Erlendir slúðurmiðlar loga þessa dagana vegna frétta af leikkonunni Angelinu Jolie, en sagan segir að hún sé farin að slá sér upp með mótleikara sínum í kvikmyndinni Maleficent 2 en tökur á henni hófust í apríl.

Kastljósið beinist að hinum 35 ára Ed Skrein sem leikur skúrkinn í framhaldsmyndinni, en Jolie er sögð sýna honum óvenju mikinn áhuga og ekki einvörðungu vegna leiklistarhæfileika hans en því er haldið fram í erlendum fréttamiðlum.

Fyrri myndin, Maleficent var frumsýnd 2014 og sló hún rækilega í gegn. Angelina þótti hæfa hlutverkinu fullkomlega og er seinni myndarinnar því beðið með mikilli eftirvæntingu. 

Fréttirnar af samdrætti hennar og mótleikarans Ed Skrein draga ekki úr áhuganum, aðdáendur bíða spenntir eftir frekari fregnum af meintu ástarsambandi þeirra. 

Fellur fyrir mótleikurum

Það að Angelina falli kylliflöt fyrir karlkyns mótleikurum sínum virðist vera regla frekar en undantekning en fyrsta eiginmann sinn, Johnny Lee Miller, hitti hún við tökur á myndinni Hackers og eiginmann númer tvö, leikarann Billy Bob Thornton, við gerð myndarinnar Pushing Tin. 

Frægasta samband hennar var án efa við leikarann Brad Pitt en það hófst þegar að þau léku saman í kvikmyndinni Mr. & Mrs. Smith, þau slitu samvistum árið 2016 og skildu ári síðar eftir tólf ára sambúð. 

Verður hann sá fjórði?

Stóra spurning er hvort að Ed Skrein sé næsti herra Jolie, en leikkonan og sex barna móðirin hefur ekki verið orðuð við neinn svo sterklega frá því að hún skildi við Brad Pitt. Hins vegar virðist hann vera lukkunnar pamfíll þessa dagana og tekið gleði sína á ný í örmum prófessorsins Neri Oxman, en hún þykir alls ekki svo ólík fyrrum eiginkonu hans,Angelinu Jolie.

Hvort að leikarinn Ed Skrein muni fylla skarð kyntáknsins Brad Pitt og nái að steypa honum af stalli kynþokka verður tíminn að leiða í ljós. Það eru stór spor að fara því að Brad Pitt hefur margsinnis verið valinn fallegasti karlmaður í heimi.