Molly skaust upp á stjörnuhimininn í bresku raunveruleikaþáttunum árið 2019. Þar kynntist hún ástinni sinni, boxaranum Tommy Fury og eru þau enn saman í dag.

Molly hefur hins vegar vakið mikla hneykslan í Bretlandi nýverið, fyrir ummæli sem hún lét falla í hlaðvarpinu „The Diary of a CEO“ en þar sagði hún fátækt fólk hafa 24 klukkustundir í sólahringnum eins og allir aðrir.

„Ég hef unnið baki brotnu til að komast þangað sem ég er núna,“ sagði Molly. Eftir fréttaflutning af málinu gaf stjarnan frá sér yfirlýsingu. „Ég var bara að ræða sjálfa mig, en ekki aðra,“ sagði stjarnan, sem sagðist gera sér grein fyrir því að bakgrunnur fólks skiptir máli. Eydís segir ummælin misskilin.

„Ég hlustaði á þáttinn og ummælin koma strax í byrjun. Eins og ég skil þetta er þarna á ferðinni manneskja sem er búin að gera allt saman til að gera líf sitt gott,“ segir Eydís.

„Ég held að allir áhrifavaldar geti verið sammála mér þarna, með að það er örugglega ógeðslega erfitt að vera áhrifavaldur út af því að þú þarft að passa hvert einasta orð sem kemur út úr munninum þínum, því fólk getur snúið út úr öllu. Ég heyri ekkert rangt í því sem hún segir,“ segir Eydís.

Hún segir að viðtalið við Molly veiti sér þvert á móti innblástur. „Mig langar að gera betur eftir að hafa hlustað,“ segir Eydís. „Ég held það skipti ekki máli hvað hún segir, fólk mun alltaf segja eitthvað.“ Eydís segist ekki hissa á að Molly og Tommy séu ennþá saman, þremur árum eftir Love Island.

„Ég er alls ekki hissa. Maður sá það bara einhvern veginn strax í lok seríunnar að þetta var par sem var að fara að endast,“ segir Eydís, sem segir að svo virðist vera sem að pör í öðru sæti endist frekar en sigurvegararnir.