Ansi margir sjón­varps­áhorf­endur þykjast vita réttu svörin og leiðina að lausninni horfi þeir á spurninga­þátt þar sem reynt er á getu ein­stak­linga. „Ha, gat hann/hún þetta ekki!“ segja þeir við sjálfa sig og fussa um leið af hæfi­legri vand­lætingu. Það er nefni­lega mjög auð­velt að vera gáfaður þegar maður situr í sófanum heim hjá sér. Þá þarf maður ekki stiga­vörð til að segja manni að maður hafi svarað rétt. Maður veit það sjálfur.

Kapps­mál, á RÚV á föstu­dags­kvöldum, í um­sjón Bjargar Magnús­dóttur og Braga Valdimars Skúla­sonar, er þáttur sem hlýtur þó að draga kjarkinn úr sjálfs­öruggasta fólki þar sem það situr í sófanum heima og leysir í huganum þrautir sem lagðar eru fyrir þátt­tak­endur. Sumar þeirra eru bein­línis ógn­vekjandi. Ráða þarf alls konar stafa­víxl og stafa­brengl og beygja orð upp­hátt. Hvernig er til dæmis „sæt frönsk kar­tafla“ í þágu­falli ein­tölu efsta­stigi með greini? Allt þetta þarf að gera á met­tíma. Mann svimar heima í stofu og þakkar al­mættinu fyrir að vera ekki meðal þátt­tak­enda.

Björg og Bragi Valdimar eru fínustu stjó­rendur. Hún er rögg­söm og við­mót hennar gefur til kynna að þátt­tak­endur þurfi alls ekki að vera stressaðir því allt sé þetta nú bara til gamans gert. Bragi Valdimar unir sér einnig vel, það sést greini­lega á honum að hann hefur fjarska gaman af orðum.

Í ný­legum þætti kepptu tvær konur sem höfðu lítið fyrir því að leysa hin erfiðustu verk­efni. Frammi­staða þeirra fram­kallaði sanna lotningu. Á móti þeim kepptu ungir karl­menn sem gátu ekki sér­lega mikið. Á köflum voru þeir gjör­sam­lega úti að aka en þeim virtist standa ná­kvæm­lega á um það. Þeir voru komnir þarna til að skemmta sér og tókst að láta eins og ó­farir þeirra skiptu þá engu máli. Björg hjálpaði líka til, var alveg hæfi­lega hug­hreystandi.

Veru­lega skemmti­legur þáttur þótt maður velti því ó­neitan­lega fyrir sér af hverju þátt­tak­endur mæti í hann af fúsum og frjálsum vilja. Þarna er nefni­lega ein­stak­lega auð­velt að kol­falla á prófinu fyrir framan al­þjóð. Og hver vill það?