Sölumaður deyr
***
Arthur Miller
Borgarleikhúsið
Jóhann Sigurðarson og Sigrún Edda Björnsdóttir fagna um þessar mundir 40 ára leikafmæli sínu. Framlag þeirra til íslenskrar leiklistar er ómetanlegt og heldur vonandi áfram um ókomna tíð, enda eiga þau nóg eftir. Eftir langt og strembið ferðalag komst Sölumaður deyr eftir Arthur Miller loksins á stóra svið Borgarleikhússins, en upphaflega átti að frumsýna um síðustu jól.
Ljúfsárar senur
Ekki er ofsögum sagt að Kristín Jóhannesdóttir er einn af allra færustu og frumlegustu leikstjórum landsins. Sýningar hennar eru ávallt tilhlökkunarefni. Að þessu sinni tekst henni ekki að finna efninu nægilega skýran farveg og útkoman er sundurleit. Fyrsta atriðið, öskrið í tóminu, er einungis eitt af mörgum sem stingur í stúf. Útfærslan á þjóninum Stanley, stillt upp sem eins konar sögumanni, og hans samstarfsfélaga gengur heldur ekki upp. Inn á milli koma þó glimrandi augnablik, ljúfsárar senur sem hitta beint í mark og nísta inn að beini, þá sérstaklega þegar þögnin verður yfirþyrmandi en líka þegar fortíð og nútíð blæða inn í hvor aðra. En strengirnir eru ekki nægilega samstilltir, þá helst þegar kemur að túlkun leikara og samspili þeirra á milli.
Vantar kjölfestu
Farandsölumaðurinn Willy Loman er að þrotum kominn. Hann er búinn að strita alla sína starfsævi, berjast við að skaffa fyrir fjölskylduna og koma börnunum á legg. En í stað þess að uppskera eins og til var sáð situr hann uppi með hrjóstrugt land, örmagna og á barmi örvinglunar. Jóhann Sigurðarson hefur lengi verið einn af færustu leikurum landsins en hér bregst honum bogalistin. Aftenging Willys við raunveruleikann í leik Jóhanns virðist fjarlæg frekar en harmþrungin, hann er sem gestur úr öðru leikriti frekar en boðflenna í sinni eigin samtíð og þannig vantar kjölfestu í framvinduna. Þó má stundum sjá glitta í galdrana sem Jóhann býr yfir, sérstaklega í samleik hans og Sigrúnar Eddu Björnsdóttur.
Við hlið Willys stendur Linda, eiginkona hans til áratuga og verndari fjölskyldunnar. Sigrún Edda töfrar fram tengingu við textann, sem skortir hjá sumum leikurum sýningarinnar. Hún er blíð og buguð til skiptis, langþreytt á því að halda fjölskyldunni saman en staðráðin í því að halda verndarhendi yfir Willy. Meðvirkni hennar með Willy og ást til hans er harmleikur hennar. Þessum samanflæktu tilfinningum kemur Sigrún Edda listilega til skila, bæði þegar hún þegir og heldur þrumandi ræður, og þær eru blæðandi hjarta sýningarinnar.
Sundurlaust þras
Vísitölufjölskyldan samanstendur af þeim hjónum og systkinunum Biff og Happy. Hjörtur Jóhann Jónsson leikur frumburðinn og óskabarnið Biff. Frá fæðingu hafa foreldrarnir sannfært hann um eigið ágæti en hann hefur eytt fullorðinsárunum í að gera sér grein fyrir því að heimurinn er ekki að bíða eftir honum. Hjörtur Jóhann er upp á sitt besta þegar hann heldur aftur af sér og beinir reiði Biff inn á við. Nýliðinn Rakel Ýr Stefánsdóttir fer með hlutverk Happy, hins lífsglaða yngra barns hjónanna. Hún líður fyrir leikstjórnina. Happy er stýrt inn á eina rás og úr verður flatur tónn, en greinilegt er að Rakel Ýr hefur úr miklum hæfileikum að spila. Leikararnir í fjölskyldueiningunni eiga sínar góðu stundir þegar þeim fjórum er stefnt saman, en alltof oft leysist samkoman upp í sundurlaust þras.
Þorsteinn Bachmann sýnir agaðan og fantagóðan leik í litlu hlutverki nágrannans Charley, rödd skynseminnar. Sömuleiðis stendur Aron Már Ólafsson sig vel í hlutverki Bernard, þá sérstaklega í seinni hluta sýningar. Stefán Jónsson leysir snúið hlutverk Ben, bróður Willys, ágætlega en erfitt er að ná tangarhaldi á þessari vofu fortíðarinnar. Ekki farnast Vali Frey Einarssyni eins vel og illskiljanlegt er hvernig persónu Stanleys er komið fyrir inn í sýningunni og hvaða hlutverki hann á að þjóna. Esther Talía Casey og Þórunn Arna Kristjánsdóttir hafa úr smærri en mikilvægum hlutverkum að spila sem örlagavaldar í lífi Willys en ná hvorugar að skapa manneskjur af holdi og blóði, táknmyndirnar standa eftir.
Brotakennd heildarmynd
Þýðingarvinna Kristjáns Þórðar Hrafnssonar hefur verið betri í gegnum tíðina, en texti Millers býður algjörlega upp á að taka djarfari ákvarðanir þegar kemur að styttingu setninga og því að uppfæra málfar. Aftur á móti er fagurfræðileg umgjörð sýningarinnar til fyrirmyndar. Leikmyndahönnuðurinn Brynja Björnsdóttir skilar framúrskarandi vinnu, jafnvel sinni bestu hingað til. Á hálftómu sviðinu liggja samankuðlaðar pappírskúlur, glötuð tækifæri týnd í vindinum eða brostnir draumar sem annað fólk fer með eins og hvert annað rusl. Aftast á sviðinu tindrar svartholið sem er síðan endurspeglað eftirminnilega fremst á sviðinu í lokin. Ljósahönnun Pálma Jónssonar er að sama skapi afspyrnu vel heppnuð og fangar hann ljósaskipti lífsins með eftirminnilegum hætti þar sem gráblár raunveruleikinn er alltumlykjandi. Tónlist Gyðu Valtýsdóttur smellpassar inn í þennan tómlega heim.
Nauðsynlegt er að endurtúlka klassísk leikverk fyrir nýja tíma og Sölumaður deyr er svo sannarlega efniviður til að endurskoða með reglulegu millibili. Kristín Jóhannesdóttir beitir hér abstrakt túlkun á bláköldum raunveruleikanum en þrátt fyrir nokkur afbragðs atriði þá verður heildarmyndin brotakennd. Litbrigði sýningarinnar eru oft og tíðum mögnuð en of mörg, sérstaklega þegar kemur að leikhópnum, og tóna ekki vel saman.
Niðurstaða: Ansi misjöfn sýning sem hefur þó sínar silfurrendur.
Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir
Leikarar: Jóhann Sigurðarson,
Sigrún Edda Björnsdóttir, Hjörtur
Jóhann Jónsson, Rakel Ýr Stefánsdóttir, Stefán Jónsson, Þorsteinn
Bachmann, Aron Már Ólafsson,
Valur Freyr Einarsson, Esther Talía
Casey, Þórunn Arna Kristjánsdóttir
Leikmynd: Brynja Björnsdóttir
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Pálmi Jónsson
Tónlist: Gyða Valtýsdóttir
Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir
Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson
Þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson