Lag tónlistarkonunnar gugusar mun brátt streyma um heiminn í straumi Netflix þegar Ófærð 3 fer þar í dreifingu. Hún samdi lagið aðeins fimmtán ára gömul og þá hæddust skólafélagar hennar að henni.

„Þetta er þarna í Ófærð,“ segir Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, gugusar, um lagið Let Me Know sem er á fyrstu plötunni hennar sem kom út eftir að hún kom, sá og sigraði í Músíktilraunum, aðeins fimmtán ára, fyrir tveimur árum.

Lagið var spilað undir veigamiklu atriði í öðrum þætti þriðju seríu Ófærðar sem sýndur var á RÚV á sunnudag. Þáttaröðin verður einnig sýnd á Netflix og þaðan mun lag gugusar væntanlega ná eyrum milljóna notenda þessarar stærstu streymisveitu í heimi.

„Ég samdi þetta fimmtán ára, fyrir svona tveimur árum síðan,“ segir Guðlaug sem viðurkennir að hún hafi aldrei séð fyrir sér að lagið myndi einn daginn enda á stærstu streymisveitu veraldar.

„Alls ekki!“ segir hún hlæjandi. „Ég var líka í grunnskóla þegar ég gaf út plötuna og fékk mjög mikið „hate“ fyrir þetta. Það var gert mjög mikið grín að mér,“ segir hún. „Og gert grín að tónlistinni og nú er þetta á Netflix.“

Gugusar gaf út lagið Frosið sólarlag í fyrra sem vakti gríðarlega athygli.

Í einstökum aðstæðum í kófinu

Hún segist vera á fullu að semja nýja plötu en ekki setja sér nein tímamörk fyrir útgáfu. „Ég vil eiginlega ekki setja fram neina dagsetningu, því þá verð ég leið ef ég næ því ekki,“ segir hún á einlægu nótunum.

Guðlaug hefur verið í frekar einstökum aðstæðum í kófinu, í samanburði við aðra tónlistarmenn.

„Ég byrjaði eiginlega að semja tónlist bara svona rétt fyrir Covid og ég byrjaði að spila á fyrstu tónleikunum í Covid, þannig að þetta hefur bara alltaf verið svona fyrir mig og aldrei jafn mikið að gera hjá mér og í Covid sem er örugglega annað svar en frá öðrum tónlistarmönnum,“ segir Guðlaug létt í bragði.

Hún segist þó finna fyrir því að verkefnum og tónleikum fjölgi. „Og í stóru bylgjunum var minna að gera en nú er þetta að fara af stað.“