Það er óhætt að segja að Brynjar Eymundsson matreiðslumeistari hafi upplifað ýmislegt á 55 ára starfsferli sínum þar sem hann hefur m.a. komið nálægt skipulagi og veitingum í næstum 1.000 brúðkaupum.

„Við G. Elsa Guðmundsdóttir, eiginkona mín, stofnuðum og rákum Veisluna veitingaeldhús á Seltjarnarnesi í þrettán ár, frá 1988 til 2001. Á þessu tímabili komum við að undirbúningi a.m.k. einnar brúðkaupsveislu á viku og stundum mörgum sama daginn.“

Brynjar byrjaði um fjórtán ára aldurinn að kokka til sjós á fiskibátum frá Hornafirði og segist hafa gert fátt annað síðan en að elda mat, auk hefðbundinnar skólagöngu í kokkanáminu.

„Ég rak og kokkaði í Félagsheimili Kópavogs eftir námið í nokkur ár og svo í fimm ár á Gullna hananum sem þá var efst á Laugavegi. Á þessum stöðum kom ég að þó nokkrum brúðkaupsveislum sem kveiktu sannarlega áhuga minn á þeim.“

Í dag reka hjónin veitingastaðinn Höfnina í miðborg Reykjavíkur, sem þau settu á fót árið 2010 og hefur notið mikilla vinsælda meðal Íslendinga og ferðamanna.

Byrjaði allt með símtali

Fyrir tíma tölvupóstsins og samfélagsmiðla byrjaði undirbúningurinn yfirleitt með símtali segir Brynjar.

„Þá voru verðandi brúðhjón búin að leggja línurnar varðandi húsnæði og samningar gerðir um matföng og þjónustu ýmiss konar. Það fór eftir stærð húsnæðis hversu víðtæka þjónustu þurfti en í öllum tilfellum fór maður á veislustaðinn og skipulagði veisluna með þeim. Samvinna við veislustjóra er alltaf hluti af góðri veislu því sannarlega er hægt að eyðileggja mat ef til dæmis tímasetningar eru ekki ráðgerðar með veislustjóra. Þá, eins og í dag, skiptir þó öllu máli að halda uppi léttleika í samskiptunum samhliða öruggum og faglegum vinnubrögðum.“

Stemningin kringum undirbúning brúðkaupa er iðulega skemmtileg þar sem blandast saman spenningur og eftirvænting í bland við hæfilegt magn af stressi.

„Brúðkaupsdagurinn er einn af þessum stóru dögum í lífi fólks og því er ábyrgð þjónustuaðila mjög mikil. Ekkert má fara úrskeiðis, aðeins má bæta væntingar fólksins á þessum degi.“

Persónulegri samskipti

Brynjar segir að margt fólk sem hann hafi unnið fyrir áður fyrr séu góðir vinir hans í dag.

„Við undirbúning brúðkaups verða samskipti persónulegri og kannski vandaðri en í mörgum öðrum veisluundirbúningi. Þarfir fólks eru misjafnar og oft þarf að skipuleggja með tilliti til þess, með tilheyrandi fundahöldum um ýmsar útfærslur í mat, drykk og skipulagi.“

Honum er sérstaklega minnisstætt eitt brúðkaup þar sem þurfti tólf samráðsfundi til að ná niðurstöður sem allir gátu sætt sig við.

„Alls kyns fjölskyldusamsetningar geta flækt svona framkvæmd og átti það sérstaklega við í þessu tilfelli. Helst var um svona tilvik þau ár sem við rákum Akógessalinn í Sóltúni, sem var mjög vinsæll undir brúðkaupsveislur. Þá var maður gjarnan hluti af öllu dæminu og í senn ráðgjafi og stundum sálufélagi.“

Brynjar kann margar skemmtilegar sögur af brúðkaupshaldi landsmanna. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Þróuðu margar hugmyndir

Á löngum starfsferli hefur Brynjar séð ýmsar breytingar á veisluborðum brúðkaupsveislna.

