Borgarsögusafn býður fjölskyldur velkomnar í haustfríi grunnskólanna í Reykjavík dagana 22. til 26. október en á þeim dögum verður ókeypis aðgangur inn á alla staði safnsins fyrir börn og fullorðna í þeirra fylgd. Þó þarf að greiða í ferjuna út í Viðey.

Á Árbæjarsafni er fjölskyldum boðið í léttan leiðangur sem safnfræðslan hefur útbúið fyrir safngesti þar sem leitað er að gripum, herbergjum og húsum til þess að kynnast safninu og sýningunum betur. Landnámshestar og -hænur eru á vappi um safnsvæðið og leikfangasýningin Komdu að leika og útileiksvæðið er á sínum stað.

Safnið er opið alla daga frá klukkan eitt til fimm.Landnámssýningin býður fjölskyldum í könnunarleiðangur um Kvosina og er hann í boði allt haustfríið. Tímaflakk um höfuðborgina, er skemmtileg ganga sem barnabókahöfundarnir Linda Ólafsdóttir og Margrét Tryggvadóttir leiða um miðborgina.

Gangan hefst við Landnámssýninguna í Aðalstræti á morgun, laugardag, klukkan 14. Þá verður Björk Bjarnadóttir, umhverfis- og þjóðfræðingur, með spennandi erindi um uppruna hrekkjavökunnar sunnudaginn 24. október klukkan 14.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur býður fjölskyldum að koma að skoða aðalsýningu safnsins sem nefnist Hilmir snýr heim, en á henni má sjá fjölda passamynda af sjötugum körlum annars vegar og blómum í náttúru Íslands hins vegar. Hvað eiga eiginlega þessir karlmenn og blómin sameiginlegt?

Sjóminjasafnið í Reykjavík býður fjölskyldum í leiðangur um grunnsýninguna Fiskur & fólk, en hún fjallar um alls konar forvitnileg sjávardýr, skip, sardínudósir og margt fleira sem tengist hafinu og reyndar líka það sem ætti ekki að finnast þar.Sigling út í Viðey er góð hugmynd að samveru í haustfríinu.

Siglingin tekur bara nokkrar mínútur og er skemmtileg byrjun á hressandi útivistardegi í Viðey. Gestir fá kort af eyjunni í miðasölu Eldingar á Skarfabakka og þar má finna upplýsingar um ótal staði sem gaman er að skoða.

Siglt er frá Skarfabakka. Gjald í ferjuna er 1.700 krónur fyrir fullorðna og 850 krónur fyrir 7 til 15 ára. Börn 6 ára og yngri sigla frítt. Menningarkortshafar fá 10% afslátt í ferjuna. Hægt er að kaupa miða fyrir fram á vef Eldingar.