Hljómsveitin Superserious er samansafn af fólki sem elskar að semja tónlist og flytja hana, sérstaklega fyrir annað fólk, segja systkinin Daníel Jón Jónsson, söngvari og gítarleikari, og Heiða Dóra Jónsdóttir, söngkona og textasmiður. „Tónlistin er stundum góð, oftast glaðleg og alltaf hress. Hún virkar vel til þess að tralla og dilla sér með,“ segir Heiða. Auk þeirra skipa Superserious þeir Haukur Jóhannesson á gítar, Helgi Einarsson á trommur og Kristinn Þór Óskarsson á bassa, hljómborð og pródúser.

Sveitin tók nýlega upp fyrstu plötu sína í Malmö í Svíþjóð. „Hljóðverið heitir Gula Studion þar sem Arnar Guðjónsson var með okkur á tökkunum, sá mikli meistari. Platan nær að blanda saman indí-rokki, pönki, poppi, lagom og Ikea, öllu saman í einn vegan bragðaref. Ekkert nema lög sem vonandi gleðja og seðja gítarþyrst fólk,“ bætir Daníel við.

Fyrsta lagið af komandi breiðskífu kemur út 21. október og heitir Bye Bye Honey. „Við munum spila talsvert á næstu mánuðum, til dæmis á tónleikum á Húrra og Sirkus í október. Einnig ætlum við að gefa allt sem við eigum í Iceland Airwaves í byrjun nóvember. Svo verða að sjálfsögðu útgáfutónleikar þegar platan kemur út, sem verður á næsta ári einhvern tímann. Útlönd ásamt alls konar ævintýrum og aukinni spilamennsku bíða okkar svo á næsta ári.“

Daníel og Heiða sýna hér lesendum inn í fataskápana sína.

Kjóllinn er frá Zimmermann og hvítu skórnir eru fermingarskór Heiðu. Leðurjakki Daníels er frá Bolongaro Trevor og skyrtan var keypt í New York. Buxurnar eru frá Suitup Reykjavík og sólgleraugun eru frá Cutler and Gross.

Spurt og svarað

Hvernig hefur tískuáhugi þinn þróast undanfarin ár?

Heiða: Ég kaupi færri flíkur núna en leyfi mér að eyða meiru í hverja flík

Daníel: Maður reynir að hafa puttann á púlsinum eins og maður getur. Hérna áður fyrr var ég aldrei með puttann á púlsinum en með árunum hefur puttinn alltaf færst nær púlsinum og nú myndi ég segja að ég sé með puttann á púlsinum.

Hvernig fylgist þú helst með tískunni?

Heiða: Ég fylgist ekki með tískunni. Eða jú, ég horfi kannski á annað fólk og skoða hverju það klæðist og hvað fæst í búðum. En ef það passar ekki að mínum stíl þá gef ég því ekki gaum. Ég fylgi bara minni eigin tísku, sem er miklu betra því að það dettur þá aldrei neitt úr tísku, nema bara að mér finnist það ekki lengur flott sjálfri.

Daníel: Ég fer alltaf á tískusýningu í París, tvisvar á ári. Þannig næ ég að hafa puttann á púlsinum og koma fólki á óvart með nýjustu flíkunum. Í ár eru það vesti.

Hvar kaupir þú helst fötin þín?

Heiða: Ég var voða hrifin af Karen Millen, en þau breyttu um eiganda og stíl. Þannig að nú kaupi ég bara frá þeim notaðar flíkur. Núna á ég nýtt uppáhaldsmerki sem heitir Zimmermann og er ástralskt, eins og kærastinn.

Daníel: Ég fékk alltaf gamlar flíkur frá Heiðu þegar ég var yngri en núna fæ ég flest mín föt frá annarri systur minni, Hafdísi, en hún er fædd árið 2001. Heiða er nefnilega fædd 1982 og því erfiðara fyrir hana að hafa puttann á púlsinum, ólíkt Hafdísi, en hún er stöðugt með puttann á púlsinum.

Hvaða litir eru í uppáhaldi?

Heiða: Eftir að ég átti yngri strákinn minn hef ég verið sjúk í bleikan lit. Það eru hormónar held ég.