„Ýmsir réttir og nýjungar sem við bárum á borð fyrstu árin eru í dag til sem tilbúin matvæli í verslunum, eins og þessir klassísku laxaréttir, rækjur, humar og innbakaðar nautalundir. Seinna meir bættust í hópinn réttir úr kjúklingi og önd. Við Elsa, sem er lærð smurbrauðsjómfrú, byrjuðum strax í upphafi að þróa með okkur nýjar hugmyndir að smáréttum og blanda saman hennar danska smurbrauðskúltúr og hugmyndum mínum úr kokkaheiminum þar sem við lékum okkur eins og enginn væri morgundagurinn.“

Hann segir það ekki hafa verið sjálfsagt á þessum tíma að blanda slíkum deildum saman.

„En okkur finnst við hafa breytt talsverðu á þessum tíma með mjög mörgum nýjungum sem síðar urðu að vinsælum smáréttum á hlaðborðum hérlendis.“

Margar góðar minningar

Brynjar á eðlilega fjölmargar minningar frá síðustu áratugum sem tengjast brúðkaupum, ekki síst eigin brúðkaupi, en þau Elsa giftu sig á afmælisdegi hans árið 1983.

„Athöfnin fór fram í Áskirkju og við bæði í hvítu og rauðu frá toppi til táar. Skemmtileg uppákoma varð þegar ég kraup við altarið og heyrði klið frá kirkjugestum þegar þeir sáu stóran verðmiða neðan á nýju spænsku eldrauðu skónum mínum. Boðið var upp á flotta kaffiveislu og kampavín frá tengdó en sjálf vorum við búin að ákveða að eyða kvöldinu saman tvö á Hótel Holti. Þar beið okkar flottur kvöldverður með einkaþjóni sem var vinur okkar. Við höfðum farið löngu áður og valið borð, mat og drykk svo skipulagið var allt í góðu. Þegar við mættum hins vegar á staðinn var öll matarlystin farin eftir spenning dagsins og alls ekki hægt að drekka það í gang heldur þar sem hótelið, eins og flestir aðrir veitingamenn, átti ekki til áfengi eftir langt verkfall ríkisstarfsmanna.“

Óveðrið setti strik í reikninginn

Önnur brúðkaupsveisla sem er minnistæð var þegar hugmyndaríkur viðskiptavinur gerðist svo djarfur að leigja tvö stór tjöld og reisti þau skammt fyrir utan höfuðborgarsvæðið.

„Við bjuggum til mjög flottan mat fyrir á annað hundrað manns en tjaldaleiga fyrir veislur var ekki almenn þá, svo þetta þótti bæði sérstakt og skemmtilegt. Ekki vildi betur til en svo að það skall á okkur þvílíkt ofsaveður þannig að tjöldin nánast fuku ofan af fólkinu auk þess sem allt ætlaði að rigna í kaf. Óveðrið gekk þó yfir að lokum og þrátt fyrir nokkra seinkun fóru allir gestir glaðir heim. Ég er viss um að þetta hefur verið mjög minnisstæður dagur í lífi þessarra brúðhjóna.“

Guggnaði degi fyrir brúðkaup

Ekki enda þó allar sögur vel. Brynjar rifjar í lokin upp sögu af ungu pari sem aldrei giftist.

„Þetta var ung íslensk kona og útlendur kærasti hennar sem ætluðu að ganga í það heilaga. Þau voru búin að skipuleggja dæmið frá a-ö með fjölskyldum sínum og ég átti að sjá um matinn. Gert var ráð fyrir um 70 manns og fjölskyldur og vinir voru mættir til Reykjavíkur utan af landi og frá útlöndum. Mikill undirbúningur var kominn í gang í matargerðinni en eins og gjarnt er þá fer hann ekki allur fram samdægurs. Klukkan 23, kvöldið fyrir brúðkaupsdaginn, hringdi móðir ungu konunnar og bað mig að hætta undirbúningi því brúðguminn hefði guggnað og væri á leið úr landi um morguninn. Þetta var auðvitað talsvert áfall en sennilega betra þannig en að fara ósátt að altarinu. Úr þessu varð ágætis samkomulag og allir urðu sáttir en svona fór um sjóferð þá.“