Kvikmyndir

Billie Eilish:The World's a Little Blurry

★★★★

Leikstjórn: R.J. Cutler

Aðalhlutverk: Billie Eilish, Finneas O'Connell, Maggie Baird, Patrick O'Connell

Billie Eilish verður tvítug í desember. Hún var sautján ára þegar fyrsta platan hennar When We Fall Asleep, Where Do We Go? sló í gegn með slíkum ósköpum að vinsældir hennar og velgengni í kjölfarið stappa nærri sturlun.

Oft hefur verið þeytt í heimildarmyndir af minna tilefni og Billie Eilish: The World's a Little Blurry er 140 mínútna happafengur fyrir aðdáendur söngkonunnar og líkleg til þess að fjölga eitthvað í þeim hópi þótt þeir sem standi fyrir utan þyki líklega mörgum full vel í lagt.

Apple TV+ sló eign sinni á myndina og þaðan er henni streymt og mögulega hentar slíkt áhorf lengd hennar betur þegar hægt er að gera hlé eftir þörfum. Sannir áhorfendur hljóta þó að vilja njóta myndarinnar í allri sinni dýrð í bíó en þar er tíminn naumt skammtaður og þannig verður hún á tjaldinu í Smárabíói í síðasta sinn í dag. Hvað þau áköfustu athugi.

Leikstjórinn R.J. Cutler kemst býsna nærri Eilish en þótt hún virki afskaplega opin og einlæg fær maður stundum á tilfinninguna að ýmislegt sem gæti gefið fyllri heildarmynd sé markvisst látið liggja milli hluta.

Billi­e rústaði Gram­my-verð­laununum í fyrra með frum­rauninni og sópaði til sín öllum eftir­sóttustu verð­laununum og stóð uppi með fimm af þeimsex verð­launum sem hún var til­nefnd til. Meðal annars plötu ársins, lag ársins og sem nýliði ársins.

Cutler kemst þó það nærri henni að í ljós kemur að undir töffaraímyndinni leynist ósköp venjulegur unglingur sem er þjakaður af efasemdum um eigið ágæti og er stundum við það að sligast undan yfirnáttúrulegu álaginu og myndin rís hæst og segir áhorfendum mest um manneskjuna Billie Eilish þegar hún er í faðmi fjölskyldunnar og að semja lög með Finneas, bróður sínum, sem virðist vera einhvers konar séní á því sviði.

Þá er ekki að sjá annað en foreldrar hennar, þau Maggie og Patrick, séu salt jarðar og ósköp fallegt að fylgjast með þeim reyna allt sem í þeirra valdi stendur til þess að vernda litlu stelpuna sína fyrir hversdagslegum háska tilverunnar ekki síður en skuggahliðum frægðarinnar.

Greinilega alltaf sama taugatrekkjandi atið að reyna að koma börnunum sínum í heilu lagi til manns og maður treystir því bara að með svona vandaða foreldra verði Billie forðað frá örlögum Amy Whinehouse eða Britneyjar Spears.

Myndin er tvær og hálf klukkustund sem er full langt fyrir þá sem ekki eru innvígðir og innmúraðir en ég hef tólf ára dóttur mína fyrir því að myndin er „alveg geggjuð“ og hún hefði gjarnan viljað enn meira. Fyrir pabbann var þetta allt saman vel bærilegt þar sem Billie er ofboðslega sjarmerandi og áhugaverð manneskja sem fer létt með að heilla með tónlist sinni og sviðsframkomu.

Niðurstaða: Tilfinningum hlaðin og áhugaverð innsýn í líf Billie Eilish í tali, tónum og tónleikum. Skuggahliðum samfélagsmiðlafrægðarinnar er haldið sæmilega til haga í mynd sem stendur undir þremur stjörnum fyrir fimmtugan pabba en fimm hjá tólf ára dóttur þannig að feðginin sættast á fjórar.