Mikil spenna ríkir í Þorlákshöfn í dag en í kvöld er fyrsti heimaleikur Þórs Þorlákshafnar í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.

Það er stór dagur í dag fyrir íbúa Þorlákshafnar, en þá taka heimamenn í liði Þórs á móti liði Keflvíkinga í úrslitum Domino´s- deildar karla í körfubolta. Leikurinn í dag er fyrsti heimaleikur Þórs í úrslitunum en óhætt er að segja að liðið hafi komið flestum körfuboltaspekingum á óvart þegar það vann Keflvíkinga í fyrsta leik á nokkuð sannfærandi hátt.

Einn þeirra sem bíður spenntur eftir leiknum í kvöld er Grétar Ingi Erlendsson sem lék með liðinu á árum áður.

„Eftir að ferlinum lauk þá færði ég mig upp í stúkuna í klappliðið enda unun að horfa á fyrrum liðsfélaga ásamt rísandi ungstirnum taka við keflinu og byggja ofan á þann mikla árangur sem náðst hefur í körfuboltanum hér í Þorlákshöfn. Það getur þó stundum verið erfitt að vera einungis áhorfandi enda lifir maður sig af öllum krafti inn í leikinn.“

Þetta er í annað skipti sem lið Þórs Þorlákshafnar kemst í lokaúrslit en liðið komst síðast í úrslit á sínu fyrsta ári í efstu deild, árið 2012.

„Þá vann Grindavík okkar lið 3-1. Sú úrslitakeppni reyndist vera mikil og dýrmæt reynsla fyrir okkur sem leikmenn og auðvitað klúbbinn enda markaði þessi sería upphaf stöðugleika áranna í úrvalsdeild.“

Stemning og kraftur í samfélaginu

Hann segir Þorlákshöfn vera mikið körfuboltasamfélag og að bæjarbúar séu ótrúlega stoltir af leikmönnum sínum í bæði karla- og kvennaflokki.

„Hér hefur verið haldið vel á spöðunum í gegnum tíðina sem hefur orðið til þess að við höfum alið af okkur keppnisfólk í hæsta gæðaflokki. Það er ekki sjálfgefið að svona lítið samfélag eigi lið í efstu deild og því síður að kjölfestuleikmenn liðsins séu uppaldir heimamenn. Bæjarbúar hafa líka verið tilbúnir til að leggja á sig mikla og óeigingjarna vinnu til að dæmið gangi upp. Þetta fólk á allt mikið hrós skilið en það verður þó að taka Jóhönnu Hjartardóttur aðeins út fyrir mengið og hrósa henni sérstaklega, enda er hún móðir körfuboltans hér í bæ.“

Grétar segir það vera ómetanlegt fyrir þetta litla bæjarfélag, sem telur tæplega 2.300 íbúa, að eiga öflugan fulltrúa í svo vinsælli íþrótt.

„Það verður bara svo mikil stemning og kraftur í samfélaginu þegar vel gengur og jafnvel ótrúlegasta fólk fer að stoppa mann á förnum vegi til að ræða körfubolta.“

Liðsmenn Þórs Þorlákshafnar reyna að næla í fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í körfubolta.

Löng bið eftir leiknum

Biðin eftir leiknum í kvöld verður án efa löng fyrir marga stuðningsmenn liðsins en leikurinn hefst kl. 20.15.

„Ég geri ráð fyrir því að stemningin verði rosaleg í bænum í dag. Strákarnir tróðu sokk upp í ansi marga með stórsigri í fyrsta leik. Ég er fullviss um að þeir vilji fylgja þeim sigri eftir með geggjuðum leik í dag og færa okkur þar með skrefinu nær því að landa fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins.“

Hann segir daginn í dag vera frekar hefðbundinn en hann muni að sjálfsögðu senda góða strauma til félaga sinna enda fátt annað sem hann geti í raun gert.

„Svo reyni ég auðvitað að leggja mitt af mörkum til að hvetja þá áfram. Ég treysti þó mun meira á Græna drekann í þeim efnum enda er þar að finna fólk með sérfræðiþekkingu í að keyra upp stemningu. Ég fullyrði að það er ekki til betri stuðningsmannasveit á landinu.“

En hvað ætlar Grétar Ingi að gera ef Þór Þorlákshöfn vinnur Íslandsmeistaratitilinn?

„Við skulum orða það þannig að það verður fagnaður par excellance!“