Daníel: Rauður er soldið haustið 2022 en er að reyna að minnka rauðan hjá mér því of mikill rauður er ekki góður. Þá er gott að nota föt með „gradient“ mynstri, kannski rautt efst en hvítt neðst.

Hvaða þekkti einstaklingur er svalur þegar kemur að tísku?

Heiða: Haukur Jóhannesson er flottur í öllu sem hann klæðist og Björk er með flottan stíl. Svo er móðir mín, Anna Kristín Daníels­dóttir, mikil fyrirmynd þegar kemur að tísku.

Hvaða flíkur hefur þú átt lengst og notar enn þá?

Heiða: Fermingarskóna.

Daníel: Ég á nærbuxur sem ég hef átt síðan ég var svona tólf ára og er í þeim núna.

Hér klæðist Daníel gömlum kraftgalla frá móður sinni. Heiða klæðist brúnum buxum, ljósri peysu og silkiklút frá Zimmermann. Sólgleraugun eru úr Yeoman.

Áttu uppáhaldsverslanir?

Heiða: Yeoman er skemmtileg og Spaksmannsspjarir. Elska íslenska hönnun.

Daníel: Suit Up-gaurarnir eru alltaf með puttann á púlsinum. Þeir eru duglegir að koma með jákvæða styrkingu þegar maður labbar inn, hrósa manni, gefa manni fimmu og þess háttar. Þannig vil ég hafa það.

Áttu eina uppáhaldsflík?

Heiða: Nei, erfitt að velja.

Daníel: Guinness sokkarnir koma sterkir inn. Þeir eru tveir.

Eyðir þú miklum peningum í föt miðað við jafnaldra þína?

Heiða: Daníel segir að ég ætti að senda verðkönnun á elliheimilið. Læt það nægja sem svar hér.

Daníel: Það er sko ekki ódýrt að hafa puttann á púlsinum. En maður tekur lán ef þess þarf til að halda þessari martröð gangandi.

Áttu minningar um gömul tískuslys?

Heiða: Ég man að ég heimtaði að fara í sparikjól í sveitarferð þegar ég var svona sex ára. Þá var ég í skóla á Írlandi þar sem við klæddust skólabúningum. Ég var svo spennt að fá að klæðast mínum eigin fötum og vildi vera í því allra fínasta sem ég átti. Allir hinir krakkarnir voru klædd í sveitagalla, en ég endaði í pallíettupilsi í forarpitti. Hitt tískuslysið sem ég man eftir var þegar ég snoðaði mig þegar ég var 14 ára. Það héldu allir að ég væri strákur af því ég klæddist í hiphop fötum á þessum tíma. Allir að kalla mig „væni“.

Daníel: Nei, ég er alltaf með puttann á púlsinum en fólk sem talar um tískuslys er mjög „lame“ og örugglega að stunda tískuslys í þessum töluðu orðum. Enginn putti á þeirra púlsi.

Bestu og verstu fatakaupin?

Heiða: Verstu kaupin eru t.d. nærföt sem ég keypti í Lindex nýlega án þess að máta þau (leti) og ég leit síðan fáránlega út í þeim. Og líka allir spariskórnir sem ég á. Ég get ekki labbað í svona skóm. Kaupi endalaust af þeim og nota aldrei. Bestu kaupin eru Spaksmannsspjarir loðið mitt sem ég hef notað sem flík, kodda eða dýnu í flugi. Það er svo fallegt en líka hlýtt. Það er besta combóið. En ekki sletta á mig rauðri málningu plís.

Daníel: Tuxedo-inn er bæði bestu og verstu kaupin mín. Fékk góðan díl hjá vinum mínum í Suitup Reykjavík og því ætla ég að gefa þeim gott „shout out“ hér. En líf mitt snýst um að finna tilefni til að fara í þennan tux. Það er að taka yfir allt hjá mér. Ég keypti hann fyrir verðlaunaafhendingu sem við töpuðum svo. Nú er ég nota hann í annað skiptið og hugsa ég stöðugt um að finna ástæðu til að fara í hann í þriðja skiptið. Kannski á Iceland Airwaves.

Hægt er að fylgja Superserious eftir á Facbook og hlusta á útgefin lög á Spotify.