Það kennir ýmissa grasa þegar kemur að tólum og tækjum sem eru vinsæl í húðumhirðu. Gífurleg sprenging hefur átt sér stað í áhuga á vönduðum og virkum húðvörum síðasta hálfa áratuginn.

Verðlag hefur líka sitt um það að segja, en innkoma kanadíska fyrirtækisins The Ordinary var mikil bylting á sínum tíma, því loks voru fáanlegar á góðu verði hreinar vörur með virkum efnum sem höfðu verið rannsökuð í þaula. Það hefur því reynst mun auðveldara að byggja upp góða og vandaða húðrútínu undanfarin ár og fjöldi skemmtilegra fyrirtækja kominn á markaðinn sem bjóða upp á retínól, C-vítamín, hýalúronsýru og níasínamíð.

Gua shah-steinar fást í ýmsum formum og eru oftast úr rósakvarsi. Þó er hægt að fá Gua shah úr jaði eða öðrum steinum. Formið sem er hér fyrir miðju er það vinsælasta.

Síðustu tvö ár hafa vinsældir ýmissa aukahluta sem eiga að tryggja að maður fái sem mesta virkni úr olíum á borð við rósaldinolíu, jójobaolíu og skvalín aukist. Þessar vinsældir má að mörgu leyti rekja til samfélagsmiðla þar sem ýmsir áhrifavaldar hafa hrósað þessum tólum í bak og fyrir.

Mörg þeirra eru þó alls ekki ný af nálinni, má þar nefna rúllur úr jaði (e. jade roller) og Gua shah-steina sem eru oftast úr rósakvarsi, en hvort tveggja hefur verið notað í Kína frá sjöundu öld. Slétt og stundum svalt yfirboðið er sagt hjálpa olíum og efnum að ná inn í húðina.

Tilgangurinn er einnig að örva blóðflæðið með því að nudda steinunum í hinar ýmsu áttir í andlitinu, sem á að gera húðina stinnari og ná óhreinindum upp á yfirboðið. Hver og einn verður þó að sjálfsögðu að gera upp við sig hvort vert sé að hafa trú á virkni þessara tóla. En það er í það minnsta gaman að fræðast um þau og margir segja að andlitsnuddið eitt og sér sé róandi eftir erfiðan dag, þrátt fyrir að virknin sé kannski ekki sú sama og margir heilsugúrúar halda fram.

Hér er dæmi um í hvar í andlitinu og í hvaða átt er best að nudda Gua shah-steininum eða jaðirúllunni.
Mörgum finnst gott að geyma jaðirúllurnar og Gua sha-steinana inni í ísskáp eða frysti. Það er frískandi eftir langan dag og gerir húðina stinnari, í það minnsta tímabundið.
Best er að nota góða húðolíu áður en húðin er nudduð út á við með Gua sha-steininum.