Fjórða samsýning Vatnslitafélags Íslands hófst 20. október í Galleríi Göngum við Háteigskirkju í Reykjavík og stendur til sunnudagsins 20. nóvember. Eins og á fyrri samsýningum félagsins eru fjölbreytt verk til sýnis en að þessu sinni sýna 45 listamenn samtals 58 verk. „Sýningarnefndin auglýsti í lok maí eftir myndum meðal félagsmanna. Alls bárust 176 myndir frá 63 félagsmönnum sem þýðir að flestir sem sendu inn myndir sendu þrjú verk,“ segir Derek Mundell, formaður Vatnslitafélags Íslands.

Sýningarnefnd skipaði þriggja manna dómnefnd fagmanna utan félagsins, en með reynslu af vatnslitamálun og kennslu í faginu, til að velja inn myndir á sýninguna. Í þetta skipti skipuðu dómnefndina Louise Harris, Sigga Björg Sigurðardóttir og Vicente Garcia Fuente frá Spáni. „Dómnefndin fékk myndirnar sendar án höfundarnafna og þeim var raðað af handahófi. Sýningarnefndin fól þeim að velja verkin með það að markmiði að verkin mynduðu góða heild og að þau sýndu vel þá fjölbreytni sem vatnsleysanleg efni á pappír geta kallað fram.“

45 listamenn sýna samtals 58 verk á samsýningunni. MYND/AÐSEND

Vinsældir vatnslitunar aukist

Derek segir margt heillandi við vatnslitun. Vinsældir hennar hafi einnig aukist mikið hér á landi undanfarin ár og telur hann að félagið hafi spilað stórt hlutverk þar. „Ég tel vatnsliti vera besta miðilinn til að fanga andartök og þá uppgötvun gerði ég þegar ég var að fást við módelmálun. En ég fann líka að vatnslitirnir hentuðu vel til að mála landslagsmyndir og hafið í allri sinni fjölbreytni, þegar birtuskilyrðin eru sífellt að breytast.“

Þá er frumlitunum leyft að renna og blandast í vatnsfilmunni á pappírnum. „Allar tilraunir til að hafa fulla stjórn á litaflæðinu og stýra hverjum pensildrætti geta eyðilagt myndina. Í mínum huga felst listin í viðkvæmu jafnvægi þess að stjórna litunum í vatninu á pappírnum og að vinna með vatninu.“

Opnun samsýningarinnar 20. október var vel sótt. MYND/AÐSEND

Af því leiðir svo að vatnslitir eru að nokkru leyti ófyrirsjáanlegir, myndirnar móta sig sjálfar og öðlast eigið líf í höndum málarans að sögn Dereks. „Stöku sinnum tekst svo vel til að vatnið, litirnir og pappírinn blandast með þeim undrum sem aðeins vatnslitaverk geta kallað fram og þá getur listamaðurinn verið ánægður með verk sitt.“

Fjölbreytning í verkunum er mikil. MYND/AÐSEND

Fjölbreytt starfsemi

Vatnslitafélag Íslands var stofnað í febrúar 2019 og í því eru um 230 félagsmenn. Félagið er frjálst félag vatnslitamálara og áhugafólks um vatnslitamálun á Íslandi. „Tilgangur þess er að efla stöðu vatnslitamálunar og stuðla að samvinnu félagsmanna á því sviði. Félagsstarfið felst meðal annars í vikulegum málunarstundum sem öllum félagsmönnum er frjálst að sækja, helgarnámskeiðum með innlendum og erlendum meisturum, fræðslufundum um list, og árlegri samsýningu félagsins.“

Fram undan er áframhaldandi starf við að efla félagið og hvetja um leið vatnslitamálara til að koma saman reglulega til að skapa og skiptast á hugmyndum og tækni. „Í vetur fáum við listfræðinga og listamenn til að fræða okkur og það verður haldið grunnnámskeið fyrir félaga með íslenskum kennara. Við erum einnig að undirbúa heimsókn tveggja heimsþekkta vatnslitamálara til að kenna þrjú helgarnámskeið næsta sumar. Hægt er að fylgjast með starfsemi félagsins og skoðað verk eftir um 60 félaga á vefsíðu félagsins, vatnslitafelag.is.“

Sýningin er í Galleríi Göngum í Háteigskirkju og er opin á virkum dögum frá kl. 10-16 en á laugardögum og sunnudögum frá kl. 13-15.

Nánari upplýsingar á vatnslitafelag.is og á Facebook-síðu Vatnslitafélags Íslands.