Linn er ekta höfuðborgarstúlka frá Osló í Noregi og hefur búið á Íslandi í meira en átta ár. Hún segist alltaf hafa verið mjög ákveðin í því hvernig hún vilji klæða sig og notar hvert tækifæri sem hún finnur til sjálfstjáningar. „Fatnaður og stíll er það fyrsta sem fólk sér og fyrsta tækifærið sem þú hefur til þess að segja heiminum frá því hver þú ert og hvernig þú ert,“ segir Linn.

Hún segist jafnframt eiga í smá vandamálasambandi við tísku. „Kannski er ég bara þrjósk. En mér finnst það samt óraunveruleg og óþægileg tilfinning að gefa frá mér stjórnina á því hvernig ég á að klæða mig. Ég vil ekki vera háð því hvaðan tískuhúsin fá innblástur hverju sinni og þurfa að breyta mínum klæðnaði eftir áhrifum tískunnar. Fyrir mér væri það eins og að breyta um persónuleika fyrir hverja og eina árstíð. „Second hand“ fatnaður er mitt alfa og ómega, það sem ég lifi og anda fyrir. Mér finnst það forréttindi að geta farið í fjársjóðsleit án þess að þurfa að hugsa hvaða litir og snið passa „rétt“ inn í tískuna sem er í gangi og hvað öðrum finnist flott. Ég versla langoftast í Hertex. Þar liggur hjarta mitt. Ég fyllist innblæstri þegar ég fer inn í búð og heyri flíkur kalla á mig og betla um tækifæri og vináttu,“ segir Linn kímin og heldur áfram

Hér má sjá pelsinn fagra sem Linn vill endurgera úr bangsaafklippum.

„Margir sem ég þekki segjast ekki hafa kjark til þess að leika sér með klæðnað og sumir segjast ekki nenna að leita í gegnum fullt af óáhugaverðum flíkum í búðum sem selja notaðan fatnað, en nákvæmlega þannig líður mér þegar ég fer í búð með ný og ónotuð föt. Ég nenni ekki að leita í gegnum nýjar flíkur. Persónulegur stíll á ekki að vera erfitt eða stressandi verkefni. Ef maður hugsar til baka, þegar maður var lítill að leika sér að dressa sig upp, þá getur klæðnaður verið ótrúlega skemmtileg áskorun. Þetta tengist því að láta sér líða vel. Ef mér líður vel í fötum þá svínvirkar klæðnaðurinn og allt annað.“

Linn er óhrædd við að blanda saman áferð, litum og formum.

Saumar úr notuðum sokkum og sokkabuxum

Linn hefur verið að gera tilraunir með að sauma sinn eigin fatnað. „Ég saumaði mikið áður en ég flutti til Íslands og finnst skemmtilegt að endurhanna fatnað. Nú er ég loksins byrjuð aftur að sauma og er þessa stundina að vinna að ýmsum hugmyndum um hvernig má nýta flíkur sem eru ekki beint söluhæstar í „second hand“ búðum.“ Linn hefur meðal annars saumað kjól úr gömlum sokkum og nú er hún að gera tilraunir með skemmdar sokkabuxur. „Ég er hvorki klæðskeri né fatahönnuður, en það sem skiptir máli fyrir mig er að leika mér með hugmyndir og skemmta mér á skapandi máta.“

Vill ekki vera kölluð morðingi

Einnig á Linn sér uppáhaldspels sem hún fékk á notaðan á Íslandi fyrir nokkrum árum. „Hann er úr bútasaumi úr margs konar lituðum feldi. En ég þori ekki að klæðast honum í Noregi því ég er hrædd um að vera kölluð „dýramorðingi“ og fá hótanir. Því hef ég verið að vinna að því að búa til eftirlíkingu af pelsinum úr gervifeldi úr skemmdum böngsum.“

Hún kaupir flestar sínar flíkur í Hertex hér heima, en elskar að fara á alvöru flóamarkaði í Noregi. Þar finnst henni gaman að gramsa eftir fjársjóðum.

Er meira fyrir minna pússaðar verslanir

Linn segist sakna þess mjög að komast ekki á alvöru flóamarkaði eins og finna má í Osló. „Það finnst mér alveg vanta á Íslandi, þó svo „second hand“ búðirnar hér séu margar hverjar mjög góðar. Margar þeirra eru með minna „pússað“ útlit, sem gerir leitina og úrvalið mun skemmtilegra og ég fæ pláss til þess að leika mér meira.“

Umhverfið skiptir máli

Ást Linn á notuðum fatnaði lýkur ekki á sjálfstjáningunni því henni er mjög umhugað um umhverfismálin sem tengjast því að velja frekar notaðar flíkur en nýjar. Linn starfaði um tíma í versluninni Hertex og sá frá fyrstu hendi hvernig málum var háttað í tískuheiminum. „Fatasóun á Íslandi og víðar í hinum vestræna heimi er mjög mikið vandamál. Eftir að hafa unnið í „second hand“ búð þá hef ég séð hversu miklu er hent og hvað er gefið í fatasafnanir. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að kaupa notaðan fatnað sem kemur héðan til þess að forðast tíðar og ónauðsynlegar sendingar á milli landa. Okkar rusl er okkar ábyrgð og ég held fólk geri sér ekki grein fyrir hversu mikilvægt, einfalt og skemmtilegt það er að leggja sitt af mörkum í fataáskoruninni.“