Ég hugsa að veikindi móður minnar heitinnar hafi ýtt mér út í nám sem tengist umönnun. Mágkona föður míns er líka sjúkraliði og hefur verið mér mikil fyrirmynd í lífinu. Hún hefur staðið þétt við bakið á mér með yndislegu hrósin sín og endalaust pepp í gegnum námið,“ segir Jónína Guðrún Thorarensen sem útskrifaðist sem sjúkraliði nú fyrir jólin.

Jónína er sex barna móðir og nýlega orðin amma. Hún býr með manni sínum, Halldóri Gunnari Pálssyni sjómanni, í þorpinu Hnífsdal sem hún segir nafla alheimins, en Hnífsdalur stendur utan við Skutulsfjörð á Vestfjörðum, mitt á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

Jónína og Halldór með fimm af börnum sínum, þegar það sjötta var enn ófætt.

„Ég er fædd og uppalin á Ísafirði, dóttir Rósmundar og Kamillu sem bæði voru fædd í Árneshreppi á Ströndum, nánar tiltekið á Krossnesi og Gjögri. Ég hafði unnið við alls konar um ævina áður en ég fór í sjúkraliðanámið, bæði skemmtilegt og grútleiðinlegt. Mig langaði alltaf að eignast mörg börn og hefur aldeilis orðið að ósk minni: Ég á fjóra stráka og tvær stelpur. Sá elsti er að verða 22 ára og sú yngsta er þriggja ára. Svo á ég litla ömmustelpu sem er augasteinninn okkar allra,“ segir Jónína, sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna og dreif sig í sjúkraliðanám þrátt fyrir miklar annir og barnalán heima fyrir.

„Ég eignaðist tvö börn á meðan á náminu stóð, árin 2017 og 2018, og var því í fæðingarorlofi stóran hluta af náminu. Þetta gat verið rosalega krefjandi. Vinkona mín byrjaði á sama tíma og ég, og við lærðum mikið saman. Þá er maðurinn minn sjómaður og því var ég oft mikið ein að tækla lífið með náminu. Næturnar voru nýttar vel á meðan börnin sváfu og svo næturvaktirnar á spítalanum. Þetta gat því verið heilmikið púsluspil og stundum var ég við það að guggna, en ég er líka ótrúlega heppin með fólkið í kringum mig og maðurinn minn hefur staðið við bakið á mér eins og klettur.“

Jónína með dótturdóttur sína og augastein allra í fjölskyldunni, Anítu Þórunni sem hér fær að bera útskriftarhúfu ömmu sinnar.

Tók námið á sínum hraða

Jónína byrjaði fyrst í sjúkraliðanáminu í fjarnámi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 2014.

„Skömmu síðar tók við erfiður kafli í lífi mínu sem ég þurfti að kljúfa áður en ég tók upp þráðinn við Menntaskólann á Ísafirði árið 2017. Námið tekur alls sex annir en ég tók það á mínum hraða,“ segir Jónína sem naut hverrar stundar í bæði bóklega og verklega náminu.

„Það kom mér á óvart hvað nám í sjúkraliðun er fjölbreytt og ekki bara tengt við eitthvað eitt því það býður upp á svo margt til lengri tíma litið. Skemmtilegast fannst mér að ná áföngunum og fá góðar einkunnir og verknámið á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi mun lifa með mér það sem eftir er. Erfiðast í náminu þóttu mér hins vegar ritgerðirnar. Hvað er eiginlega málið með þær? Mér þótti þær bæði leiðinlegar og tilgangslausar, og þykir enn,“ segir Jónína og kímir.

Hún er nú starfandi sjúkraliði á bráðadeild sjúkrahússins á Ísafirði, þar sem hún naut starfsþjálfunar í fyrrasumar.

„Þar líður mér rosalega vel, umkringd snillingum og við erum sannarlega frábært teymi. Starfið er alveg jafn heillandi og ég átti von á og í því finnst mér ég vera á heimavelli. Sem manneskjur eiga sjúkraliðar sameiginlegt að vera ofurblíðir naglar með ríka þörf fyrir að öllum líði vel.“

Hanna er yngsta barn Jónínu og Halldórs, fædd árið 2018. Hér fín í matrósakjól með slaufu í hárinu.

Ekki er allt metið til fjár

Í sjúkraliðanáminu lærði Jónína Guðrún líka sitthvað um sjálfa sig.

„Ég, eins og svo margir, er minn eigin versti gagnrýnandi, en námið sýndi mér fram á að ég get svo miklu meira en ég hafði áður talið mér trú um. Mig langar að gefa það besta af sjálfri mér og verða eins góður sjúkraliði og ég get. Það besta við starfið er að sjá bata sjúklinganna, að vera hluti af þeim áfanga að þeir nái bata og komist heilir heim. Það er tilfinning sem verður ekki metin til fjár, enda gefur starf sjúkraliðans svo miklu meira en bara launaseðilinn,“ segir Jónína, sæl í sínu starfi.

Á Íslandi er mikill skortur á sjúkraliðum og mælir Jónína heilshugar með náminu sem og starfinu.

„Ég mæli algjörlega með því við alla sem hafa þetta í sér að fara í námið. Það er ótrúlega skemmtilegt og gefandi og í því eignaðist ég vini til lífstíðar. Það skiptir engu máli þótt lífið sé farið af stað með öllu sínu annríki á öðrum vígstöðvum; það er aldrei of seint að læra eitthvað nýtt, maður tekur það bara á sínum hraða og útskrifast á endanum. Núna er ég að taka áfanga sem ég átti eftir upp í stúdentsprófið og eftir það mun ég halda áfram að mennta mig meira. Ég er sko alls ekki hætt,“ segir Jónína kát.

Í takti við tímana þurftu útskriftarnemar að vera með grímur fyrir vitum.