„Fálkarnir eru félagsskapur feðra í Val, stofnaður árið 2009 til að styðja við barna- og unglingastarf Vals. Það gerum við með því að safna fé með ýmsum hætti og veitum því í styrki,“ segir Einar Logi Vignisson, formaður Fálka. „Yfirgnæfandi meirihluti Fálkanna er ekki Valsarar, en þeir eiga börn í Val og þess vegna gerast þeir Fálkar. Þetta eru feður sem vilja láta gott af sér leiða og það er góður andi í klúbbnum.

Það gefur ákveðinn slagkraft í svona sjálfboðastarf að hafa formbundinn félagsskap. Virkir Fálkar eru um 50 og það er kosin stjórn á hverju ári sem sér um að manna vaktir á grillið yfir sumarið og í aðrar fjáraflanir,“ segir Einar. „Meðlimir leggja til vinnu sína og greiða jafnframt mánaðarleg félagsgjöld sem eru notuð til að standa straum af kostnaði, en afgangurinn fer í styrki. Þar fyrir utan reynum við að styðja félagið með öðrum hætti og tökum t.d. að okkur ýmis sjálfboðastörf og stöndum einnig fyrir viðburðum fyrir félagsmenn á veturna með fyrirlestrum o.fl.

Við fáum miklar þakkir frá Valsmönnum fyrir það sem við erum að gera og það eflir menn. Fálkarnir standa í þessu vegna þess að þetta er gaman. Það skiptir máli að allir séu glaðir og jákvæðir, þá nenna menn þessu,“ segir Einar. „Svo endar þetta auðvitað með því að flestir Fálkar verða miklir Valsarar, það er ekki hjá því komist í þessum öfluga klúbbi.“

Vettvangur Valskvenna

„Valkyrjur er félag kvenna í Val sem leggja sérstaka áherslu á jafnréttisstefnu Vals. Félagsskapurinn var stofnaður árið 2012 og í dag eru meðlimir 140,“ segir Magdalena Kjartansdóttir, formaður Valkyrja. „Valkyrjur taka þátt af ýmsum ástæðum og það er mikilvægt að starfsemi Valkyrja sé fjölbreytt svo breiður hópur geti fundið þar tilgang og verkefni við hæfi.

Valkyrjur vinna að verkefnum sínum á ýmsan hátt. Þar er vettvangur fyrir konur til að ræða málefni félagsins, þær beita sér fyrir kynjajafnrétti innan Vals og stuðla að því að auka sýnileika kvenna og fjölga þeim í stjórnum, ásamt mörgu fleiru,“ segir Magdalena. „Valkyrjur hafa komið að ýmsu gegnum árin, bæði hlutum sem tengjast þjónustu á leikjum og ýmsu félagsstarfi.

Stelpur hafa notið betri aðstöðu og aðbúnaðar síðustu ár en konur koma enn í minna mæli að ákvörðunartöku innan deilda Vals. Það gengur hægt en örugglega að bæta úr því,“ segir Magdalena. „Jafnrétti er mikilvægt innan íþróttahreyfingarinnar sem og annars staðar.

Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt að börn og ungmenni taki þátt í skipulögðu íþróttastarfi og það er bæði mikilvægt að halda í þann hóp sem hefur tekið þátt í starfi Vals og bæta í hann,“ segir Magdalena. „Við hvetjum konur til að ganga til liðs við okkur til að kynnast starfi Vals og hafa gaman saman.“