Ámorgun, sunnudaginn 18. ágúst, verður opnuð einkasýning myndlistarkonunnar Margrétar Loftsdóttur í Stokk Art Gallery á Stokkseyri.

Margrét Loftsdóttir er fædd 1992. Hún lauk diplómagráðu frá Málaradeild Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2018, síðan bætti hún við sig BA-gráðu í listum frá Háskólanum í Cumbria og er því nýkomin heim úr námi frá Bretlandi. Hún tók þátt í samsýningu í „Listamenn Gallerí“ í Reykjavík vorið 2018.

Á sýningunni sem ber yfirskriftina „Framtíðin“ eru sýnd útskriftarverk Margrétar úr Háskólanum í Cumbria ásamt nýjum viðbótum.

Stefán Hermannsson, sem ásamt Arnfríði Einarsdóttur veitir Stokk Art Gallery forstöðu, segir listakonuna sprengja út málverkið þannig að rammarnir hverfa út á haf. „Með því að blanda saman sakleysi barnsins og grófum málarastíl er leitast við að ná fram ákveðinni þversögn í málverkinu. Notast er við gróf efni og skítuga liti ásamt expressjónískum aðferðum sem mynda spennu innan málverksins. Hold barnsins er einstakt og viðkvæmt. Það er margslungið en samt svo náttúrulegt,“ segir Stefán.

Að sögn Stefáns eru þetta stór verk sem ögra formi málverksins. „Þau geta verið í senn fráhrindandi og aðlaðandi. Lögun þeirra er óregluleg, ýmist úfin og tætt eða slétt og fellt.“

Stefán segir listakonuna leggja upp með eftirfarandi orð til að lýsa inntaki sýningarinnar:

Hversu einstök þessi nýja mannvera.

Lítil viðkvæm sál, andar, nærist, sefur

enga vitneskju hefur um hvað veröldin tekur og gefur.

Stokkur Art Gallery er rekið af hjónunum Stefáni Hermannssyni og Arnfríði Einarsdóttur listamönnum sem hafa verið búsett á Eyrarbakka um skeið. Þau segja galleríið á Stokkseyri vera fyrir nútímalist og aðra þjóðmenningu. Bæði eru þau mikið áhugafólk um menningu, listir, fólk og samfélag. Fyrirhugað er að standa einnig fyrir viðburðum eins og tónleikum, upplestrum úr bókum, myndlistarnámskeiðum og öðru sem upp kemur.

Sýning Margrétar í Stokk Art Gallery verður opnuð á morgun 18. ágúst kl. 15 og er opin til 18. Sýningin mun standa til 18. september.