Meghan Markle hefur nú fengið viðurnefnið „óheillakráka“ frá ófáum tennisaðdáendum eftir að hún fylgdist með tennisdrottningunni og vinkonu sinni Serena Williams tapa þriðja úrslitaleiknum á US Open mótinu í gær.

Meghan var einnig viðstödd við úrslitaleiki Serenu á Wimbledon mótinu þar sem hún tapaði tveimur leikjum. Prinsessan flaug óvænt til New York til að fylgjast með vinkonu sinni spila en hún sat við hlið eiginmanns Serenu og nánum fjölskyldumeðlimum.

Vinsamlegast hættu

Þá hafa einhverjir aðdáendur Serenu beðið Meghan opinberlega um að mæta ekki á fleiri tennisleiki. „Kæra Meghan Markle, vinsamlegast hættu að mæta á úrslitaleiki Serenu. Þú ert óheillakráka,“ sagði einn Twitter notandi.

Einhverjir hafa tekið upp hanskann fyrir Meghan og minna á að hún hafi verið í áhorfendastúkunum þegar Serena vann titilinn á Wimbledon mótinu árið 2016. Þá voru orðrómar um samband Meghan og Harry prins farnir að heyrast víða.

Skróp og kolefnisfótspor

Meghan hefur einnig sætt gagnrýni vegna ferðarinnar annars staðar frá. Bresk slúðurblöð hafa verið ófeimin við að hafa eftir aðstandendum Elísabetar drottningar að drottningin sé alls kostar ósátt með aða Meghan missi af árlegri fjölskyldusamkomu konungsfjölskyldunnar í Balmoral. Þá á drottningin ekki að geta skilið hvernig Harry og Meghan virðast alltaf fara þvert á ráð konunglegra ráðgjafa í sínum málum.

Þá hefur ferðamáti Meghan iðulega hneykslað þar sem hún og Harry ferðast mikið í einkaflugvél sinni á tímum loftslagsváar. Meghan ferðaðist þó í almennu flugi í þetta skipti en talið er að miðinn hennar hafi kostað tæpa milljón króna.

Stíll Meghan vakti lukku á úrslitaleiknum.
Fréttablaðið/Getty