Kanadíska ofur­fyrir­sætan Linda Evangelista hefur ekkert komið fyrir sjónar al­mennings undan­farin fimm ár. Í ein­lægri færslu á Insta­gram út­skýrir hún fjar­veru sína.

Fyrir fimm árum gekkst hún undir svokallaða Coolsculpting aðgerð, eða fitufrystingu. Sökum auka­verkana sem fylgdu að­gerðinni jókst fram­leiðsla fitu­fruma í líkama hennar.

„Ég er, eins og fjöl­miðlar hafa greint frá, ó­þekkjan­leg,“ segir Evangelista. Hún segist hafa farið í „tvær sárs­auka­fullar og mis­heppnaðar leið­réttingar­að­gerðir“ sem höfðu ekki til­ætluð á­hrif.

„Til fylgj­enda minna sem hafa velt því fyrir sér hvers vegna ég hef ekki verið að vinna á meðan kollegar mínir hafa náð langt, á­stæðan er að ég er gróf­lega af­mynduð eftir að­gerð sem hafði þver­öfug á­hrif miðað við það sem var lofað.“

Evangelista segir að að­gerðin „hafi ekki einungis rústað lífs­viður­væri mínu, ég festist í víta­hring djúp­stæðs þung­lyndis, varð gríðar­lega sorg­mædd og fór í mikla sjálfs­gagn­rýni. Í gegnum ferlið hef ég orðið ein­ræn.“

Hún segir Insta­gram-færsluna birta til að opin­bera sögu sína til að geta haldið á­fram með líf sitt og gefur til kynna að hún hyggist leita réttar síns.