Bandaríska ofurfyrirsætan Gigi Hadid er nú stödd í New York þar sem rétthöld yfir kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein fara fram. Gigi var valin af handahófi til að sitja í kviðdómi í málinu. Nú spyrja lögfræðingar mögulega kviðdómendur spjörunum úr til að finna út hvort viðkomandi geti gætt fyllsta hlutleysis. Fyrisætan segir svo vera í hennar tilviki, en hún hefur áður hitt Weinstein og er góð vinkona fyrisætunnar og leikkonunnar Cara Delevingne, sem hefur sakað kvikmyndaframleiðandann um að hafa reynt að kyssa hana gegn hennar vilja. Gigi þekkir líka Salma Hayek sem er vitni í málinu.

Þegar Gigi var innt eftir því hvort hún væri hluti af kviðdóminum sagði hún fjölmiðlum að hún hefði ekki leyfi til að tjá sig um málið að svo stöddu. Dómarinn hafði ítrekað fyrir viðstadda í réttarsal að stranglega bannað væri að ræða framvindu réttarhaldanna við fjölmiðla, við því lægi refsing upp á 30 daga fangelsisvist og há fjársekt.

Salma Hayek er vitni í málinu, en hún lék í nokkrum kvikmyndum framleiddum af Weinstein upp úr aldamótunum.
Mynd/Getty Images

Réttarhöldin hófust þann 6. janúar og er talið líklegt að þau standi yfir í nokkra mánuði. Harvey neitaði sök fyrir dómi. Fjöldi ásakanna hefur hefur borist vegna meintra kynferðisbrota hans í garð fjölda kvenna sem tengjast kvikmyndaiðnaðinum á einn eða annan hátt. Er hann talið hafa notað stöðu sína innan bransans til að þvinga konur til kynferðislega athafna. Leikkonan Rosie McGowan hefur barist ötullega fyrir því að Harvey verði sóttur til saka, en hún segir hann ítrekað hafa beitt hana kynferðisofbeldi. Réttarhöldin sem nú fara fram varða mál tveggja kvenna á hendur kvikmyndaframleiðandanum,. Verði hann dæmdur sekur á hann möguleika á lífstíðarfangelsi.

Athygli vakti fyrr í mánuðinum þegar Weinstein mætti með göngugrind til réttahaldanna, en sást síðar sama dag án hennar í stórverslun. Töldu margir að hann hafi mætt með hana til að fá vorkunn og samúð viðstaddra og fjölmiðla.