Handritshöfundurinn og leikstjórinn Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir tók nú á dögunum við nýju starfi sem starfsmaður þingflokks Pírata. Hún er með einstaklega flottan stíl og rómuð fyrir frumlega augnförðun og fallegar neglur.

„Mér líkar ljómandi vel að starfa fyrir Pírata. Samhliða því er ég að ljúka við skrif á seríunni Brúðkaupið mitt ásamt góðu fólki, sem Glassriver er að framleiða fyrir Sjónvarp Símans. Þá er frumraun mín á sviði leikstjórnar í sýningu á fjölum Leikfélags Akureyrar um þessar mundir, en þar er verið að sýna skemmtisýninguna Fullorðin, sem ég leikstýrði ásamt Mörtu Nordal. Leikarar sýningarinnar, sem einnig eru höfundar hennar, fara þar með stjörnuleik og skilja engan eftir óhlæjandi,“ segir Hekla.

Hvenær byrjaðir þú að mála þig?

„Ætli ég hafi ekki verið um tólf ára þegar ég byrjaði að fikta með snyrtivörur og lita á mér augnhár og augabrúnir. Blessunarlega voru engir snjallsímar í umferð á þeim tíma, svo mér hefur tekist að láta sönnunargögnin hverfa.“

Eru einhverjar vörur sem hafa fylgt þér lengi?

„Förðunarvörurnar frá MAC hafa verið stoð mín og stytta í gegnum súr og sæt tískutímabil.“

Hefur förðunarrútínan þín eitthvað breyst í heimsfaraldrinum?

„Það sem breyttist helst var að tilefnunum fyrir íburðarmikla förðun fækkaði umtalsvert svo ég var allt í einu farin að mæta skrautleg sem páfugl á fámenn og látlaus mannamót. Húðrútínan varð bara metnaðarfyllri og flóknari því tíminn sem ég gat eytt í að rannsaka og smyrja mig með alls konar efnablöndum var gríðarlegur.“

Fréttablaðið fékk að skyggnast í snyrtitöskuna hennar Heklu.

Kanadíska merkið The Ordinary er í miklu uppáhaldi hjá Heklu.
Fréttablaðið/Valli

“Þetta eru hræódýrar en áhrifaríkar vörur sem eru lausar við allan óþarfa og vinna vinnuna sína ljómandi vel. Ég legg þó til að fólk forðist að gera sömu byrjunarmistök og ég, sem var að blanda þessu öllu saman án þess að gera mér grein fyrir afleiðingunum sem það gæti haft. Sum efni núlla önnur út og önnur virka illa saman. Ég var næstum búin að bræða af mér andlitið áður en ég gerði mér grein fyrir því. Það er hægt að gúgla sig í gegnum þetta ef maður nennir og ef maður nennir því ekki er best að sleppa þessu alveg”

Það er kanadíska töfradísin Catherine Côte, sem gengur undir nafninu Rainbownails á Instagram.
Hekla er óhrædd við að prófa sig áfram með augnförðun og er oft með maskara í skemmtilegum litum.

„Ég fæ helst innblástur á Pinterest, þar sem ég ligg helst yfir óvenjulegri og skapandi förðun sem hönnuðir eru að vinna með á tískupöllunum.Fyrir tveimur árum gerðist ég svo fræg og fríkuð að kaupa mér bleikan maskara í Sephora. Við tók löng og ítarleg leit að merki sem framleiðir litríka maskara. Á endanum fann ég hinn litaglaða snyrtivöruframleiðanda, ColourPop, og náði að fylla almennilega á lagerinn.“

Fréttablaðið/Valli
Þrjár vörur sem eru í uppáhaldi hjá Heklu.

Ultra Light Daily UV Defense Kiehls

Sérfræðingarnir predika að enginn eigi nokkurn tímann að fara út úr húsi án þess að setja á sig sólarvörn. Nema auðvitað viðkomandi vilji líta út eins og notaður leðursófi þegar fram líða stundir.

Egyptian Magic Multipurpose Cream

Ég nota þetta smyrsl við öllum fjandanum. Örfá virk innihaldsefni sem gera kraftaverk.

label.m Therapy

Rejuvenating Radiance OilÉg á það til að misþyrma hárinu mínu með allskonar hitajárnum og hárblæstri. Þessi vara er mín leið til að rétta fram sáttarhönd.

Luminous Silk Perfect Glow Flawless Oil-Free Foundation frá Armani Beauty

Ég vil að farðinn minn sé hvorki feitur né þekjandi og þessi uppfyllir þau skilyrði með glæsibrag.

All Nighter Long-Lasting Makeup Setting Spray frá Urban Decay

Talandi um að líma farðann á andlitið, þetta er sennilega mikilvægasta varan í snyrtiveskinu mínu. Notaðu þetta og þú munt aldrei aftur þurfa að laga farðann til þegar líður á daginn eða kvöldið, sama hvað þú djöflast. Hann bara haggast ekki.

Neo Nude A-Line Liquid Blush Armani Beauty

Kinnalitir í vökvaformi eru einfaldir í notkun og gefa aðeins náttúrulegri áferð að mínu mati en púðurkinnalitir. Þessi er í miklu uppáhaldi.

Skin Fetish: Highlighter + Balm Duo frá PatMcGrath studios

Ég hafði lengi leitað að vöru sem gefur hóflegan ljóma frekar en að gera mig að mennskri diskókúlu. Þetta er hún, látið orðið berast.

24-Hour Brow Setter Clear Brow Gel frá Benefit

Augabrúnir mínar og augnhár eru litlaus frá náttúrunnar hendi, sem olli mér töluverðum útlitskomplexum á yngri árum. Í dag þykir hinsvegar smart að vera með aflitaðar augabrúnir svo ég græði loksins á þessu. Þetta glæra augabrúnagel nota ég til að halda þeim í skefjum.