Það hendir sjálfsagt flest fólk á lífsleiðinni að falla fyrir ýmsum mis hollum freistingum þegar matvöruverslanir eru heimsóttar, sérstaklega undir lok dags þegar hungrið sækir á. Sælgæti, gos, snakk eða kex eiga það til að detta í körfuna og fylgja með innkaupum dagsins eða vikunnar án þess að við hugsum mikið út í það. Þetta hefur verið viðfangsefni Birnu Þórisdóttur, nýdoktors við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands og rannsóknarsérfræðings við Heilbrigðisvísindastofnun skólans og samstarfsfólks hennar í nýju rannsóknarverkefni undanfarið ár.

Árangursríkt samstarf

Birna segir hugmyndina að verkefninu hafa kviknaði á námskeiðinu Áhrifavaldar næringar, sem hún kennir ásamt Bryndísi Evu Birgisdóttur, prófessor í næringarfræði, og fleirum við Háskóla Íslands. „Á námskeiðinu eru skoðaðir þeir fjölmörgu þættir sem stýra fæðuvali einstaklinga. Tveir meistaranemar í næringarfræði, þau Perla Ósk Eyþórsdóttir og Guðmundur Gaukur Vigfússon, unnu verkefnið síðasta sumar með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna undir leiðsögn okkar Bryndísar Evu. Verkefnið var samstarf Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands en með heilsusamlegu mataræði og öðrum heilsusamlegum lífsvenjum minnka líkur á krabbameinum og öðrum sjúkdómum.“

Fæðuumhverfið metið

Helstu markmið rannsóknarverkefnisins að hennar sögn voru að þróa aðferð til að meta fæðuumhverfið í matvöruverslunum með tilliti til lýðheilsu og nota svo aðferðina til að fá upplýsingar um stöðuna á Íslandi. „Með fæðuumhverfi í matvöruverslunum er átt við meðal annars hilluplássið sem ólíkar vörur fá að leggja undir sig og staðsetningu, svo sem við inngang eða kassasvæði, auk fleiri þátta. Það hvort fæðuumhverfið hvetur viðskiptavini frekar til að kaupa heilsusamlegar eða óheilsusamlegar matvörur hefur áhrif á mataræði, næringarástand og heilsu.“

Óhollustan meira áberandi

Guðmundur og Perla, meistaranemarnir sem unnu verkefnið, gerðu mælingar í tólf verslunum fjögurra verslanakeðja. „Þær sýndu m.a. að óheilsusamlega fæðan fékk að meðaltali tvöfalt meira pláss en heilsusamlega fæðan. Verslanir innan sömu keðju voru svipaðar innbyrðis en það var mikill munur á milli keðja. Hvergi var ávexti og grænmeti að finna á kassasvæði en í öllum verslunum var þar að finna óheilsusamlega fæðu og stundum mikið af henni, eða allt að 10 fermetra af hilluplássi. Rannsóknir sýna einmitt að fólk sé líklegt til að kaupa vörur sem eru staðsettar á kassasvæði án þess að hafa endilega ætlað sér það fyrir búðarferðina. Við inngang og á gangendum, sem einnig eru svæði sem geta haft töluverð áhrif á kauphegðun viðskiptavina, var að finna bæði heilsusamlega og óheilsusamlega fæðu.“

Risastórt lýðheilsumál

Verslunarkeðjurnar fjórar fengu allar endurgjöf frá rannsakendum og voru stjórnendur þeirra hvattir til að gera breytingar sem styðja við heilsusamleg innkaup. „Ég veit ekki fyrir víst hvort breytingar hafi verið gerðar en tel verkefnið leggja lóð á vogarskálar jákvæðra breytinga. Við munum halda áfram að vinna að því að fæðuumhverfið styðji betur við heilsusamlegt mataræði þjóðarinnar, sem er einfaldlega risa stórt lýðheilsumál og þróun sem er að eiga sér stað víða í löndunum í kringum okkur.“