Nadine Dorries, menningar­ráð­herra Bret­lands, neyddist til þess rjúfa beina út­sendingu þegar reiður veg­farandi fór að ógna mynda­töku­hóp Sky News.

Í við­talinu sést þegar Dorries missir at­hyglina á mynda­vélinni og beinir augum sínum að veg­faranda sem kallaði á hópinn. „Við verðum að fara Kay, því miður. Mynda­töku­maðurinn þinn er að lenda í vand­ræðum,“ sagði Dorries.

„Ekki snerta mig! Ef þú snertir mig læt ég hand­taka þig fyrir líkams­á­rás,“ kallaði maðurinn. Dorries varði mynda­töku­manninn: „Hann er ekki að snerta þig.“

Öryggis­verðir voru kallaðir til á endanum og maðurinn var fjar­lægður af svæðinu.

Sjá má mynd­band af at­vikinu hér að neðan: