir við að „hörkubönd muni taka lagið“ á Húrra í kvöld.

„Þar á meðal gulldrengirnir sjálfir, JóiPé og Króli. Það er auðvitað frítt inn og allir velkomnir svo lengi sem þeir hafa aldur til,“ segir Valur en gleðin hefst klukkan 20.

Prins Póló á lag ársins, Líf Ertu Að Grínast, en hann mun jafnframt koma fram á hátíðinni. Þá vekur athygli að nýliðinn GDRN hreppti verðlaunin fyrir plötu ársins en hún hefur gert stormandi lukku undanfarið. Þá sigruðu JóiPé og Króli vinsældakosningu blaðsins.

Ástralski uppistandararinn Jonathan Duffy verður kynnir kvöldsins en hann hefur gert garðinn frægan í hlaðvarpinu Icetralia ásamt Hugleiki Dagssyni.

Þetta er í sjöunda skiptið sem Reykjavík Grapevine afhendir tónlistarverðlaun sín en sigurvegarar eru eftirfarandi:

Tónlistarmaður ársins: Ólafur Arnalds

Plata ársins: GDRN

Lag ársins: Prins Póló: Líf Ertu Ekki Að Grínast

Myndband ársins: Ayia - Slow

Besti lifandi flutningur ársins: bagdad brothers

Það sem þið ættuð að hafa heyrt: TSS - Moods

Nýliðar ársins: Gróa

Hvatningarverðlaun: Háskar og R6013

Dómnefnd skipuðu: John Rogers, Reykjavík Grapevine, Anna Ásthildur, Iceland Airwaves, Anna Gyða Sigurgísladóttir, dagskrágerðarkona á RÚV, Kevin Cole, KEXP, Alexander Jean De Fontenay, blaðamaður og plötusnúður og Steinar Fjeldsted, ritstjóri Albumm.is.