„Þessi afbrigði heita náttúrulega eftir gríska stafrófinu sem er aðferð til að reyna að gera heitin á þeim hlutlaus, frekar en að nefna þau til dæmis eftir stöðum þar sem þau finnast. Það er samt óhjákvæmilegt að það komi alls konar tengingar út frá þessu,“ segir Halldór Auðar Svansson, varaþingmaður Pírata, sem er ekki aðeins með talnagleggri mönnum heldur einnig vel að sér í nördaheimum þar sem teiknimyndaþættirnir Futurama eru enn í hávegum hafðir þótt þeir hafi runnið sitt skeið 2013.


„Delta þýðir til dæmis oftast breyting á einhverju í stærðfræði og það afbrigði var heldur betur breyting á forsendunum sem við héldum að ættu við um Covid.

Svo er manni eiginlega öllum lokið þegar næsta afbrigði heitir eftir heimaplánetu eins skæðasta óvinar mannkyns í Futurama, átvaglsins Lrrr frá plánetunni Omicron Persei 8. Ekki hægt að taka því öðruvísi en skilaboðum um að þetta versni bara og versni.

Flatbökusendillinn Fry, drykkfellda vélmennið Bender og djarfi geimflugstjórinn Leela bjarga mannkyni ítrekað frá geimandskotanum Lrrr í Futurama.

Reyndar er omíkron líka fimmtándi stafur gríska stafrófsins en Delta bara sá fjórði þannig að það er verið að fara frekar hratt í gegnum þetta stafróf og greinilega mikið af afbrigðum að þróast.“

Halldór er síðan ekki í neinum vandræðum til þess að lesa váboða út úr stöðu Omicron í stafrófinu. „Bara svona til að benda á enn eitt alveg hreint „frábært“ sem þessi stafur er að segja okkur þá er pí næsti stafur á eftir og ég ætla eiginlega að vona að það afbrigði komi aldrei af því það væru alveg klárlega skilaboð um að Covid sé óendanlegt, eins og stærðfræðifastinn pí,“ segir Píratinn.